Sigurganga án hliðstæðu Bobby Fischer á sviðinu í Buenos Aires. — La Nacion

Lokaeinvígi áskorendakeppninnar 1971 milli Bobbys Fischers og Tigrans Petrosjans hófst fyrir 50 árum eða hinn 30. september. 6:0-sigrar Fischers yfir Taimanov og Larsen og sú staðreynd að hann hafði nú unnið 19 skákir í röð gegn fremstu skákmeisturum heims kynti undir slíkum áhuga meðal bandarísku þjóðarinnar að allir stóru bandarísku fjölmiðlarnir fylgdust með af brennandi áhuga. Ljósmyndari LIFE magazine, Harry Benson, var sendur á vettvang. Dick Cavett hjá ABC, sem fékk í sjónvarpsþátt sinn helstu stórstjörnur þessa tíma, náði Fischer einnig í viðtal það haust. Nixon forseti sendi Fischer skeyti eftir einvígið við Larsen í Denver og annað eftir sigurinn yfir Petrosjan.

Einvígið fór fram í Teatro General San Martin, leikhúsi sem stendur við Avenida Corrientes-breiðgötu í Buenos Aires. Áhorfendur utan dyra voru yfirleitt mun fleiri en þeir sem inn í aðalsalinn komust. Aðdragandinn var hlaðinn pólitískri spennu sem kallaði á nokkra krísufundi hjá yfirmönnum íþróttamála í Sovét. Á einn slíkan mætti Boris Spasskí, sá eini sem tók málstað Taimanovs eftir „hneykslið“ í Vancouver. Hann gat stundum brugðið sér í gervi trúðsins og spurði fundarstjórann Baturinski: „Verðum við svo allir teknir á teppið þegar við erum búnir að tapa fyrir Fischer?“

Ed Edmondson var formaður sendinefndar Fischers og sá um flest hans mál en Larry Evans var titlaður aðstoðarmaður en var í raun án hlutverks. Tigran Petrosjan mætti til Argentínu ásamt aðstoðarmanninum Suetin, hinni stjórnsömu eiginkonu, Ronu Yakovlevnu, og fleira fólki.

Fyrsta skákin á sér merka sögu. Central-skáklúbbnum í Moskvu hafði borist bréf frá Moldóvu með yfirskriftinni: Til sigurvegarans í einvígi Petrosjans og Kortsnojs. Sendandinn Chebanenko hafði fundið endurbót í afbrigði Sikileyjarvarnar sem Fischer hafði dálæti á:

Buenos Aires 1971; 1. skák

Bobby Fischer – Tigran Petrosjan

Sikileyjarvörn

1. e4 c5 2. Rf3 e6 3. d4 cxd4 4. Rxd4 Rc6 5. Rb5 d6 6. Bf4 e5 7. Be3 Rf6 8. Bg5 Be6 9. R1c3 a6 10. Bxf6 gxf6 11. Ra3 d5!

Hugmynd Chebanenkos sem hrekur afbrigðið. En um það leyti sem leikurinn birtist sló rafmagnið út í leikhúsinu. Yfirdómarinn Lothar Schmid stöðvaði skákklukkuna og Petrosjan yfirgaf sviðið. Fischer sat eftir. Við það gerði Petrosjan athugasemdir en Fischer bað þá Schmid setja klukkuna af stað og sat áfram í myrkrinu.

12. exd5 Bxa3 13. bxa3 Da5 14. Dd2 0-0-0 15. Bc4 Hhg8! 16. Hd1

 

Af hverju Petrosjan lék ekki 16. … Hxg2 er enn í dag ráðgáta. Almennt var talið að svartur stæði þá til vinnings og „vélarnar“ staðfesta að staðan er sigurvænleg.

18. … Bf5?! 17. Bd3 Bxd3 18. Dxd3 Rd4 19. 0-0 Kb8 20. Kh1 Dxa3 21. f4 Hc8 22. Re4 Dxd3 23. cxd3 Hc2 24. Hd2 Hxd2 25. Rxd2 f5?!

Stefnir á jafntefli. En betra var 25. … Hc8 eða 25. … He8.

26. fxe5 He8 27. He1 Rc2 28. He2 Rd4 29. He3 Rc2 30. Hh3!

Petrosjan hafði vonast eftir jafntefli. Staðan er í jafnvægi en tíminn var af skornum skammti.

30. … Hxe5 31. Rf3 Hxd5 32. Hxh7 Hxd3 33. h4 Re3 34. Hxf7 Hd1 35. Kh2 Ha1 36. h5

Kasparov rakti stöðuna í jafntefli með 36. … Hxa2! t.d. 37. Kh3! Ha1! 38. Kh4 Ha4+ o.s.frv.

36. … f4? 37. Hxf4 Hxa2 38. He4! Rxg2 39. Kg3! Ha5 40. Re5!

Þrír hnitmiðaðir leikir og Petrosjan gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 2. október 2021. 

- Auglýsing -