Einbeittur Anton Demchenko við taflið í lokaumferðinni. — Morgunblaðið/Heimasíða REK/EM

Rússinn Anton Demchenko og Þjóðverjinn Vincent Keymer urðu jafnir og efstir á vel heppnuðu Reykjavíkurskákmóti/Evrópumóti einstaklinga sem lauk á Hotel Natura um síðustu helgi. Þeir hlutu báðir 8½ vinning af 11 mögulegum en Demchenko tefldi við stigahærri andstæðinga og er því Evrópumeistari einstaklinga. Baráttan um efsta sætið var hörð en frammistaða hins 16 ára gamla Vincents Keymers frábær. Eins og getið var um í síðasta helgarpistli hafa landar Keymers verið að bíða eftir öðru viðlíka afreki og því sem hann vann 2018 á opnu móti í Grenke í Þýskalandi.

Í 3.-4. sæti urðu Rússinn Alexei Sarana og Rúmenin Bogdan-Daniel Deac með 8 vinninga hvor. Þar á eftir komu 14 skákmenn með 7½ vinning. 23 efstu menn fá keppnisrétt á heimsbikarmóti FIDE sem fram fer á næsta ári.

Helgi Áss Grétarsson fékk flesta vinninga íslensku keppendanna, 7 vinninga af 11 mögulegum, með árangur sem reiknast upp á 2.458 elo-stig. Hann tefldi frísklega í lokahluta mótsins og vann góða sigra. Héðinn Steingrímsson, sem tapaði í lokaumferðinni, kom næstur með 6½ vinning og árangur upp á 2.492 elo. Þar á eftir komu Hannes Hlífar Stefánsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Vignir Vatnar Stefánsson og Jóhann Hjartarson, allir með 6 vinninga.

Í næstsíðustu umferð mótsins fór fram uppgjör efstu manna. Demchenko hafði hvítt á Keymer, athyglisverð baráttuskák. Keymer beitti fáséðu afbrigði Caro-Kann-varnar sem Kortsnoj var svolítið að tefla árin 1978 og 1979, þ.á m. í HM-einvígi sínu við Karpov. Eftir byrjun sem virtist lofa góðu var eins og Rússinn væri sáttur við jafntefli en þá sýndi Keymer styrk sinn, sneri taflinu sér í vil og náði fram vinningsstöðu. En það vantaði upp á nákvæmni í úrvinnslunni:

Reykjavíkurskákmótið/EM einstaklinga 2021; 10. umferð:

Anton Demchenko – Vincent Keymer

Caro-Kann-vörn

1. e4 c6 2. d4 d5 3. Rc3 dxe4 4. Rxe4 Rf6 5. Rxf6 exf6

Hinn leikurinn, 5. … gxf6, sást oft í skákum Bents Larsens.

6. Be3 Bd6 7. Bd3 Rd7 8. Re2 f5 9. Bf4 Bxf4 10. Rxf4 0-0 11. 0-0 Rf6 12. c3 Dd6 13. Df3 He8 14. Hfe1 Bd7 15. Re2 g6 16. Df4 De7 17. Kf1 Rd5 18. Dg3 Df8 19. Rf4 Rf6 20. f3 c5 21. dxc5 Dxc5 22. Df2 Dc7 23. Dd4 Bc6 24. Rxg6 hxg6 25. Dxf6 Df4 26. Dd4

Hann gat líka leikið 26. Kg1 og staðan er jöfn. Þessi leikur virkar eins og jafnteflistilboð.

26. … Dxh2!

Hann gat hæglega fengið jafntefli með drottningaruppskiptum og síðan He-d8. Í fyrstu virðist þetta glæfralegt vegna veikleikans á f7.

27. Bc4 Hed8 28. Df6 Dh1+ 29. Kf2 Hd2+ 30. Be2

Það kann að vera að Demchenko hafi sést yfir að eftir 30. Ke3 Dh6+! 31. f4 Hd7 er engin vörn við hótuninni 32. … He8+. 30. He2 kemur í sama stað niður, 30. … Hxe2+ 31. Bxe2 Dxa1 32. Bc4 Kh7! 33. Bxf7 Dxb2+ 34. Kg3 f4+! og vinnur.

30. … Hxe2+! 31. Kxe2 Dxg2+ 32. Kd3 Bxf3 33. c4 b5 34. Kc3 Hc8 35. Hac1 a5 36. Kb3

 

 

 

 

 

36. … bxc4+?

Þar gekk vinningurinn úr greipum Keymers. Ein leið til sigurs er 36. … Dg3! t.d. 37. cxb5 Bd1 mát! Annar sterkur leikur var 36. … Bd5!

37. Ka3! Dd2? 38. Hxc4 Hb8 39. Hh4 Bh5 40. He7

Hvítur er sloppinn.

40. … Dd5 41. Hc7 De6 42. Dxe6 fxe6 43. Hd4 e5 44. Hdd7 He8 45. Kb3 f4 46. Kc3 e4 47. Hg7+ Kh8 48. Hh7+ Kg8 49. Hhg7+ Kh8 50. Hh7+ Kg8 51. Hhg7+

– Jafntefli.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 11. september. 

- Auglýsing -