Hjörvar Steinn Grétarsson sigraði á Atskákmóti Íslands en mótið var haldið dagana 26. og 27. desember. Í fyrri hlutanum fóru fram sjö umferðir þar sem tefldar voru sjö umferðir og komust sjö efstu menn í útsláttarkeppni um titilinn. Tímamörk voru 10:3. Guðmundur Kjartansson fékk beinan keppnisrétt sem Íslandsmeistari 2019.

Í undankeppninni var Hjörvar Steinn hlutskarpastur með sex vinninga af sjö mögulegum en ½ vinningi minna fengu Jóhann Hjartarson, Davíð Kjartansson og Arnar Gunnarsson.

Hjörvar var talinn sigurstranglegur í úrslitakeppninni og einnig Jóhann Hjartarson, sem hefur verið duglegur að taka þátt í mótum á netinu undanfarið. Þeir mættust í undanúrslitum, unnu hvor sína skákina, en bráðabanaskák þeirra var hætt í miðjum klíðum vegna þess að skákstjórinn hafði stillt klukkuna vitlaust. Jóhann var þá með yfirburðastöðu. Þeir byrjuðu því upp á nýtt og Jóhann átti gjörunnið tafl en þegar hér komið sögu hafði leikið af sér með 30. Da7xc7.

Íslandsmótið í atskák 2020:

Jóhann – Hjörvar Steinn

Hér er tvímælalaust best að leika 30. … Dxe3 og eftir 31. Dxc8 Dxf4+ ásamt 32. … Dxe5 er staðan jafnteflisleg. Hjörvar valdi hins vegar að leika …

30. … Bxh3?! 31. Kxh3??

Gáir ekki að sér. Eftir 31. Df7! er hvíta staðan ennþá unnin.

31. … Dxe3+ 32. g3 Dxg1 33. Rg4 Dh1+

– og hvítur gafst upp.

Í úrslitum mætti Hjörvar Guðmundi Kjartanssyni og vann báðar skákirnar og titilinn.

Taflmennska á netinu gengur yfirleitt snurðulaust fyrir sig en stundum koma upp vandamál. Sambandið rofnaði hjá Davíð Kjartanssyni í bráðabanaskák við Arnar Gunnarsson og hann féll úr leik af þeim völdum.

Huginn í fjórða sæti á EM kvenna

Það er engu líkara en skákgyðjan Caissa hafi svifið vængum þöndum inn á sviðið í þáttaseríunni „Queen’s gambit“. Áhrifin eru þegar komin fram og við hæfi að konurnar eigi síðasta orðið við þessi áramót. Tvö íslensk skákfélög áttu tvö lið í Evrópukeppni klúbba sem fram fór á netinu dagana 21. og 22. desember. Huginn tefldi fram í borðaröð Lenku Ptacnikovu, Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur, Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, sem ekki hafði teflt opinberlega í 12 ár. Fjölnir hafði innan sinna raða Tinnu Kristínu Finnbogadóttur, Hrund Hauksdóttur, Lisseth Acevedo og Sigríði Björgu Helgadóttur. Tímamörk á hverja skák voru 15:5. Mótinu var skipt upp í fimm riðla en meðal þátttakenda voru hinar frægu Muzychuk-systur frá Úkraínu. Huginn hlaut sjö stig af 14 mögulegum og varð í 4. sæti í sínum riðli en Hallgerður og Jóhanna, sem hlutu fjóra vinninga af sjö mögulegum, bættu stigatölu sína um tæplega 300 elo-stig.

Lið Fjölnis hafnaði í 7. sæti af níu liðum í sínum riðli. Ljóst er að kominn er fram sterkur kjarni íslenskra skákkvenna og er það spá mín að vænta megi góðra frétta af þeim á nýju ári. Eftirfarandi staða kom upp í viðureign Hugins við þýskt lið skipað rússneskum skákkonum og þessum stórmeistara kvenna frá Úkraínu:

EM skákfélaga – kvennaflokkur 2020:

Olga Babiy – Hallgerður Helga

34. … Re5!

Nú eru báðir biskupar hvíts í uppnámi.

35. Be3 Hxf1! 36. Bxf1

Eða 36. Bxd4 Rf3+ og 37. … Rxd4

36. … Bxe3 37. Hxe5 Bf4+

– og hvítur gafst upp því að hrókurinn fellur.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 2. janúar 2021.

- Auglýsing -