Í toppbaráttunni Jóhanna Björg er með fjóra vinninga af fimm mögulegum. — Morgunblaðið/Edda Sveinsdóttir

Hjörvar Steinn Grétarsson vann mikilvægan sigur á Skákþingi Reykjavíkur er hann lagði einn helsta keppinaut sinn, Íslandsmeistarann Guðmund Kjartansson, að velli í fjórðu umferð sem fram fór sl. sunnudag. Hjörvar tók yfirsetu í 5. umferð en er samt einn efstur eftir fimmtu umferð. Staða efstu manna var þessi fyrir sjöttu umferð sem fram fór í gærkvöldi:

1. Hjörvar Steinn Grétarsson 4½ v. (af 5) 2.-7. Vignir Vatnar Stefánsson, Guðmundur Kjartansson, Stephan Briem, Benedikt Briem, Gauti Páll Jónsson, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir 4 v. Athygli vekur góð frammistaða bræðranna Stephans og Benedikts og einnig Jóhönnu Bjargar Jóhannsdóttur. Hún tefldi glimrandi vel gegn Alexander Oliver Mai, sem hefur staðið sig vel undanfarið:

Skákþing Reykjavíkur 2021; 3. umferð:

Alexander Oliver Mai – Jóhanna Björg Jóhannsdóttir

Pirc-vörn

1. e4 d6 2. d4 g6 3. Rc3 Bg7 4. Be3 a6 5. Dd2 b5 6. f3 Rd7

Þessi leikaðferð gengur undir ýmsum nöfnum og er í dag kennd við sænska stórmeistarann Tiger Hillarp Persson.

7. h4 h5 8. Rh3 Bb7 9. Rg5 Rgf6 10. 0-0-0 0-0 11. d5

Þessi staða hefur ótal sinnum komið upp en þessi leikur hefur hins vegar ekki sést áður. Hæpin nýjung þó.

11. … c6 12. dxc6 Bxc6 13. g4 Re5 14. gxh5 Rxh5 15. f4 Rc4 16. Bxc4 bxc4 17. Bd4 e5 18. fxe5 dxe5 19. Bc5 He8 20. Df2 Dc7

21. Hdf1?!

Hvítur átti mun sterkari, 21. Hd6! því að 21. … Rf4 er svarað með 22. h5!, t.d. 22. … gxh5 (eða 22. … Rxh5 23. Hxh5! gxh5 24. Df5 og vinnur) 23. Hg1 með sterkri sókn.

21. … f6 22. Rh3 Db7 23. Dg2 Hab8 24. Ba3 Bh6+ 25. Kb1 Kh7 26. Hhg1 Hg8 27. De2 Bd7 28. Rf2 Be6 29. Rg4 Bf8!

 

Hárbeittur leikur. Biskupinn má ekki taka vegna máts á b2.

30. De3

Með hugmyndinni 30. … Bxa3 31. Dh6 mát.

30. … Bxg4 31. Rd5 f5 32. Dc3 Bxa3 33. Dxa3 Hg7

Þó að svartur sé manni yfir er mikillar aðgæslu þörf.

34. Dc3 Db5 35. Dxe5 Hgb7 36. b3 cxb3 37. axb3 He8 38. Dh2 Dc5 39. exf5 Bxf5 40. Hxf5

Lokatilraun til að hræra upp í stöðunni en er dæmd til að mistakast.

40. … gxf5 41. Dg2 Hg7 42. Rf6+ Kh8 43. He1 Hxe1+

– og hvítur gafst upp.

Jóhanna tefldi síðan ævintýralega baráttuskák við Gauta Pál Jónsson á miðvikudagskvöldið. Gauti Páll var hrók yfir fyrir peð og uppi var endatafl en frípeð Jóhönnu þvældust fyrir honum og niðurstaðan varð að lokum jafntefli.

Anish Giri efstur í Wijk aan Zee

Hollendingar hljóta að vera ánægðir með það hvernig til hefur tekist í Wijk aan Zee, en fyrsta stórmótinu í langan tíma lýkur þar um helgina. Þó að keppendurnir fjórtán stiki um sviðið með andlitsgrímu og fari í skimun reglulega er staðan í mótinu þannig að heimamenn hljóta að gleðjast. Fyrir elleftu umferð var þeirra maður, Anish Giri, einn efstur með 7 vinninga en með 6½ vinning í 2.-4. sæti voru Rússinn Esipenko, Caruana og Íraninn Firouzsja. Heimamaðurinn Van Foreest var einn í 5. sæti með 6 vinninga og svo er loks komið að sjöföldum sigurvegara mótsins, heimsmeistaranum Magnúsi Carlsen, sem var í 6. sæti með 5½ vinning. Hann átti að tefla við Anish Giri í gær með hvítt og sigur gaf honum veika von um að ná efsta sæti. Svíinn Nils Grandelius byrjaði vel en hefur gefið eftir og var fyrir umferðina í gær með 5 vinninga í 7.-9. sæti.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 30. janúar 2021.

- Auglýsing -