Það hefur ekki farið framhjá neinum að skáklíf í heiminum hefur fært sig nánast alveg yfir í netheima. Undanfarna mánuði hafa bestu skákmenn heims leitt saman hesta sína á mótum á skákþjónunum chess.com, Chess24 og Lichess og sýnt hefur verið beint frá viðburðunum með skýringum þekktra meistara. Eins og lesa má í nýjustu grein Gunnars Björnssonar í Þjóðmálum hefur þetta vakið mikla ánægju, bæði erlendis sem og hér heima á Íslandi.

En það eru ekki bara þeir bestu sem tefla á netinu. Vinsældir skáklistarinnar hafa líka tekið kipp hjá byrjendum og áhugamönnum. Má þar helst þakka frumkvæði sterka skákmeistara sem hafa gert mikið af því að streyma skák í gegnum Twitch.tv og fjöldi fylgjenda þeirra og áhorf á útsendingar hefur aukist gríðarlega hratt. Bandaríski stórmeistarinn Hikaru Nakamura er sá vinsælasti í þessum hópi.

Nakamura, í samstarfi við Chess.com, og aðra skák-streymendur fór fyrr í sumar af stað með skákkeppni sem kallast Pogchamps. Hún snýst um það að mjög vinsælir streymendur, fólk sem spilar t.d. tölvuleiki og sýnir frá því í gegnum netið, tekur þátt í skákmótinu og fær í leiðinni þjálfun og einkatíma hjá sterkum skákmeisturum, eins og Nakamura sjálfum, alþjóðlega meistaranum Levy Rozman, WFM Alexandra Botez og fleiri mjög sterkum skákmeisturum. Skákirnar frá Pogchamps eru í öðrum gæðaflokki en skákir þeirra bestu. Um er að ræða fólk sem hefur mjög takmarkaða skákkunnáttu – en mjög mikinn metnað til þess að bæta sig! Og því verður ekki neitað að skemmtanagildið er mikið og það gengur oft ýmislegt á hjá skýrendum þegar keppendur leika af sér drottningum eða missa af máti í einum leik.

Samstarf skákmeistaranna og streymendanna hefur leitt til þess að áhorf og vinsældir beggja hópa hefur aukist gríðarlega. Fjöldi fylgjenda Nakamura hefur aukist upp í tæplega 500.000 á Twitch – fólk sem horfir hugfangið á hann streyma skák í gegnum netið. Og þakklætið er mikið. Fólk sem áður hafði ekki kynnst skák hefur sagt frá því að hún hafi bjargað sér í heimavistinni síðustu mánuðina – gefið sér tilgang og eitthvað að gera í annars bragðdaufri veröld.

Einn af þessum vinsælu streymendum, sem tekur þátt í Pogchamps, er Íslendingurinn Hafþór Júlíus Björnsson, sterkasti maður heims árið 2018. Hafþór er í hópi þeirra sem spilar tölvuleiki í gegnum netið og sýnir frá því í gegnum streymi. Hann hefur, eins og alþjóð veit, vakið mikla athygli sem Fjallið, The Mountain, í þáttunum Game of Thrones. Hafþór er einn úr hópi 16 streymenda sem mun taka þátt í Pogchamps 2 sem hefst 21. ágúst næstkomandi. Verðlaunapotturinn er ekki af verri endanum – 50.000 dollarar, eða um 5 milljónir íslenskra króna.

Hafþór Júlíus í hlutverki The Mountain í Game of Thrones – mynd: New York Times

Að sjálfsögðu verður sýnt frá öllum viðureignum mótsins í gegnum streymi á chess.com með skýringum Nakamura, Rozman, Botez og fleiri þekktra skák-streymenda.

Í undirbúningi sínum fyrir mótið hefur Hafþór, eins og aðrir keppendur, sótt einkatíma hjá Nakamura og Levy Rozman í gegnum netið. Það er lærdómsríkt, og stundum broslegt, að fylgjast með tímunum því getumunurinn er mikill og meistararnir þurfa oftar en ekki að útskýra hlutina á eins einfaldan máta og hægt er fyrir Fjallinu – sem er ekki mjög reyndur skákmaður. Hægt er að sjá upptökur frá einkatímunum og taflmennskunni á Youtube-síðu Nakamura og Twitch-síðu Hafþórs.

Úr einkatíma: Nakamura útskýrir kæfingarmát fyrir Hafþóri – mynd: Twitch.tv

Og þrátt fyrir að Hafþór Júlíus hafi einungis 785 skákstig á chess.com verður að teljast óumdeilanlegt að hann sé, um þessar mundir, sterkasti skákmaður heims.

- Auglýsing -