Efstur fyrir lokasprettinn. Hjörvar við taflið á síðasta Reykjavíkurskákmóti.

Hjörvar Steinn Grétarsson, sem á titil að verja, var efstur í keppni landsliðsflokks á Skákþingi Íslands þegar þrjár umferðir voru eftir með 4½ vinning af sex mögulegum. Á hæla hans komu Hannes Hlífar Stefánsson og Héðinn Steingrímsson, báðir með fjóra vinninga. Í gær mættust Héðinn og Hjörvar Steinn í einni af úrslitaskákum mótsins og hafði Héðinn hvítt. Þá mættust Hilmir Freyr og Hannes Hlífar. Úrslit lágu ekki fyrir þegar greinin var rituð en blaðið fór í prentun fyrr en venjulega vegna aldreifingar.

Ljóst var að mikilvægur þáttur í titilvörn Hjörvars var að komast hjá tapi. Þessir tveir háðu harða keppni á vel skipuðu Íslandsmóti árið 2015 og hafði Héðinn sigur í síðustu umferð.

Það er hins vegar Hannes Hlífar Stefánsson sem hefur oftast allra sigrað á Íslandsmótinu eða 13 sinnum. Á tímabilinu 2001-2008 vann hann mótið átta sinnum í röð. En staðan fyrir lokasprettinn eins og hún blasti við fyrir umferðina í gær var þessi: 1. Hjörvar Steinn Grétarsson 4½ v. (af 6) 2.-3. Hannes Hlífar Stefánsson og Héðinn Steingrímsson 4 v. 4.-5. Guðmundur Kjartansson og Vignir Vatnar Stefánsson 3½ v. 6.-7. Þröstur Þórhallsson og Hilmir Freyr Heimisson 3 v. 8. Bragi Þorfinnsson 2½ v. 9. Alexander Oliver Mai 1½ v. 10. Símon Þórhallsson ½ v.

Mótið fer fram við góðar aðstæður í gamla Landsbankahúsinu á Selfossi og er þetta í fyrsta sinn sem keppni landsliðsflokks fer fram á þessum slóðum. Þá er ástæða til að hrósa Ingvari Þ. Jóhannessyni fyrir góða og ítarlega umfjöllun um mótið á heimasíðu þess.

Í mótinu taka þátt tveir nýliðar, Hilmir Freyr Heimisson og Símon Þórhallsson. Hilmir Freyr á fræðilega möguleika á að blanda sér í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn, eins og þeir Guðmundur og Vignir Vatnar, en mestar líkur standa samt til þess að einn þremenninganna á toppnum hreppi titilinn að þessu sinni.

Eftir umferðina í gær koma tveir frídagar og verður mótið til lykta leitt um helgina. Hjörvar teflir þá við Vigni og Hilmi Frey, Hannes við Þröst og Braga og Héðinn við Alexander Oliver og Guðmund.

Miðað við þær stöður sem Hannes Hlífar hefur verið með í mótinu gæti hann hæglega verið langefstur. Hann átti unnið tafl gegn Hjörvari í 3. umferð og aftur gegn Héðni í 5. umferð, en fékk aðeins ½ vinning úr þessum skákum. Í skákinni gegn Héðni missti hann hvað eftir af röktum vinningi. Fyrst í þessari stöðu:

Skákþing Íslands 2022; 5. umferð:

Sjá stöðumynd 1

Héðinn – Hannes

Hannes valdi að leika 35. … g4!? en gat knúið fram vinningsstöðu með hreint magnaðri leikfléttu sem ekki fór framhjá „vélunum“, 35. … Rxe3! 36. Hxe3 g4! Hér er hugmyndin sú að eftir 37. Hxe7 kemur 37. … Dxe1+! 38. Hxe1 Hxe1+ 39. Kh2 g3 mát! Hvítur getur reynt 37. hxg4 en þá kemur 37. … h3! 38. gxh3 Hh8! o.s.frv.

Eftir 36. fxg4 Rxe3 37. Kg1! Df4 38. Rc5 a5 38. Rb3? kom þessi staða upp:

Hann lék nú, 38. … a4 en átti 38. … Rxg2! strax því að 39. Hxe7 er svarað með 39. … Rxe1 o.s.frv. Eftir 39. Rd2 missti hann af 39. … Rc2! sem vinnur. „Riddarameistarinn“ vinur Hannesar, Þröstur Þórhallsson, hefði ekki látið svona leiki fram hjá sér fara. Hannes átti þrátt fyrir allt enn góð færi á að vinna skákina en varð að sætta sig við jafntefli eftir 66 leiki.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 28. apríl 2022.

- Auglýsing -