Sigursveit A-sveit Taflfélags Reykjavíkur sigraði á Íslandsmóti barna og unglingaskáksveita sem fram fór um síðustu helgi. F.v. Batel Goitom, Ingvar Wu, Benedikt Þórisson og Kristján Dagur Jónsson. — Morgunblaðið/Heimasíða SÍ

Hjörvar Steinn Grétarsson og Íslandsmeistarinn Guðmundur Kjartansson hljóta að teljast sigurstranglegustu keppendurnir á Skákþingi Reykjavíkur sem hófst á sunnudaginn og er þetta jafnframt fyrsta skákmótið sem fram fer hér á landi með venjulegum umhugsunartíma síðan keppni í landsliðsflokki á Skákþingi Íslands lauk síðsumars í fyrra. Það er vel að framkvæmdinni staðið af hálfu TR-manna. Og fjöldi keppenda í opna flokknum er vel ásættanlegur. Hins vegar saknar maður margra sem tekið hafa þátt í þessu móti undanfarin ár en fyrir utan Hjörvar og Guðmund eru aðeins tveir aðrir skákmenn með yfir 2.300 elo-stig.

Eftir fyrstu tvær umferðirnar voru 10 skákmenn búnir að vinna báðar skákir sínar, þ.ám. fjórir þeir stigahæstu: Hjörvar Steinn, Guðmundur Kjartansson, Davíð Kjartansson og Vignir Vatnar Stefánsson.

Grandelius efstur í Wijk aan Zee

Þó að Svíar hafi eignast marga ágæta skákmenn þá stendur samt einn upp úr og um það deilir varla nokkur maður. Ulf Andersson var um langt skeið í hópi allra fremstu skákmanna heims og tefldi t.d. á 1. borði heimsliðsins árið 1984 gegn þáverandi heimsmeistara og fulltrúa Sovétmanna í keppninni, Anatolí Karpov. Hann vakti fyrst verulega athygli í Wijk aan Zee fyrir 50 árum og tókst þar að leggja sigurvegara mótsins, Viktor Kortsnoj, í löngu og ströngu endatafli.

Nú spyrja menn hvort Svíar séu aftur að eignast skákmenn í þessum styrkleikaflokki því að þegar tefldar hafa verið fimm umferðir á stórmótinu í Wijk aan Zee situr sænski „Íslandsvinurinn“ Nils Grandelius einn í efsta sæti. Staða efstu manna eftir fimmtu umferð: 1. Grandelius 3½ v (af 5) 2.-5. Magnús Carlsen, Caruana, Giri og Harikrishna 3 v.

Frakkinn Vachier-Lagrave hefur um langt skeið verið talinn einhver mesti byrjanasérfræðingur sem um getur. Afbrigði í sikileyjarvörn sem kennt er við Najdorf teflir hann betur en flestir. En Grandelius ákvað að taka slaginn í skák þeirra á fimmtudaginn:

Wijk aan Zee 2011; 5. umferð:

Nils Grandelius – Vachier Lagrave

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 d6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rf6 5. Rc3 a6 6. Bg5 e6 7. f4 Db6 8. Dd2 Dxb2 9. Hb1 Da3 10. f5

Alþekkt afbrigði og hér í eina tíð var yfirleitt leikið 10. … Rc6.

10. … Be7!? 11. fxe6 Bxe6 12. Rxe6 fxe6 13. Bc4 Rbd7 14. Bxe6 Rc5 15. Bb3!

Endurbót Svíans á skák sem Frakkinn tefldi við Caruana árið 2019.

15. … Hc8 16. 0-0 Rxb3 17. Hxb3 Dc5+ 18. Be3 Dc4 19. Hf4

Hótar 20. e5 og nú hefði verið best að leika 19. … Rh5.

19. … De6 20. Hxb7 0-0

Að teygja sig eftir „eitraða peðinu“ hefur heldur betur snúist við. Svartur er peði undir og með erfiða stöðu.

21. h3 Hb8 22. Ha7 Ha8 23. Hxa8 Hxa8 24. Rd5! Hb8

Alls ekki 24. … Rxe4? 25. Rxe7+ Dxe7 26. Dd5+ og vinnur.

25. c4 Bd8 26. Df2 Rd7 27. Dd4 Bg5 28. Hf5 Bh6 29. Kh2 Hc8 30. Dg3! g6

Eða 30. … Hxc4 31. Db3! Hxd4 32. Re7!+ og vinnur.

31. Dh4 Bf8 32. Hf6! De8

33. Hxf8+! Dxf8 34. Re7 Kf7 35. Rxc8

– og svartur gafst upp.

Magnús Carlsen vann Firouzja í fyrstu umferð og hefur gert jafntefli eftir það. Hann hefur unnið þetta mót sjö sinnum, oft með góðum endaspretti.

Efsti flokkurinn í Wijk aan Zee er venjulega hluti af mikilli skákhátíð en að þessu sinni er mótið eini skákviðburðurinn.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 23. janúar 2021.

- Auglýsing -