Gengi manna í skákkeppnum hangir oft á einum leik í tvísýnni stöðu og eru um það óteljandi dæmi. Í mótaröð á netinu, sem heimsmeistarinn Magnús Carlsen skipuleggur ásamt fyrirtæki sínu Play Magnus group og fleiri aðilum, sannaðist þetta strax í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Þar atti hann kappi við Rússann Daniil Dubov. Magnús vann fyrstu skákina í fyrra fjögurra skáka einvígi þeirra en Dubov náði að jafna metin og niðurstaðan eftir fyrsta dag, 2:2. Dubov komst svo 1½:½ í seinni hrinu. Tvær skákir eftir og Magnús varð að jafna. Þá kom þessi staða upp:
Airthings Masters 2021:
Dubov-Magnús Carlsen
Dubov hafði misst þráðinn eftir góða byrjun og var nú með tapað tafl. Tveir voru kostir: að leika 34. … De7 eða 34. … Da5. Magnús valdi …
34. … De7??
Í ljós kemur að 34. .. Da5! vinnur strax t.d. 35. Dd4+ Kg5 36. Df4+ Kxh5 37. Dxf7+ g6 og ekki má taka hrókinn vegna máts eftir 38. … De1+ o.s.frv.
35. Dd4+ Kg5 36. f3!
Skyndilega getur svartur enga björg sér veitt því að 36. … Rf6 er svarað með 37. De5 mát!
36. … f5?!
Skárra var 36. … Dxd6 37. Dxd6 Kxh5 38. fxg4+ Kg6 með smá von um að halda jafntefli.
37. fxg4 Hc8 38. Df4 Kf6 39. Dxf5 mát.
Þar með féll Magnús Carlsen úr keppni og fannst löndum hans það súrt í broti því á norsku sjónvarpsstöðinni NRK voru beinar útsendingar alla keppnisdagana. Hugmyndin stendur fyrir sínu en 70 milljón manns fylgdust með mótaröðinni á síðasta ári. Öllum á óvart vann Aserinn Teimour Radjabov þetta mót eftir sigur yfir Levon Aronjan í úrslitaeinvíginu.
Næsta verkefni Magnúsar er stórmótið í Wijk aan Zee sem hefst um næstu helgi.
Skák ársins 2020
Aftur að Daniil Dubov en þessi 24 ára gamli Rússi tefldi án efa glæsilegustu skák ársins á rússneska meistaramótinu sem lauk rétt fyrir jólin með sigri Jan Nepomniachtchi. Dubov varð í 3.- 4. sæti á eftir Nepo og Karjakin og vann þá báða en skákin um ræðir var tefld í síðustu umferð:
Rússneska meistaramótið 2020; 11. umferð:
Daniil Dubov – Sergei Karjakin
Ítalski leikurinn
1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bc4 Bc5 4. c3 Rf6 5. d4 exd4 6. b4!?
Endurvekur gamlan og gleymdan gambít skyldan Evans-bragði.
6. … Bb6 7. e5 Re4?!
Staðan sem kemur upp eftir 7. … d5 8. exf6 dxc4 9. b5! er afar óljós.
8. Bd5 Rxc3 9. Rxc3 dxc3 10. Bg5 Re7 11. O-O h6 12. Bh4 O-O?!
Það er spurning hvort 12. .. g5!? hefði ekki verið betra. „Vélarnar“ eru a.m.k. á þeirri skoðun.
13. He1 De8 14. Bb3 a5 15. Bf6!
Upphafið á stórkostlegri atlögu.
15. … a4 16. Bc4 Rg6 17. Dd3
Hótar 18. Dxg6.
17. … d5 18. exd6 Be6
19. Dxg6! fxg6 20. Hxe6 Df7
Eftir 20. … Dc6 kemur 21. He7+ Dxc4 22. Hxg7+ Kh8 24. Hxc7+ Hxf6 25. Hxc4 og hvítur á góða sigurmöguleika í endatafli.
21. Bxc3 Kh8 22. He4 Df5 23. He7 Hg8 24. Bxg8 Hxg8 25. dxc7
Með hrók og léttan og þetta erfiða frípeð fær ekkert við ráðið.
25. … Dc2 26. Be5 Bxf2+ 27. Kh1 Bb6 28. h3 Kh7 29. He1 a3 30. Kh2
Hvítur fer sér að engu óðslega því að svartur má aldrei taka a2-peðið vegna – Hxg7+ o.s.frv. Lokaatlagan er frábærlega útfærð.
30. … g5 31. Rd4 Dc4 32. Rf5 Dxb4 33. Hc1! Kg6 34. Hxg7+ Kxf5 35. Hxg8 Bxc7 36. Bxc7 Db2 37. Hc5 Ke4 38. Hd8
– og Karjakin gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 9. janúar 2021.