Hörkubarátta Shankland t.v. og Karjakin við taflið sl. fimmtudag. — Morgunblaðið/Heimasíða FIDE.

Geta tvö tölvuforrit af sömu tegund orðið „ósammála“ um niðurstöður í útreikningum sínum? Greinarhöfundur var að fylgjast með seinni kappskák sjöttu umferðar heimsbikarmótsins í Sotsjí á fimmtudaginn og spennandi staða kom upp í þessari stöðu:

Heimsbikarmót FIDE 2021; 5. umferð:

Duda (Pólland) – Vidit (Indland)

Vidit hafði gefið riddara fyrir þrjú peð en var kominn í vandræði vegna frelsingjans á a-línunni. Hvítur átti tvo kosti, annars vegar að leika 38. cxb4 cxb4 39. Rc7 og síðan 40. a6, eða að leika strax 38. Rxb4 cxb4 39. a6. Stockfish á Chess24 taldi það greinlega besta kostinn en Stockfish á Chessbomb var á annarri „skoðun“ og taldi stöðu hvíts lakari eftir þann leik. Hún leiðrétti sig raunar síðar. Pólverjinn valdi kröfuharðari leikinn og virtist byggja ákvörðun sína á þeirri vissu að „þungu fallstykkin“ – drottningin og hrókurinn – hlytu að sjá um sitt:

38. Rxb4 cxb4 39. a6 bxc3 40. a7 c2 41. a8(D) Hb1+ 42. Kg2 c1(D)

Nú er báðir komnir með drottningu og svartur á þrjú peð en þau veita ekkert skjól.

43. Ha7+ Kf6 44. Df8+ Ke5 45. He7+ Kd5 46. Df3+ Kc5 47. Hc7+ Kb4 48. Db7+ Ka5 49. Da7+ Kb5 50. Db8+

– mátið blasir við og svartur gafst upp.

Með þessum sigri komst Pólverjinn áfram og teflir við heimsmeistarann í fjögurra manna úrslitum. Í sömu umferð vann Magnús Carlsen báðar kappskákirnar gegn Frakkanum Etienne Bacrot. Barátta Magnúsar við hinn 19 ára gamla Rússa Esipenko var æsispennandi og eftir að kappskákunum báðum lauk með jafntefli tók um fimm klukkustundir fá fram úrslit í tveimur atskákum og tveimur hraðskákum. Í augnablikinu standa miklar líkur til þess að í einvíginu um 3. sætið verði einnig teflt um sæti í áskorendakeppninni.

Rússinn Vladimir Fedoseev og Íraninn Tamin Tatatabaei tefldu í gær um sætið í undanúrslitum og það gerðu einnig Sam Shankland og Sergei Tiviakov. Shankland, sem hefur alið allan sinn aldur í Bandaríkjunum, vann fyrstu skákina á miðvikudaginn en tapaði á fimmtudaginn. Hann hefur léttan og skemmtilegan skákstíl og náði að slá úr keppni áttfaldan Rússlandsmeistara:

Heimsbikarmót FIDE 2021; 5. umferð:

Sam Shankland – Peter Svidler

Kóngsindversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 g6 3. h4!?

Smá sprell í byrjun tafls en Shankland vildi tefla á móti uppáhaldsbyrjun Svidlers, Grünfelds-vörninni, sem kemur upp eftir 3. Rc3 d5.

3. … Bg7 4. Rc3 d6 5. e4 Rc6 6. Rge2 0-0 7. f3 e5 8. d5 Rd4 9. Be3

Nú er skyndilega komið upp Samisch-afbrigði kóngsindversku varnarinnar.

9. … c5 10. dxc6 bxc6 11. Rxd4 exd4 12. Bxd4 Hb8 13. Dc2 c5 14. Bf2 Be6 15. 0-0-0 Rd7 16. Hxd6 Da5 17. Be1 Re5 18. f4?!

Gengur beint til verks en betra var að tryggja varnirnar með 18. b3.

18 … Rxc4 19. Bxc4 Bxc4 20. e5!

Hugmyndin var að loka á „kóngsindverska“ biskupinn.

20. … Hfd8 21. Hxd8 Hxd8 22. h5 Bxa2 23. hxg6 hxg6 24. Re4

Hin krítíska staða. Svidler getur haldið jafnvægi með 24. … Db5 því að drottningin valdar d7-reitinn.

24. … Db6?? 25. Bh4 Hd4 26. Rf6+ Kf8 27. Bf2!

Í þessu liggur munurinn. Svartur er varnarlaus.

27. … Bxf6 28. exf6 Dxf6 29. Dxc5+ Hd6 30. Dc8+!

– og Svidler gafst upp. Eftir 30. … Hd8 er einfaldast að leika 31. Dxd8+ Dxd8 32. Hh8+ Ke7 33. Bh4+ f6 34. Bxf6+ o.s.frv.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 31. júlí 2021.

- Auglýsing -