Útsjónarsamur Þröstur Þórhallsson við taflið í Hörpu. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Annað veifið beinist athygli skákáhugamanna að því eina afbrigði skákarinnar sem kennt er við Ísland, þ.e. „Íslenska bragðinu“, sem kemur upp eftir þrjá leiki en hefst með Skandinavíska leiknum: 1. e4 d5 2. exd5 Rf6 3. c4 e6!? Í þessari furðulegu byrjun gefur svartur peð og virðist engu skeyta þó að hvítur myndi sterkt peðamiðborð. Félagarnir Hannes Hlífar Stefánsson, Þröstur Þórhallsson og Davíð Ólafsson og sennilega einhverjir fleiri tefldu svona með góðum árangri á níunda áratug síðustu aldar. Þröstur sagði mér að hann hefði lært þetta af Jökli Kristjánssyni á skáknámskeiði sem haldið var á Kirkjubæjarklaustri fyrir 40 árum eða svo. Það blundar alltaf sú von í brjósti þeirra sem hrífast af gambítum að vinna eftir stutta en snarpa orrustu og það gerðist ótrúlega oft. Davíð vann t.a.m. miðsysturina Sofiu Polgar í 25 leikjum á Reykjavíkurmótinu 1988 en nokkru áður hafði Þröstur mátað þrautreyndan alþjóðlegan meistara Dana í 19 leikjum á opnu skákmóti í Noregi:

Opna mótið í Gausdal 1987:

Erling Mortensen – Þröstur Þórhallsson

Íslenska bragðið

1. e4 d5 2. exd5 Rf6 3. c4 e6 4. dxe6 Bxe6 5. Rf3 Rc6 6. d4 Bb4 7. Rc3 Re4 8. Bd2 Rxd2 9. Dxd2 De7

Hér er ein aðalhugmynd svarts komin fram, svartur hótar 10. … Bxc4+ og undirbýr jafnframt langa hrókun.

10. De3 0-0-0 11. 0-0-0 Hhe8!

Það er nánast ófrávíkjanleg regla varðandi þetta „bragð“ að skeyta því engu þó að hvítur nái að leika d4-d5.

12. d5 Bxc3 13. Dxc3 Rb4

Riddaranum er borgið í bili því að nú er hótunin 15. … Rxa2+ og drottningin fellur.

14. De5?

Hyggst tálma samspil þungu fallstykkjanna en nauðsynlegt var 14. Db3 og staðan er í jafnvægi.

14. … Rxa2+ 15. Kb1 Rb4 16. Be2

Reynir að koma einhverju skikki á liðskipan sína en svartur lumar á nýrri brellu …

16. … Bxd5! 17. Dxe7 Hxe7 18. Hhe1 Be4+ 19. Kc1 Ra2 má t.

„Sjálfsmark“ heimsmeistarans

Þó að finna megi leikaðferðir í knattspyrnu sem eiga sér einhvers konar hliðstæðu í skákinni, t.d. broddgaltaruppstillingu sem svo er nefnd og byggist á því að ná að stilla hvorki peðunum né léttu mönnunum framar en á sjöttu eða þriðju reitaröð eftir atvikum og ná þannig að verjast öllum atlögum og brjótast síðan fram þegar færi gefst, er fátt annað sem kemur í hugann. Nema kannski sjálfsmark. Á dögunum skoraði heimsmeistarinn nefnilega „sjálfsmark“ í einvígi sínu við Liren Ding í „Chessable masters“, móti sem fram fer þessa dagana á netinu. Málavextir voru þeir að í jafnteflisstöðu rofnaði samband við Kínverjann sem féll á tíma og Magnús fékk vinninginn. Í næstu skák skilaði Magnús þessu „ódýra marki“. Leikir féllu þannig: Liren Ding – Magnús Carlsen: 1. c4 e6 2. g3 Dg5 3. Bg2 Dxd2+ 4. Dxd2 – og svartur gafst upp.

Í knattspyrnu hefur það hent að menn slysist til að skora hjá mótherjanum þegar meiningin hafði verið senda boltann til baka samkvæmt ákveðnu „samkomulagi“ en þá jafna menn yfirleitt reikningana með því að skora strax í eigið mark. Þó ekki alltaf – eins og frægur leikur á Skaganum fyrir nokkrum árum sannar! Magnús er vel heima í málefnum knattspyrnunnar og gjörði rétt. Hann vann síðan Liren Ding örugglega, 6:3, og teflir til úrslita um helgina við Hollendinginn Anish Giri.

Skákþættir Morgunblaðsins eftir Helga Ólafsson birtast Skák.is viku eftir birtingu í blaðinu sjálfu. Þessi þáttur er frá 4. júlí 2020. 

Skákþættir Morgunblaðsins.

- Auglýsing -