Vignir mætti til leiks í nýjum serbneskum stuttbuxum í gær og vann! Mynd: SMP

Alþjóðlegi meistarinn, Vignir Vatnar Stefánsson (2361), teflir á sínu öðru alþjóðlegu móti í Arandjelovac í Serbíu.

Í fyrstu umferð sem fram fór í gær vann indverska alþjóðlega meistarann Nagpal Vardaan (2366). Önnur umferð fer fram í dag og þá mætir Vignir bandaríska FIDE-meistaranum Balaji Daggupati (2377).

Vignir teflir í þremur 10 manna lokuðum flokkum í Serbíu. Meðalstigin í öðru mótinu, sem nú er í gangi, eru 2425 skákstig. Vignir er næststigalægstur keppenda.

Czech Open er gangi í Pardubice í Tékklandi. Stórmeistararnir Hannes Hlífar Stefánsson (2517) og Guðmundur Kjartansson (2496) eru meðal keppenda.

Hannes gerði jafntefli í 2. umferð en Guðmundur tapaði. Andstæðingar þeirra voru á  stigabilinu 2240-2245.

149 keppendur taka þátt í efsta flokki Czech Open og þar af eru 15 stórmeistarar. Mótið er töluvert fámennara og veikara í ár sem án ef má rekja til heimsfaraldurs Covid-19. Hannes er áttundi í stigaröð keppenda en Guðmundur sá ellefti.

- Auglýsing -