Efstur lengi vel Richard Rapport náði snemma forystu á norska mótinu. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson.

Á „norska mótinu“ í Stafangri í Noregi gefst skákunnendum færi á því að skoða hvað Magnús Carlsen og áskorandi hans Jan Nepomniactchi hafa fram að færa í aðdraganda HM-einvígisins sem hefst í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í nóvember. Frammistaða Nepos er ekki til þess fallin að auka á honum tiltrú. En hver veit; fáir spáðu Aljékín sigri gegn Capablanca í Argentínu árið 1927.

Norðmenn fengu sex keppendur til leiks sem teflt hafa eftir sérkennilegu fyrirkomulagi, tvöföld umferð og sigur gefur þrjá vinninga, jafntefli einn vinning en „Armageddon-skák“ fylgir í kjölfarið og stjórnandi hvíts verður að vinna og ½ vinningur í boði. Tímamörkin eru allsérkennileg; tvær klukkustundir á alla skákina, enginn aukatími á fyrstu 40 leikina en þá bætast við 10 sekúndur á hvern leik.

Forystusauðurinn langt fram eftir móti kom úr óvæntri átt; Ungverjinn Richard Rapport, sem teflt hefur á fjórum Reykjavíkurskákmótum, og fór mikinn. Á miðvikudaginn mætti hann heimsmeistaranum öðru sinni og hafði þá 3½ vinnings forskot. En hann tapaði, gerði jafntefli í 9. umferð og á sama tíma skaust Magnús fram úr með því að vinna Karjakin. Staðan fyrir lokaumferðina í gær var þessi: 1. Magnús Carlsen 18 v. 2. Rapport 16½ v. 3. Firouzsja 15½ v. 4. Nepomniachtchi 11 v. 5. Karjakin 8½ v. 6. Tari 6 v.

Íraninn Alireza Firouzsja vann Nepo og Karjakin í 7. og 8. umferð en hafði áður látið í minni pokann fyrir Magnúsi. Enn og aftur kom í ljós hversu mönnum gengur erfiðlega að tefla örlítið lakari stöðu gegn Norðmanninum:

Norska mótið 2021; 6. umferð:

Magnús Carlsen – Alireza Firouzsja

Það eru ekki margir menn eftir á borðinu og svarti kóngurinn vonast til þess að komast í hornið. En þá kom …

43. Bd5!

Tekur e6-reitinn og ef nú 43. … Ke7 þá 44. Ke5 Kd8 45. Kd6! og svartur er í leikþröng.

43. … Bd7 44. Bb7 Ke6 45. Ke4 Kd6 46. Bxa6 Bc6+ 47. Kd4 Be8 48. Bb7 Bd7 49. Bf3 Bc8 50. Be2 Bd7 51. Bd3 Bc6 52. Be4

– og svartur gafst upp, 52. … Bd7 er svarað með 53. a6 o.s.frv.

Tvenn silfurverðlaun á NM í Færeyjum

Íslendingar, sem undanfarin þrjú ár hafa unnið til tvennra gullverðlauna í fimm aldursflokkum á NM ungmenna, fengu að þessu sinni tvenn silfurverðlaun á Norðurlandamótinu lauk um síðustu helgi í Þórshöfn í Færeyjum. Vignir Vatnar Stefánsson hlaut fimm vinninga af sex og varð í 1.-2. sæti í aldursflokki 20 ára og yngri, en var lægri á stigum en Vestby-Ellingsen frá Danmörku. Benedikt Briem varð í 2. sæti í flokki keppenda 15 ára og yngri með 4½ vinning af sex.

Það sáust góð tilþrif víða, t.d. hjá yngsta þátttakanda okkar, hinum 10 ára gamla Jósef Omarsson, sem fékk þessa stöðu upp gegn danskri stúlku:

NM ungmenna 2021, 3. umferð:

Jósef Omarsson – Sara Derlich

Hvíta staðan er betri og nokkrir góðir leikir standa til boða. En Jósef lék óvænt:

23. Df6!?

Svartur þarf ekki að taka drottninguna og getur hrókerað. En mikil ógn virtist stafa af drottingunni.

23. … Rxf6 24. Hd8+ Ke7 25. exf6+ Kxf6 27. Be5+ Ke7 28. g5!

Þetta var hugmyndin. Hvítur hótar máti á f6.

28. … hxg5 29. hxg5 f5?

Nauðsynlegt var 29. … Dxf3 30. Bf6+ Dxf6 31. gxf6+ Kxf6 32. Hxh8 og svartur hefur tvö peð fyrir skiptamun og staðan er í jafnvægi.

30. Bf6+ Kf7 31. Re5 mát!

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 18. september. 

- Auglýsing -