slandsmeistari Hjörvar Steinn Grétarsson við taflið á Kársnesinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Hjörvar Steinn Grétarsson, 27 ára, varð í gær skákmeistari Íslands í fyrsta sinn er hann lagði Sigurbjörn Björnsson að velli í spennandi lokaumferð. Þetta var fimmta sigurskák Hjörvars í röð á mótinu en helsti keppinautur hans, Jóhann Hjartarson, vann einnig sína skák. Framan af virtist Jóhann ætla að stinga aðra keppendur af því að hann var með fullt hús eftir þrjár umferðir og unnið tafl í þeirri fjórðu en andstæðingur hans, Björn Þorfinnsson, sneri taflinu sér í vil og vann. Í næstsíðustu umferð vann Bragi Þorfinnsson einnig Jóhann svo segja má að þeir bræður hafi átt stóran þátt í sigri Hjörvars.

Vignir Vatnar Stefánsson, sem er 18 ára gamall, náði öðrum áfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Hann tefldi vel en missti af jafntefli í skákum sínum við Jóhann og Guðmund Kjartansson.

Lokaniðurstaðan varð þessi:

1. Hjörvar Steinn Grétarsson 7 v. (af 9) 2. Jóhann Hjartarson 6½ 3 Guðmundur Kjartansson 6 v. 4. Bragi Þorfinnsson 5 ½ v. 5.-6. Vignir Vatnar Stefánsson og Helgi Áss Grétarsson 5 v. 7. Hannes Hlífar Stefánsson 4 v. 8. Björn Þorfinnsson 3½ v. 9. Sigurbjörn Björnsson 10. Alexander Oliver Mai ½ v.

Bestu skák Íslandsmeistarans má hiklaust telja viðureign hans við Helga Áss Grétarsson í næstsíðustu umferð. Helgi tefldi fremur meinlaust afbrigði gegn Nimzo-indversku vörninni og áður en varði hrifsaði Hjörvar til sín frumkvæðið, öflugur peðsleikur hans setti Helga í mikinn vanda. Undir lokin gaf hann Helga Áss þó eitt tækifæri en tíminn var naumur og Helgi lét sér það úr greipum ganga:

Skákþing Íslands 2021; 8. umferð:

Helgi Áss Grétarsson – Hjörvar Steinn Grétarsson

Nimzo-indversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 Bb4 4. e3 O-O 5. Bd2 b6 6. Rf3 Bb7 7. Bd3 d6 8. a3 Bxc3 9. Bxc3 Re4 10. Bxe4 Bxe4 11. d5 Rd7 12. O-O e5 13. He1 a5 14. f3 Bf5 15. e4 Bg6 16. g4?

Reynir að hindra framrás f-peðsins sem eykst að afli fyrir vikið. Eftir 16. Rc2 er staðan í jafnvægi.

16. … h5 17. h3 Dh4 18. Kg2 Rc5 19. De2 hxg4 20. hxg4

20. … f5!

Með hugmyndinni 21. exf5 Bxf5 22. gxf5 Hxf5 og hvítur ræður ekki við hótunina 23. … Hg5+.

21. Hh1 Dg5 22. Bd2 f4 23. Hh3 Rb3 24. Hd1 Kf7! 25. Kg1 Hh8 26. Dh2 Hh6!

 

 

 

27. Hxh6 gxh6 28. Rg2 h5 29. gxh5 Bxh5 30. Dh3 Rd4 31. Kf2 Hg8 32. Rxf4 exf4?

Þótt einkennilegt sé þá er þessi leikur ónákvæmur. Best var 32. … Bxf3 með vinningsstöðu.

 

 

 

33. Bxf4 Dg2+ 34. Dxg2 Hxg2+

35. Kxg2?

Hér missir Helgi af góðu tækifæri. Eftir 35. Kf1! rekja „vélarnar“ stöðuna í jafntefli: 35. … Bxf3 36. Hxd4 Kf6 37. Bd2 Ke5 38. Bc3 Hg4 39. Hd3+ Kxe4 40. Hd4+ Ke3 41. Hxg4 Bxg4 42. Bf6 og biskupinn læðist inn á d8 og uppskipti verða á nær öllum peðunum.

35. … Bxf3+ 36. Kd1 Bxd1 37. e5 Rf5 38. b4 a4 39. exd6 cxd6 40. Bg5 Bb3

– og hvítur gafst upp.

Mótið fór fram við góðar aðstæður í samkomusal Siglingafélagsins Ýmis við Naustavör í Kópavogi. Aðalskákstjóri var Ingibjörg Edda Birgisdóttir, alþjóðlegur skákdómari. Ingvar Þ. Jóhannesson bar hitann og þungann af beinum útsendingum frá skákstað. Mikilvægt framlag þar sem ekki var gert ráð fyrir áhorfendum á skákstað. Honum til halds og trausts við útsendingar voru Björn Ívar Karlsson og Arnar Ingi Njarðarson.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 2. maí 2021. 

- Auglýsing -