Tilþrif Hilmir Freyr vann ungverska stórmeistarann með glæsilegri taflmennsku. — Morgunblaðið/Heimasíða REK/E

Með því að Reykjavíkurskákmótið/Evópumót einstaklinga sé komið í hinn gamla Kristalsal Hótels Loftleiða, sem nú heitir Hotel Natura, með aðliggjandi ráðstefnusal, fannst mér eitt augnablik við upphaf fyrstu umferðar, að skákin væri komin heim. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vék að þessum sterku tengslum hótels og skáklistar í setningarávarpi sínu. Í afkima einum milli Kristalsalar og ráðstefnu hefur fyrir tilstilli Einars S. Einarssonar verið komið fyrir ýmsum munum sem tengjast Reykjavíkurskákmótunum sem þarna fóru fram árin 1978-1990, einvígi Spasskís og Horts veturinn 1977 og því að í herbergi nr. 470 bjó Bobby Fischer meðan á heimsmeistaraeinvíginu stóð árið 1972 og einnig eftir að hann sneri aftur 33 árum síðar.

Sameinað Reykjavíkurskákmót og Evrópumót einstaklinga er við þær aðstæður sem nú ríkja ekki einföld framkvæmd en óvíst var fram eftir ágústmánuði hvort af þessu margfrestaða móti gæti orðið. En því var hrundið í framkvæmd og er það vel. Vissulega ber mótshaldið merki þeirrar óvissu sem Covid-faraldurinn hefur haft í för með sér; mótið er hólfað niður, keppendur og starfsmenn bera grímu og ekki er gert ráð fyrir áhorfendum. En til að sjá um skákskýringar hefur mótshaldarinn fengið til leiks hinn bráðhressa Ivan Sokolov og er hægt að fylgjast með útsendingum hans frá ráðstefnusalnum á chess24.com og https://www.reykjavikopen.com/live-broadcast-with-ivan-sokolov-and-guests/.

Íslensku stórmeistararnir unnu allir mun stigalægri andstæðinga í fyrstu umferð. Ég á von á góðum árangri úr þeirri átt. En það var Hilmir Freyr Heimisson, nýorðinn 20 ára, sem stal senunni með einhverri glæsilegustu skák sem tefld hefur verið í gamla Kristalsalnum. Hver þrumuleikurinn rak annan og jafnvel þegar farið var að saxast á tíma Hilmis gegn ungverska stórmeistarnum, og einum stigahæsta keppanda mótsins, gaf hann engin grið og mátaði kappann:

Opna Reykjavíkurskákmótið/EM einstaklinga 2021, 1. umferð:

Tamasz Banusz (Ungverjaland) – Hilmir Freyr Heimisson

Vængtafl

1. d4 Rf6 2. Rf3 d5 3. g3 c5 4. Bg2 cxd4 5. 0-0 h6 6. b3 e6 7. Bb2 Be7 8. Rxd4 0-0 9. c4 e5 10. Rf3 e4 11. Re5 dxc4 12. Rxc4 Ra6 13. Rc3 Rc5

Ungverjinn hefur hlýtur að hafa verið ánægður með þróun skákarinnar fram að þessu. Hvítur stendur betur að vígi en á þessu augnabliki tryggja rólegir leikir á borð við 14. Hc1 eða 14. Dc2 ákveðið frumkvæði.

14. b4 Be6!

Vel svarað en hvítur er samt með aðeins betra tafl leiki hann 15. bxc5 Bxc4 16. Dc2.

15. Ra5 Db6!

Riddarinn vill ekki víkja og svartur hefur jafnað taflið.

16. a3 Hfd8 17. Dc2

17. … e3!

Snarplega leikið. Hvítur hefur ratað í vandræði því að 18. fxe3 má svara með 18. … Rg4 o.s.frv.

18. f4 Hd2 19. Db1 Rd3

Þó að vélarnar séu ekki hrifnastar af þessum leik er hann samt góður og eina leið hvíts til að halda í horfinu er að leika 20. f5 þótt staða svarts sé mun betri betri eftir 20. … Hxb2 21. Dxd3 Hd8.

20. Ra4 Db5 21. Bd4

21. … Rc1! 22. Bxf6

Hvað annað? 22. Dxc1 er svarað með 22. … Dxe2 o.s.frv.

22. … Rxe2+ 23. Kh1 Rxg3+! 24. hxg3 Dh5+ 25. Kg1

Og þá kemur lokahnykkurinn:

 

 

25. … Hxg2+!

– og Banusz gafst upp. Eftir 26. Kxg2 Bd5+ er hann óverjandi mát.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 28. ágúst 2021

- Auglýsing -