Næsti áskorandi? Jan Nepomniachtchi hefur vinnings forskot þegar fjórar umferðir eru eftir af áskorendamótinu í Yekaterinburg í Rússlandi. — Morgunblaðið/Voice press.

Þrátt fyrir nokkra óvissu um stöðu sóttvarnamála ákvað stjórn SÍ að hefja keppni í landsliðsflokki eins og áætlað hafði verið sl. fimmtudag í sal Siglingaklúbbsins Ýmis í Kópavogi án áhorfenda. Þar voru einungis tíu keppendur og nokkrir starfsmenn mótsins. Mótið er vel skipað en töfluröð lítur svona út: 1. Vignir Vatnar Stefánsson. 2. Alexander Oliver Mai. 3. Helgi Áss Grétarsson. 4. Sigurbjörn Björnsson. 5. Hannes Hlífar Stefánsson. 6. Hjörvar Steinn Grétarsson. 7. Guðmundur Kjartansson. 8. Björn Þorfinnsson. 9. Bragi Þorfinnsson. 10. Jóhann Hjartarson.

Hart var barist í 1. umferð. Ekkert jafntefli! Helgi Áss, Hjörvar Steinn, Bragi, Björn og Jóhann unnu sínar skákir.

Stigahæsti keppandinn, Hjörvar Steinn Grétarsson, ætlar sér áreiðanlega stóra hluti í þetta sinn og vann sigur á Hannesi Hlífari í spennandi skák fyrstu umferðar:

Hannes Hlífar Stefánsson – Hjörvar Steinn Grétarsson

Drottningarindversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 b6 4. g3 Ba6 5. b3 d5 6. Bg2 Rbd7 7. cxd5 exd5 8. 0-0 Bd6 9. Rc3 0-0 10. Bb2 He8 11. a3 c6 12. He1 Re4 13. Hc1 Bb7 14. b4 a5 15. bxa5 Hxa5 16. Rxe4 dxe4 17. Rd2 Rf6 18. Rc4 Hd5 19. Rxd6

Léttir um of á stöðu svarts. 19. Db3 Bc7 20. a4 kom sterklega til greina.

19. … Dxd6 20. Db3 h5 21. a4 h4!? 22. Ba3

Hjörvar hugðist sennilega svara 22. Dxb6 með 22. … e3 með flókinni stöðu.

22. … Dd7 23. e3 Hh5 24. Dxb6 Rd5 25. Db2

25. Db1 kom til greina en svartur á 25. … Ba6! – ekki 25. … f5 26. Bd6! og hvítur á betri stöðu.

25. … He6 26. De2 Heh6 27. g4 Hg5 28. h3 f5 29. f4 exf3 30. Bxf3 fxg4 31. hxg4 Hhg6 32. Kh1 c5!

Snarplega leikið. Nú opnast fyrir biskupinn. Báðir keppendur voru í talsverðri tímapressu sem Hjörvar höndlaði mjög vel.

33. e4 Hhxg4 34. Bxg4 Hxg4 35. Hb1 Hg5 36. Dh2?

36. Df1 gaf meiri von. Nú á svartur nokkrar leiðir til að knýja fram vinning.

36. … Hg3 37. Hxb7

Vonast eftir 37. … Dxb7 38. Dxh4!

37. … Dg4! 38. Hg1 Dxe4+ 39. Hg2 Re3 40. Hb8+ Kh7 41. He8 Db1+

– og hvítur gafst upp. Framhaldið gæti orðið 42. Hg1 Db7+ 43. Hg2 Rxg2 o.s.frv.

 

 

Lausnir á afturvirkum dæmum

Í síðasta pistli voru birtar tvær þrautir úr bókinni The chess mysteries of Sherlock Holmes:

Hvítur á leik.

Hver var síðasti leikur svarts – og hver var leikur hvíts þar á undan?

Svartur lék 1. … Kxa8 og leikur hvíts þar á undan var 1. Rb6-a8.

 

 

 

Svartur á leik. Er löglegt að hrókera?

Gefið er að hvorki hvítur né svartur hefur drepið annan taflmann í síðasta leik.

Síðasti leikur hvíts var ekki með peðinu á f3 því það hefði verið með uppskiptum, e2xf3. Ekki var hrók leikið því að frá e1 væri svarti kóngurinn í skák. Hafi kóngi verið leikið frá h2 eða h1 gæti svartur ekki hrókerað. Þá er sá möguleiki fyrir hendi að hvítur hafi hrókerað síðast. En hver var þá síðasti leikur svarts? Kóngs- eða hróksleik má útiloka. Ekki var það með biskupinum því að þá ætti hvítur engan leik sem leyfði stutta hrókun. Hafi svartur leikið c-peðinu þýddi það að síðasti leikur hvíts væri e2xf3 en þá hefði biskupinn á d1 verið vakinn upp af peði sem upphaflega stóð á d7, brotist í gegn á d2 með skák og þá gæti hvítur ekki hrókerað.

Svarið er því: Svartur getur ekki hrókerað .

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 24. apríl 2021.

- Auglýsing -