Upphafsmaðurinn Spasskí á málþingi um skáksnilld Friðriks árið 2006. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Þessi saga um afbrigði í Tarrasch-vörn virðist ekki neinn enda ætla að taka. Hún hófst með því að vinur okkar Boris Spasskí vann fimmtu skákina í heimsmeistaraeinvíginu 1969 gegn Tigran Petrosjan í 30 leikjum. Það vissu ekki allir þá, en hann hafði undirbúið sig rækilega fyrir þá viðureign með miklum sérfræðingi í byrjunum, Lev Polugajevskí. Sá gat nokkrum mánuðum síðar nýtt sér afrakstur þeirrar vinnu þegar hann tefldi fræga skák við sjálfan Tal á Sovétmeistaramótinu 1969. Það haust var skákin birt í einu íslensku dagblaðanna og svo skemmtilega vildi að Friðrik Ólafsson var staddur skýjum ofar á leið til þátttöku á svæðamóti í Aþenu og gat lesið þar greinina og nýtt sér nýfengnar upplýsingar til að vinna eina skák þar. Bætti svo um betur þegar hann kom að „tómum kofanum“ hjá Wolfgang Unzicker á skákmóti í Lugano nokkrum mánuðum síðar.

Bobby Fischer lét sig ekki muna um að bæta nokkru við þekkingu manna með nýjum snúningi í níundu skákinni í einvíginu við Spasskí í Laugardalshöll og eftir það hreyfði Spasskí ekki drottningarpeðið í fyrsta leik í einvíginu. Svo liðu 16 ár og við Jón L. Árnason vorum að tefla á minningarmóti um Tschígorín í Sotsjí við Svartahaf og á ströndinni rákumst við á fyrrnefndan Lev Polugajevskí. Hann upphóf raus mikið um að helstu afbrigði skákbyrjana væru nú flest rakin til jafnteflis og ekki nokkur leið að fá betra út úr byrjun tafls. Ekki óalgengt umkvörtunarefni í þá daga en ég minnti hann á skákina við Tal, og Polugajevskí tók gleði sína aftur.

Í dag gera öflugustu forritin mönnum kleift að ráðast í allsherjar úttekt/endurskoðun á þekktum byrjunum. Allt er hægt og hið fræga afbrigði Tarrasch-varnarinnar hafa „vélarnar“ rifið í sig en það hillir samt ekki undir niðurstöðu. Í lokaeinvígi Magnúsar Carlsen og Anish Giri í Chessable Masters, sem Magnús vann 6:4, voru tímamörkin 15-10 og lykilsigurinn kom í þessu fræga afbrigði. Magnús skaut út fyrstu leikjunum langt fram í miðtafl, þ.m.t. mögnuðum peðsleik, 21. h4:

Chessable Masters 2020; 7. skák:

Magnús Carlsen – Anish Giri

Tarrasch-vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 d5 4. Rc3 c5 5. cxd5 Rxd5 6. e4 Rxc3 7. bxc3 cxd4 8. cxd4 Bb4+ 9. Bd2 Bxd2+ 10. Dxd2 0-0 11. Bc4 Rd7 12. 0-0 b6

Þessi uppstilling svarts er hluti „endurskoðunarinnar“ og hefur gefist nokkuð vel. Áður völdu menn riddara sínum stað á c6. Fischer sleppti því hins vegar að leika 8. …Bb4+ og lék 8. …b5!? Sú leið er vart talin teflanleg í dag.

13. Had1 Bb7 14. Hfe1 Hc8 15. Bb3 He8 16. He3 Rf6 17. d5 exd5 18. e5 Re4 19. De1 Dc7 20. Rd4 a6 21. h4!

Loftar út. Svartur getur ekki tekið e5-peðið vegna 22. f3. Giri á erfitt með að finna góðan leik.

21. … Hcd8 22. f3 Rc5 23. h5 Re6 24. Rf5

20. …a6 var ætlað að hindra Rb5-d6 en riddarinn kemst inn á d6 frá f5-reitnum.

24. … d4 25. Hed3 Rc5 26. Hxd4 Hxd4 27. Hxd4 Rxb3 28. Dg3! g6 29. axb3 Hd8

Býður upp á þrumuleik hvíts. Skást var 29. …Bxf3!? en eftir 30. Hc4! Da7 31. Rh6+ Kh8 (eða 31. …Kg7 32. Dg5 o.s.frv.) 32. e6! er svartur varnarlaus.

30. e6! Dc1+ 31. Kh2 Hxd4 32. e7!

Annar snjall millileikur. Hinn var 28. Dg3.

32. … Dc8 33. De5 Hh4+ 34. Kg3!

– og Giri gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtist á Skák.is viku síðar en í sjálfu Morgunblaðinu.

Skákþáttur þessi er frá 11. júlí 2020.

- Auglýsing -