Lokaumferðin Vignir Vatnar og Arnar Milutin virða fyrir sér stöðuna. Fjær sjást Benedikt Briem og Pétur Pálmi Harðarson. — Morgunblaðið/SÍ

Ágætur maður sem var að koma með barn sitt á námskeið hjá Skákskólanum spurði hvort skákhreyfingin gæti ekki hafi not af sölum Rúgbrauðsgerðarinnar við Borgartún og varð úr að sameinuð keppni Meistaramóts Skákskóla Íslands 2020 og Unglingameistaramót Íslands 2020 fór þar fram um síðustu helgi. Vegna Covid hafði báðum þessum mótum verið frestað sl. haust.

Rúgbrauðsgerðin hefur áður komið við sögu skákarinnar á Íslandi og verður það ekki rakið í löngu máli en allir voru sammála um ágæti salarkynna og aðstæður voru til fyrirmyndar. Omar Salama, alþjóðlegur skákdómari, og Ingibjörg Edda Birgisdóttir, aðalskákstjóri mótsins, sáu til að allar viðureignir mótsins væru sýndar í beinni útsendingu á netinu.

Til mikils var að vinna á mótinu því að meðal verðlauna var sæti í landsliðsflokki í húfi. Vignir Vatnar Stefánsson var álitinn langsigurstranglegasti keppandinn; hann hafði unnið bæði mótin 2019 en efsta sætið hékk á bláþræði að þessu sinni því í lokaumferðinni varð hann að vinna Gauta Pál Jónsson, sem þá var einn efstur. Það tókst eftir 72 leikja baráttu og lokastaða efstu manna varð þessi:

1.-2. Benedikt Briem og Vignir Vatnar Stefánsson 5 v. (af 6) 3. Gauti Páll Jónsson 4½ v. 4.-5. Jóhann Arnar Finnsson og Pétur Pálmi Harðarson 4 v. 6.-10. Símon Þórhallsson, Kristján Dagur Jónsson, Arnar Milutin Heiðarsson. Ingvar Wu og Adam Omarsson 3½ v.

Samkvæmt hefð var teflt um sigurvegaratitilinn eða -titlana öllu heldur og á miðvikudagskvöldið fór fram tveggja skáka einvígi Benedikts og Vignis. Tímamörk voru 20:5 og vann Vignir báðar skákirnar og er því aftur tvöfaldur sigurvegari. Það er að vonum en hann getur bætt sig mikið með því að leggja harðar að sér við skákborðið. Í keppni við enn sterkari skákmenn dugar ekki að taka ákvarðanir hugsunarlaust. Dæmi:

Meistaramót Skákskólans/Unglingameistaramót Íslands, 5. umferð:

Vignir Vatnar Stefánsson – Jóhann Finnsson

Vignir lék nú án mikillar umhugsunar 37. Rd4 en eftir 37. … Hd1 ! náði svartur jafntefli. Hannes Hlífar Stefánsson benti á að hvítur gat leikið 37. Hxf8+! því að 37. … Kxf8 er svarað með 38. Hd8 mát.

Jóhann Arnar, sem hlaut fjóra vinninga, náði bestum árangri keppenda undir 2.000 elo-stigum. Hann hækkaði um 28 elo-kappskákstig. Kristján Dagur Jónsson náði bestum árangri keppenda undir 1.800 elo-stigum og hækkaði sig mest allra keppenda eða um 69 elo-kappskákstig. Þess ber að geta að fyrstu tvær umferðirnar fóru fram með tímamörkum at-skáka, 20:5.

Ingvar Wu var annar sem náði góðum árangri. Snemma móts vann hann mikinn varnarsigur yfir einum þeirra sem voru taldir líklegir til að berjast um efstu sætin:

Meistaramót Skákskólans/Unglingameistaramót Íslands, 3. umferð:

Birkir Ísak Jóhannsson – Ingvar Wu

Birkir hafði smátt og smátt misst niður sigurvænlega stöðu gegn úrræðagóðum andstæðingi sem lék nú …

75. … Re4!

Til að svara 76. a8(D) með 76. … Hb1 mát.

76. Hf8+ Kg4 77. Kg1

77. … Ha2?

Hann gat gert út um taflið strax með 77. … Rg3! með óverjandi hótun, 78. … Hg2 mát.

Framhaldið varð:

78. a8(D) Hxa8

79. Hxa8 Kg3

– og svartur átti vænlega stöðu og vann skákina eftir 82 leiki en á einum stað gat Birkir Ísak sennilega náð jafntefli.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 20. febrúar 2021.

- Auglýsing -