Útsjónarsamur Hilmir Freyr náði jafntefli gegn Stellan Brynell fjórum peðum undir. — Morgunblaðið/Heimasíða
Þrír ungir skákmenn, Dagur Ragnarsson, Vignir Vatnar Stefánsson og Hilmir Freyr Heimisson, verða vonandi innan ekki of langs tíma næstu titilhafar Íslendinga en þeir hafa allir nælt sér í áfanga að alþjóðlegum meistaratitli, hafa greinilega styrkinn sem til þarf og væru hugsanlega búnir að klára dæmið ef ekki hefði komið til stórkostleg röskun á keppnisvettvangi sem skákin hefur mátt þola eins og svo margar aðrar greinar.Danir gerðu í vetur hlé á skákmótahaldi en í júlímánuði rofaði loksins til og í Kaupmannahöfn lauk á dögunum opnu móti í tveimur styrkleikaflokkum. Í flokki stórmeistara sigraði Svíinn Nils Grandelius, en í flokki alþjóðlegra meistara varð hinn 18 ára gamli Hilmir Freyr Heimisson einn efstur, hlaut sjö vinninga af níu mögulegum, krækti sér í annan áfanga að titli alþjóðlegs meistara og hækkaði um tæplega 50 elo-stig. Hilmir vann sinn flokk á NM einstaklinga undir 20 ára í vetur en hefur ekkert getað teflt síðan.

Greinarhöfundur renndi yfir allar skákir Hilmis frá mótinu og það er alveg greinilegt að pilturinn er að finna sinn stíl; þegar best lætur teflir hann af miklum krafti, sniðgengur ekki flækjur, er útsjónarsamur í erfiðum stöðum og gefst ekki upp þótt á móti blási. Sænski stórmeistarinn Stellan Brynell var fjórum peðum yfir gegn Hilmi í 3. umferð sem virtist ekki hafa beinar bætur fyrir en samt náði okkar maður jafntefli! Þegar tvær umferðir voru eftir var heilmikið undir hjá Hilmi og þá kom þessi staða upp:

Copenhagen Chess challenge 2020:

Michael Vesterli – Hilmir Freyr Heimisson

Svartur hefur bætur fyrir skiptamun og „Houdini“ metur stöðuna jafna. En með þróttmikilli taflmennsku tókst Hilmi að skapa sér vinningsfæri:

35. … Ha3!

Með hugmyndinni 36. Hxb4 d2! og vinnur.

36. He1 Hc3

Svipuð hugmynd, 3676. Hxb4 gengur ekki vegna 37. … d2 38. Hd1 Rd3! og vinnur.

37. Hc1 e4!

Ryður brautina fyrir kónginn.

38. fxe4 Ke5 39. He1 Kd4 40. Kf2 b3!

Allt saman hnitmiðaðir leikir. Hvítur hefur ratað í mikil vandræði.

41. axb3 Rxb3 42. Kb1 Ra5 43. g4 Rxc4+ 44. Kb1 Hb3+ 45. Kc1 Kc3 46. Hd1 Re3 47. Hdd2 Rxg4 48. Hf7 Re5 49. Hxh7 Rc4 50. Hc7 Ha3 51. Hb1 Ha1+

– og hvítur gafst upp því að 52. Hb1 er svarað með 52. … d2+ og vinnur.

Í lokaumferðinni vann Hilmir svo snaggaralegan sigur.

Copenhagen Chess challenge 2020:

Hilmir Freyr Heimisson – Esben Hove

Slavnesk vörn

1. d4 d5 2. c4 c6 3. cxd5 cxd5 4. Rc3 Rc6

Svartur hefði getað orðið fyrri til og leikið strax 4. … e5!? en fræðimenn ýmsir mæla með þeim leik. Annað vinsælt afbrigði yngri manna okkar hefst eftir 4. … Rf6 5. f3.

5. e4! dxe4 6. d5 Rb8 7. Da4 Rd7 8. Bf4

Óþægileg staða fyrir svartan sem þarf að búast við Rb5-leiknum á hverri stundu.

8. … Rgf6 9. Hc1 Db6 10. Bc4 Rg4 11. Rh3 g5

Svartur er með alla mennina inni og reynir að losa um sig.

12. Bxg5 Bh6 13. Rxe4?!

Einfaldast var að hrókera.

13. … Bxg5 14. Rhxg5 f5

Hann varð að leika 14. … Rxf2! Eftir 15. Rxf2 De3+ 16. Kd1 Dxg5 er svartur sloppinn þó að hvíta sé betri eftir 17. Bb3.

15. Be2 Dxb2 16. 0-0! Dxe2

17. Rd6+!

Þessi lá í loftinu.

17. … Kf8

17. … exd6 er vitaskuld svarað með 18. Hfe1.

18. Re6+ Kg8 19. Rxc8 b5 20. Df4

– og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)

Skákþættir Morgunblaðsins birtast viku síðar á Skák.is en í blaðinu sjálfur. Þessi skákþáttur er frá 1. ágúst 2020

- Auglýsing -