Verðlaunahafar ásamt Elvari Erni, mótsstjóra. Mynd: Rúnar Sigurðsson.

Fimmtudaginn 23. júní fór fram sumarskákmót á Kex hosteli Skúlagötu. Glæsileg aðstaða er þar bæði inni og úti en þótt svalt hafi verið skein sólin inn í portið og iljaði mönnum meðan á taflmennsku stóð. Mótið var gríðarlega vel sótt, en 48 skákmenn mættu til leiks. Aðeins einu sinni hafa fleiri mætt á mót á vegum Miðbæjarskákar, þegar Iðnó mótið var haldið í september 2019. Algjör titilhafasúpa var mætt á mótið en til að einfalda skrifin set ég hér á eftir semikommunni þá titla sem nokkrir keppendur báru; GM, IM, FM, WGM, WIM, WFM, að ógleymdum einum CM. 

Teflt við frábærar aðstæður á Kex. Mynd: RS.

Elvar Örn Hjaltason kom mótinu í kring og er Kex Hostel virkilega skemmtilegur mótsstaður og góðar veitingar í boði. Það verður mót á sama tíma á sama stað eftir tvær vikur, reiknað til alþjóðlegra hraðskákstiga en mótshaldarar voru slakir á kantinum í þetta skiptið og var mótið í gær óreiknað. Það kom þó ekki í veg fyrir sviptingar og margar spennandi skákir. Reykjavíkurborg styrkti rausnarlega við mótahaldið en góð peningaverðlaun eru í báðum Kex-mótunum og fær borgin okkar bestu þakkir fyrir það. 

Forsetinn teflir við Vigni í 2. umferð. Sigurvegarinn Björn Þorfinnsson laut í gras gegn algjörum fauta. Mynd: Árni Sæberg/Morgunblaðið.

Lífskúnsterinn Björn Þorfinnsson sigraði glæsilega með 8 vinningum af 9 mögulegum. Hann leyfði sér einungis eitt tap gegn algjörum fauta í annarri umferð, en reis svo upp úr öskunni eins og fuglinn Fönix, sporðrenndi einum hrímuðum, og slátraði öllum sem á vegi hans urðu í næstu umferðum með öruggri taflmennsku, hvar kantpeðin voru kannski látin bíða aðeins með framrás sína. Það er ónefndum mótshaldara mikil gleði að hafa vakið upp þetta þvílíka come-back! Annar í mótinu var yngissveinninn Vignir Vatnar Stefánsson með 7 vinninga og þriðja sætinu deildu kumpánarnir Guðmundur Kjartansson og Helgi Áss Grétarsson með 6.5 vinning. Maður á til að nefna að auki hinn fagra hóp skákseggja sem fengu 6 vinninga í mótinu: Dagur Ragnarsson, Ólafur Þórsson, Lárus Knútsson, forseti, Arnar Gunnarsson, Róbert Lagerman og Sigurður Sigfússon. 

Ulker og Helgi Hauksson. Mynd: RS

Við Miðbæjarskákargumarnir minnum á næsta mót, fimmtudaginn 6. ágúst næstkomandi á Kex Hosteli klukkan 17 og þökkum í leiðinni fyrir frábærar viðtökur á fyrsta mótinu, við gerum bara ráð fyrir ennþá stærri veislu á því næsta! 

- Auglýsing -