Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur og fyrrverandi alþingismaður hefur skrifað bók um Einvígi aldarinnar, sem svo var nefnt. Bókin ber nafnið „Einvígi Allra Tíma Spassky vs. Fischer í Reykjavík 1972.“ Mikill fengur er að bók Guðmundar. Hann tefldi hina pólitísku skák, sem var refskák á milli stórveldanna, Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Guðmundur var forseti Skáksambands Íslands á þessum tíma og eðlilega spyr hann sjálfan sig í formála bókarinnar, „Hvers vegna í ósköpunum að skrifa enn eina bókina um heimsmeistaraeinvígið í skák 1972. Nú þegar hafa verið ritaðar um 150 bækur um einvígið auk kvikmynda, sjónvarpsþátta, útvarpsþátta og blaða og tímaritsgreina um þennan viðburð.“

Engin bók hefur verið rituð fyrr en bók Guðmundar, af þeim mönnum sem eldurinn brann heitastur á. Margir sem hvöttu hann sögðu; „Það vantar frásögn innan frá, frá þeim sem stóðu þar sem sprengjurnar féllu.“ Frásögnin í meðferð Guðmundar verður spennusaga, lifandi og litrík, eins og við munum sem fylgdumst með einvíginu mikla. Aldrei hafði Ísland verið jafn mikið í fréttum alls umheimsins eins og í þeim átökum sem fylgdu Bobby Fischer í þessu áskorandamóti, og í raun átökum milli stórveldanna tveggja. Einvígið var stærra og meira en taflmenn á borði. Það voru átök á milli austurs og vesturs, pólitísk átök. Leiða má getum að því hversvegna Ísland var valið til að halda leiðtogafundinn í Höfða fjórtán árum síðar, þar sem aðrir tefldu skákina, þeir Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna og Mikhail Gorbatsjev leiðtogi Sovétríkjanna. Það var vegna þess hversu vel tókst til hér í fyrra einvíginu á hvítum og svörtum reitum. Ennfremur má fullyrða að skákeinvígið hefði aldrei verið haldið hér nema vegna þess að við áttum Friðrik Ólafsson, einn besta skákmann heimsins í áratugi, dáðan mann heima og heiman.

Guðmundur G. Þórarinsson tefldi líka hina stóru skák með aðdáendum Bobby Fischers þegar hann var frelsaður úr tugthúsi í Japan. Frá því segir einnig í bókinni. Þar beið Fischer þeirra örlaga, að verða framseldur til Bandaríkjanna, sem höfðu dæmt snilling sinn landráðamann og það sem beið hans var beiskur dauðdagi í tugthúsi. Þá bættist að vísu annar sterkur skákmaður á hinu pólitíska sviði í lið Fischers, Davíð Oddsson utanríkisráðherra. Við sem sátum á Alþingi þá minnumst enn skilaboða Davíðs, sem fór gegn vini sínum Georg Bush forseta Bandaríkjanna og skilaboðin voru þessi „Þetta er hraðskák.“ Það var eina björgunaraðgerðin sem gat frelsað Bobby Fischer frá tugthúsvistinni að gera hann að íslenskum ríkisborgara. Alþingi afgreiddi tillögu utanríkisráðherrans á 12 mínútum, og hersveitin sem var í Japan náði honum út og hann slapp með naumindum hingað. Herútkall Bandaríkjanna um handtöku var krafa á hverjum flugvelli.

Guðmundur rekur aðdragandann að einvíginu og hann ræðir um upphaf skáklistarinnar. Þar kemur í ljós að Friðrik Ólafsson stórmeistari hefur fengist við rannsóknir á uppruna skáklistarinnar og er langt komin með að finna fyrsta skákmann veraldarinnar. Bókin fjallar um æsku og uppruna bæði Fischers og Spasskys, snilld þeirra og órjúfandi vináttu og úr hverju þeir voru gerðir. Enn fremur fjallar bókin um alla heimsmeistarana áður en kemur að aðdraganda einvígisins 1972. Og síðar einvíginu sjálfu: „Einvígi allra tíma.“ Eftir það leggur engin bókina frá sér, slík er spennan og frásagnargleðin. Átökin berast inn á borð æðstu ráðamanna Íslands, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, átökin og kröfugerð Bobby Fischers er svo hörð að einvígið er hvað eftir annað að fara út um þúfur. Jafnaðargeð Spasskys er ótrúlegt og í raun Sovétríkjanna, en duttlungar og sérviska Fischers er yfirgengileg. Fram að einvíginu hefur hann aldrei unnið skák í viðureigninni við heimsmeistarann. Heimurinn stóð á öndinni og allra augu mændu á Ísland og hér voru hundruðir fréttamanna og öll helstu blöð þess tíma. Fischer gjörsigrar Spassky og Sovétríkin, stórveldi skáklistarinnar verður að lúta í lægra haldi.

Bókinni lýkur svo með öðru og enn magnaðra einvígi og uppgjöri Fischers við heimaland sitt Bandaríkin. Hann er landlaus og talinn landráðamaður við föðurland sitt. Neyðarkall Bobby Fiscers berst úr tugthúsi í Tokyo til Sæma rokk eða Sæmundar Pálssonar vinar hans um hjálp. Samtökin RJF eru stofnuð um frelsun Fischers. Þar eru þeir Einar S. Einarsson, Sæmundur Pálsson, Guðmundur G. Þórarinsson, Garðar Sverrisson, Helgi Ólafsson og Magnús Skúlason. Nú jaðrar við heimsstyrjöld við litla Ísland. Georg Bush forseti og Donald Rumsfeld varnarmálaráðhera eru snaróðir yfir framferði Íslendinga „Ætlar þessi litla þjóð að ganga í berhögg við helsta stórveldi heimsins og gera það afturreka með framsalsbeiðni sína,?“ Þannig voru viðbrögðin.

Bobby Fischer kom hingað og eignaðist annað föðurland og hvílir nú í kirkjugarðinum í Laugardælum. Jarðaförin fór fram um miðja nótt og tók 12 mínótur. Hún var hraðskák því að Bandaríkjamenn ætluðu að ná Fischer lifandi eða dauðum eins og Norðmenn Snorra Sturlusyni forðum. Mögnuð var neitun Davíðs Oddsonar þegar sendiherra Bandaríkjanna krafðist þess að Fischer yrði framseldur, Davíð svaraði: „Það er ekki hægt , við framseljum ekki Íslendinga,“ og þar við sat. Guðmundur segir svo frá afleiðingunum á alþjóðavísu og hefnd Bandaríkjanna þeir fóru með herinn og allt sitt hafurtask frá Íslandi. Í bankahruninu hjálpuðu Bandaríkjamenn öllum Norðurlöndum um reiðufé, nema neituðu að hjálpa Íslandi. Og sagan segir að samkomulag ESB og Bandaríkjanna í bankahruninu hafi verið sú að Lehman Brothers bankarnir yrðu gjaldþrota þar og vegna Icesave og hörku Íslendinga í því máli yrði Ísland gert gjaldþrota. En bókin er mögnuð lesning, allir þeir sem muna einvígið verða að lesa hana og ekki hinir síður sem fæddir eru eftir „Einvígi allra tíma.“

Guðmundi ferst eins og bóndanum á Svínafelli forðum í höll Sigurðar jarls. Hann ber öllum mönnum gott orð og því er honum trúað.

Guðni Ágústsson

Höfundar er fv. alþingismaður og ráðherra.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu, 24. nóvember 2020

- Auglýsing -