Hver mun labba með þennan út í bíl á sunnudaginn?

Guðmundur Kjartansson tók í kvöld forystu á Íslandsmótinu í skák. Hann vann sína þriðju skák í röð og kemur sér í góða stöðu til að gera atlögu að sínum þriðja Íslandsmeistaratitli.

Nóg er þó eftir af mótinu og Dagur Ragnarsson var nálægt því að fylgja Guðmundi eftir en hann gerði jafntefli við Helga Áss í skák þar sem Dagur tefldi vel og hefði með smá heppni getað innbyrt vinning.

Kíkjum á gang mála í umferð dagsins.

Gauti Páll Jónsson – Hjörvar Steinn Grétarsson

Gauti Páll mætti til leiks væntanlega nokkuð pressulaus gegn stigahæsta keppandanum. Gauti er búinn að koma sér á blað strax í fyrstu umferð og miðað við stig er allir vinningar bónus fyrir Gauta. Gauti er þó metnaðarfyllri en það og ætlar sér eflaust meira úr mótinu.

Hjörvar mætti til leiks með hálfan vinning niður eftir strembna skák gegn Braga en vann mjög góðan sigur gegn Vigni í 2. umferð.

Gauti þeytti d-peðinu fram um tvo reiti og upp á borðið kom Nimzo-indversk vörn, nánar tiltekið Dc2 afbrigðið sem kennt er við Capablanca alla jafna. Hjörvar valdi rólega uppbyggingu og staðan líktist meira miðtafli úr Bogo-indverskri vörn ef eitthvað er.

Gauti tefldi byrjunina af festu og gaf engin færi á sér. Hjörvar reyndi að fiska eftir veikleikum en hvítur var ekki á þeim buxunum að gefa þá eftir auðveldlega. Gauti fékk svo fína sóknarsénsa og líklegast hefði 25.f4!? gefið ansi góð færi. Hjörvar náði þess í stað að verjast og svo fá betri stöðu í endataflinu. 46.Kg1 var líklega óþarfi en Gauti náði að laga til í stöðunni og finna góða varnarleiki og tryggði jafnteflið.

Sannarlega frábær byrjun hjá Gauta! Hjörvar er vissulega búinn að missa niður punkta en hefur samt teflt þokkalega og á mikið inni. Þó að Gauti sé vissulega betri en stigin gefa til kynna þá sýnir þessi skák og fleiri að nútíma skák er orðin rosalega erfið þar sem eiginlega vonlaust er orðið að ganga að vinningum sem vísum með svörtu mönnunum.

Báðir tefldu vel. Gauti fékk fína sénsa í miðtaflinu eftir flotta taflmennsku en síðan fékk Hjörvar smá sénsa á að snúa á Gauta í endataflinu þar til allt fjaraði út í jafntefli

 

Björn Þorfinnsson – Bragi Þorfinnsson

Bræðurnir þurftu að berjast í þriðju umferðinni. Þeir hafa stundum gert stutt jafntefli en samkvæmt sterkum heimildum átti að vera járn í járn í viðureign dagsins. Forlögin eru þó stundum furðuleg og mikil uppskipti og einfaldanir urðu í athyglisverðri stöðu og loks var þráskák óumflýjanleg.

Bragi má vel við una eftir sína byrjun en Björn þarf að gefa í ef hann ætlar sér frekari hluti á þessu móti!

Tíðindalítil skák á endanum þar sem hvítum tókst ekki að vinna úr litlum yfirburðum sem voru í boði í byrjun skákar

 

Dagur Ragnarsson – Helgi Áss Grétarsson

Dagur hafði byrjað glæsilega með sigra í fyrstu tveim skákunum gegn sterkum andstæðingum. Í skák dagsins þjarmaði hann verulega að stórmeistaranum Helga Áss Grétarssyni.

Í kóngsindversku miðtafli sá Dagur færi á uppskiptum sem alla jafna væru ekki í anda stöðunnar en gáfu að þessu sinni kost á liðsvinningum og færum. Þetta gaf Degi peð yfir til að vinna með en Helgi hafði biskupaparið sem bætur.

Fór svo að Helgi sem oft áður náði að verjast á seiglunni og skipta yfir í endatafl með mislitum biskupum. Góð skák hjá Degi samt sem kom sér í gott færi en jafnframt gríðarlega vel varist hjá Helga í skák þar sem margir hefðu misst móðinn!

Vel tefld skák þar sem hvítur pressaði en svartur náði að verjast af hörku

 

 

Guðmundur Kjartansson – Margeir Pétursson

Drottningarpeðið hjá Guðmundi var á boðstólnum að þessu sinni og Bogo-indversk vörn hjá Margeiri. Margeir valdi afbrigði sem gefur hvítum eftir miðborðið og Guðmundur náði að still upp í sterka miðborðsstöðu og Margeir sá eiginlega ekki annan kost en að gefa peð nokkuð snemma tafls til að fá færi.

Guðmundur kæfði alla tilburði til mótspils og tefldi eins og herforingi eins og hann hefur gert í öllum þremur skákunum hingað til. Guðmundur virðist vera í meistaraformi og verður gaman að sjá hvort einhver á roð í hann í þessum ham!

Enn ein skákin þar sem Guðmundur virðist bara herða og herða takið eftir því sem á líður í skákinni….eins og smá má á grafinu!

 

Vignir Vatnar Stefánsson – Þröstur Þórhallsson

Hér mættust tveir skákmenn með 0 vinninga af 2.  Vignir búinn að vera óheppinn með andstæðinga og með of fáa vinninga miðað við taflmennsku eftir fyrstu umferðirnar. Hann sýndi það í verki með vel útfærðri skák gegn Þresti. Hann fékk örlitla stöðuyfirburði til að vinna úr og blés til sóknar og þvingaði veikleika sem urðu að peðsvinningi. Úrvinnslan var svo flott og þéttur sigur í höfn hjá Vigni.

Vignir gaf aldrei eftir og hafði betra alla skákian skv. tölvureiknum.

Útsending 3. umferðar

Björn Ívar Karlsson kíkti við í byrjun útsendingar

Úrslit 3. umferðar

Tveir sigrar, og báðir með hvítu mönnunum.

Staðan eftir þrjár umferðir

Guðmundur fer vel af stað með 3/3. Pakkinn þar á eftir er nokkuð þéttur og margt á eftir að gerast á þessu móti!

Pörun í 4. umferð

Nær Helgi Áss að stoppa Guðmund?

 

- Auglýsing -