Efstur Helgi Áss Grétarsson vann með fullu húsi hraðskákmót Menningarfélagsins Miðbæjarskákar sem fór fram í Gilinu á Akureyri sl. laugardag. Hér glímir hann við Davíð Kjartansson. — Morgunblaðið/Helgi Ólafsson
Við eðlilegar kringumstæður stæði nú yfir undirbúningur íslensku liðanna fyrir Ólympíuskákmótið sem átti að hefjast í Moskvu þann 5. ágúst nk. En mótinu hefur verið frestað fram á næsta ár. FIDE mun standa fyrir einhverskonar Ólympíumóti á netinu en keppnisfyrirkomulag þess er með gerólíku sniði. Ef stríðsárin og næstu ár þar á eftir eru undanskilin í upptalningu hafa ólympíumótin alltaf farið fram en stundum hefur litlu munað að ekkert yrði af mótshaldi.
Fyrsta opinbera ólympíumótið var haldið í London árið 1927 en Íslendingar voru fyrst með í Hamborg árið 1930. Mótið var haldið nánast á hverju ári allan fjórða áratuginn en árið 1936 stóð FIDE í lappirnar gagnvart kynþáttahyggju nasista og neitaði að viðurkenna Ólympíumótið 1936 sem haldið var í München.

Einn þeirra sem tefldu fyrir Íslands hönd á þessum árum var Baldur Möller. Í sumar eru 70 ár síðan hann varð Norðurlandameistari öðru sinni og í tilefni þess er áhugavert að skoða þátttöku hans á vettvangi ólympíumótanna. Baldur talaði stundum um að hann væri eiginlega tengiliður milli gamla tímans og hins nýja. Þegar hann varð Norðurlandameistari var hann tvímælalaust sterkasti skákmaður Íslands en yngri menn tóku síðan við kyndlinum og þar fór fremstur Friðrik Ólafsson.

Ef undan er skilið óopinbera ólympíumótið í München var Baldur fyrst með í Stokkhólmi árið 1937. Íslendingar voru að fikra sig áfram á þessum vettvangi og frammistaðan eftir því. Og hann var í sveitinni í Buenos Aires árið 1939 sem vann B-riðilinn og Copa Argentina eins og frægt varð. Jón Guðmundsson var stjarna liðsins en Baldur, sem fékk það erfiða hlutverk að tefla á 1. borði, stóð sig vel. Síðan liðu 17 ár og Baldur gaf kost á sér í lið Íslands sem tefldi á Ólympíumótinu í Moskvu haustið 1956. Liðið hefði með smá heppni getað náð sæti í A-úrslitum en tefldi í B-úrslitum. Frammistaða Friðriks á 1. borði, Guðmundar Pálmasonar á 4. borði og Baldurs Möller á 3. borði var góð en „farþeginn“ – 1. varamaður sveitarinnar, tapaði öllum fjórum skákum sínum í úrslitakeppninni og sveitin varð í 2. sæti. Baldur hlaut 11 vinninga af 16 mögulegum og var það þriðji besti árangur 3. borðs manns.

Lítum á tvö dæmi úr skákum Baldurs í úrslitunum:

Ólympíumótið í Moskvu 1956; 5. umferð:

Baldur Möller – Gotthard Backlund ( Svíþjóð )

51. g7+! Rxg7 52. Hxd6 Hh4 53. Bc5! Hxe4 54. Hf6+ Ke8

Eða 54. … Kg8 55. d6 og d-peðið rennur upp í borð.

55. Hf8+ Kd7 56. Hf7+ Kc8 57. Hxg7 Hc4 58. Bg1 Ha4 59. d6 Ha5 60. d7+

– og svartur gafst upp því að 60…. Kc7 má svara með 61. Bb6+ o.s.frv.

Í næstsíðustu umferð tefldu Íslendingar við Finna og gerðu jafnt 2:2.

Ólympíumótið í Moskvu 1956; 10. umferð:

Baldur Möller – Toivo Salo

24. Bxf5!

Dálítið óvæntur leikur sem svartur hefði átt að svara með 24. … gxf5. Þá gerir hvítur best í því að leika 25. He3, tvöfalda síðan hrókana á e-línunni. En Finninn gáði ekki að sér…

24. … Hxf5? 25. Rc4!

Óvæntur hnykkur. Hvítur vinnur skiptamun.

25. … dxc4

Eða 25. … Dd7 26. Hxe8+ Dxe8 27. Rd6 o.s.frv.

26. Hxe8+ Kf7 27. He2 Ba6 28. De3 Dd7 29. Hd2 Hd5 30. Hfd1 hxd2 31. Dxd2 De7 32. Dd5+ Kf8 33. Dd8+ De8 34. Hd7 bb5 35. Dxe8+

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Skákþættir Morgunblaðsins birtast viku síðar á Skák.is en í blaðinu sjálfur. Þessi skákþáttur er frá 18. júlí 2020. 

- Auglýsing -