Hjörvar teflir í Sochi. Hann lék fyrsta leikinn á Meistarmóti Skákskólans í maí sl.

Íslandsmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson er meðal þátttakenda á heimsbikarmóti FIDE sem hefst 12. júlí nk. í Sotsjí við Svartahaf. Ekki liggur fyrir hver verður andstæðingur Hjörvars í fyrstu umferð mótsins sem fram fer eftir útsláttarfyrirkomulagi. Samkvæmt reglum um mótið verður pörun að liggja fyrir 20 dögum fyrir upphaf þess. Alls verða keppendur 206, þar af munu 156 hefja leikinn í 1. umferð en 50 stigahæstu keppendurnir komast beint í 2. umferð.

Sotsjí er þekktur staður í skáksögunni. Árið 2015 tefldu þeir Magnús Carlsen og Anand sitt annað heimsmeistaraeinvígi og á Sovéttímanum fóru þar reglulega fram öflug alþjóðleg skákmót.

Heimsmeistarinn Magnús Carlsen verður meðal keppenda rétt eins og þegar heimsbikarmótið fór fram á eyjunni Mön fyrir tveim árum. Tveir efstu menn öðlast þátttökurétt í næstu áskorendakeppni en þátttaka Magnúsar þar er vitanlega tryggð. Tapi Magnús heimsmeistaraeinvíginu fyrir Nepomniachtchi í Dubai í haust á hann samt öruggt sæti í næsta áskorendamóti. Hann hefur látið þau orð falla að þar sem langt sé um liðið síðan hann tók þátt í skákmóti við venjulegar aðstæður sé mótið í Sotsjí sé kjörið til þess að komast aftur í form. Vart þarf að taka fram að nær allir bestu skákmenn heims eru skráðir til leiks að áskorandanum Nepo undanskildum en hann vill nota tímann til að undirbúa sig fyrir HM-einvígið.

Kasparov teflir í Zagreb

Guðirnir ættu ekki að snúa aftur stóð skrifað einhvers staðar. Garrí Kasparov sem hætti að tefla hefðbundnar kappskákir fyrir meira en 16 árum er greinilega á annarri skoðun og hefur annað veifið tekið þátt í skákkeppnum með styttri umhugsunartíma. Nú ætlar hann að vera með á Grand chess tour, mótaröð sem hefst í Zagreb í Króatíu dagana 5.-12. júlí nk. Þar verður Wisvanathan Anand einnig meðal þátttakenda ásamt Jan Nepomniachtchi, Wesley So, Vachier Lagrave og Alexander Grischuk svo nokkrir séu nefndir. Fyrirkomulag mótsins er með þeim hætti að tefld verður tvöföld umferð hraðskáka og einföld umferð atskáka en atskákirnar hafa tvöfalt vægi á við hraðskákirnar.

Þó að Kasparov hafi átt í talsverðum erfiðleikum með kynslóð Magnúsar Carlsen er alltaf fjör í kringum þátttöku hans. Taflmennska hans er áhugaverð og verður gaman að fylgjast með honum í Króatíu.

Gott dæmi um handbragð hans eftir að ferlinum „lauk“ mátti finna í hraðskák sem hann tefldi við öflugasta skákmanna Frakka fyrir tíu árum:

Clichy 2011:

-Sjá stöðumynd 1-

Kasparov – Vachier Lagrave

48. e6! d2

Ekki dugar 48. … fxe6 vegna 49. g6 o.s.frv.

49. e7! d1(D)+ 50. Rxd1 Hxd1 51. h6

51. g6 vinnur líka en það er engin leið fyrir svartan að sleppa út úr leppuninni.

51. … Hd6 52. Kg2 Hd2+ 53. Kf3 Hd6 54. Ke2 He6+ 55. Kd3 Hd6+ 56. Ke4 b5

57. g6! fxg6 58. exd8(D)+ Hxd8 59. f7+

– og svartur gafst upp.

Eftir miklar frestanir vegna Covid-faraldursins hófst í gær í París eitt mótið á Grand chess tour sem fer fram með sama fyrirkomulagi og það sem stendur fyrir dyrum í Króatíu. Meðal þátttakenda eru Caruana, Nepomniachtchi, Kramnik, Wesley So, Aronjan og Vachier Lagrave.

Hægt er að fylgjast með mótinu á öllum helstu vefsvæðum skákarinnar, svo sem Chess24.com.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 19. júní 2021 

- Auglýsing -