Góður árangur Lenka Ptacnikova varð í 2. sæti í keppni áskorendaflokks á Skákþingi Íslands. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Það fór eins og búist var við að Símon Þórhallsson varð einn efstur í áskorendaflokki Skákþings Íslands en mótinu lauk um síðustu helgi. Símon vann sjö fyrstu skákir sínar og gerði svo jafntefli í lokaumferðunum. Baráttan var í raun um 2. sætið sem einnig gaf þátttökurétt í landsliðsflokki. Fyrir síðustu umferð var Símon með 7½ vinning en Birkir Ísak Jóhannsson, Lenka Ptacnikova og Pétur Pálmi Harðarson komu næst með 6 vinninga. Birkir stóð best að vígi samkvæmt mótsstigum, en mætti hinum unga Benedikt Briem í lokaumferðinni, komst ekkert áfram og varð að sætta sig við jafntefli. Lenka og Pétur Pálmi tefldu spennuþrungna skák sem reyndist úrslitaviðureign um landsliðssætið. Pétur Pálmi, sem var með svart, lenti í miklum erfiðleikum eftir byrjunina en svo kom þessi staða upp:

Áskorendaflokkur 2021 9. umferð:

Lenka – Pétur Pálmi

Eftir að hafa byggt upp yfirburðastöðu missti Lenka þráðinn en lék síðast 32. Hf1-c1 . Pétur Pálmi svaraði með 32. … De7? og missti þar af tækifæri til að vinna skákina. Eftir 33. Bf1 og 34. Bg2 gat hvítur tryggt varnir sínar á kóngsvængnum og vann eftir 42 leiki. Eins og bent var á gat Pétur leikið 32. … Hh7! Og unnið því ekki dugar 33. Bf1 vegna 33. … Hh1+! 34. Kxh1 Dh7+ og mátar. Það kann að vera að Pétur hafi ekki áttað sig á því að leiki hvítur 33. Hc7 er besta svarið ekki 33. … Dd8, vegna 34. Hxh7 Kxh7 35.Bf1 og – Bg2, en hins vegar vinnur 33. … Hh1+! strax t.d. 34. Kxh1 Dd8! og svartur hefur á sérkennilegan hátt unnið leik í samanburði við afbrigðið hér að ofan og stendur til sigurs. Eftir þessa skák lágu úrslitin fyrir en efstu menn urðu: 1. Símon Þórhallsson 8 v. (af 9) 2. Lenka Ptacnikova 7 v. 3. Birkir Ísak Jóhannsson 6½ v. 4.-6. Einar Hjalti Jensson, Guðni Pétursson og Pétur Pálmi Harðarson 6 v.

Góð frammistaða í Uppsölum

Íslendingar áttu tíu keppendur á skákhátíðinni á skákmótinu í Uppsölum í Svíþjóð sem lauk um síðustu helgi. Aðalskipuleggjandi ferðarinnar var Helgi Árnason, fyrrverandi skólastjóri Rimaskóla, og voru nokkrir íslensku þátttakendurnir gamlir nemendur skólans. Teflt var í mörgum flokkum, þ.á m. þremur flokkum sem voru allir þéttskipaðir alþjóðlegum titilhöfum. Í opna flokknum náði Kristján Dagur Jónsson bestum árangri, hlaut fimm vinninga af sjö mögulegum og varð í 5. sæti af 62 keppendum.

Í IM-flokki I hafnaði Hilmir Freyr Heimisson í 4.-5. sæti. Hann átti góða spretti en tap í lokaumferðinni kom í veg fyrir hærra sæti. Þeir Dagur Ragnarsson og Vignir Vatnar Stefánsson tefldu svo í IM-flokki II. Dagur hefur lítið teflt síðasta árið og virkaði ryðgaður, hlaut 4½ vinning og hafnaði í 6.-7. sæti. Vignir Vatnar var nýkominn frá þremur mótum í Serbíu, hlaut sjö vinninga af níu mögulegum og varð í 2. sæti. Hann vann nokkrar skákir í góðum stíl: var í 6. umferð:

Skákhátíðin í Uppsölum 2021, 6. umferð:

Vignir Vatnar – Alexander Hart

Síðasti leikur svarts var 28. … f7-f5 sem Vignir svaraði snarlega með:

29. Dc8!

Hugmynd að kæfingarmáti, 29. … fxe4 30. Dxe6+ Kh8 30. Rf7+ Kg8 (30. … Hxf7 31. De8+ og mátar) 31. Rh6+ Kh8 32. Dg8+ Hxg8 33. Rf7 mát. Hart varð því að leika …

29. … Rf4

en eftir …

30. Bxa8 g6 31. Dc4! gafst hann upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 21. ágúst 2021. 

- Auglýsing -