Kaflaskil Fischer og Larsen við taflið í Denver. — Morgunblaðið/USCF

Bent Larsen var bjartsýnismaður og hann hafði fulla ástæðu til að vera bjartsýnn fyrir við upphaf einvígisins gegn Bobby Fischer í áskorendakeppninni í júlí 1971. Hann hafði unnið sannfærandi sigur yfir Uhlmann í fyrstu umferð og árangur hans í einvígjum var almennt séð góður; sigur yfir Portisch 1968 og stórsigrar gegn Tal og Kavalek 1969 og 1970. Hann var sigursælasti mótaskákmaður heims og hafði unnið innbyrðis viðureign við Fischer á millisvæðamótinu í Palma 1970. Hann mætti til Denver ásamt Lizzie konu sinni. Sem fyrr stólaði Fischer á Ed Edmondson. Ég veit ekki hvaða skýringar Larsen gaf á hrakförum Taimanovs en varla hefur honum vafist tunga um tönn. En sagan endurtók sig; Fischer vann aftur 6:0.

Öll viðtöl við Larsen eftir einvígið snerust um þau áhrif sem hann taldi að hitabylgjan mikla sem gekk yfir Denver hefði haft á taflmennsku sína. Nú er það svo að loftkæling á vettvangi, hvort heldur á keppnisstað eða hóteli, var með besta móti og fyrstu tvær skákirnar voru góðar baráttuskákir. Mér finnst eiginlega blasa við að Larsen hafi brotnað niður þegar hann áttaði sig á því hvert stefndi. Bjartsýnin vék fyrir doða og drunga. Eftir fjórðu skákina fékk hann að læknisráði nokkurra daga frí. Um það leyti birti Berlingske tidende viðtal við kappann undir fyrirsögninni: „Jeg vil hjem.“

Fyrsta skákin var hápunktur einvígisins. „Vélarnar“ leiða ýmislegt í ljós sem áður var hulið: „afleikirnir“ voru ekki afleikir en ónákvæmir kóngsleikir Larsens réðu mestu um það hvernig fór:

Denver 1971; 1. einvígisskák:

Bobby Fischer – Bent Larsen

Frönsk vörn

1. e4 e6

Misheppnað leynivopn. Franska vörnin hafði aldrei áður komið fyrir í skákum Larsens.

2. d4 d5 3. Rc3 Bb4 4. e5 Re7 5. a3 Bxc3 6. bxc3 c5 7. a4 Rbc6 8. Rf3 Bd7 9. Bd3 Dc7 10. 0-0 c4 11. Be2 f6 12. He1!

Fischer hafði áður leikið 12. Ba3.

12. … Rg6 13. Ba3 fxe5 14. dxe5 Rcxe5 15. Rxe5 Rxe5 16. Dd4 Rg6 17. Bh5 Kf7 18. f4 Hhe8 19. f5 exf5 20. Dxd5+ Kf6

Þessi staða kallaði fram miklar vangaveltur skákskýrenda. Niðurstaða „vélanna“ er sú að 21. Bd6! sé best og vinnur þvingað. En Fischer lék…

21. Bf3 Re5! 22. Dd4 Kg6 23. Hxe5!

Býður upp á ævintýralegar sviptingar.

23. … Dxe5 24. Dxd7 Had8 25. Dxb7 De3+ 26. Kf1 Hd2 27. Dc6+ He6 28. Bc5!

 

Hindrar mátið en Larsen hafði séð þetta fyrir …

28. … Hf2+ 29. Kg1 Hxg2+! 30. Kxg2 Dd2+ 31. Kh1 Hxc6 32. Bxc6 Dxc3

Drottningin berst við hrók og tvo biskupa. Margir töldu þennan leik ónákvæman.

33. Hg1+ Kf6?

Það er hvergi skjól! Best var 33. … Kh5 34. Bxa7 g5! og staðan er í jafnvægi.

34. Bxa7 f4 35. Bb6 Dxc2 36. a5 Db2 37. Bd8+

36. leikur Fischers var ónákvæmur og hér gat Larsen haldið jafnvægi með réttum kóngsleik, 37. … Kf5!, t.d. 38. a6 Dd4! sem stöðvar a-peðið.

37. … Ke6 38. a6 Da3 39. Bb7 Dc5 40. Hb1 c3 41. Bb6

– og Larsen gafst upp.

„Kraftaverk hefur gerst“ var fyrirsögn „Sovetsky sport“. Fischer var nú búinn að vinna 19 kappskákir í röð. Í vissum skilningi var hann nú kominn upp á geigvæna brún. Þátttaka hans í skákviðburðum hafði stundum hangið á bláþræði en hvern gat órað fyrir að ferli hans lyki ári síðar? Lokaeinvígi hans við Tigran Petrosjan var valinn staður í Buenos Aires í Argentínu.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 3. júlí 2021 

- Auglýsing -