Spennandi umferð í dag Vignir Vatnar getur náð Hjörvari með sigri í innbyrðis viðureign. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson

Það féll flest með Hjörvari Steini Grétarssyni í 7. umferð í keppni landsliðsflokks á Skákþingi Íslands á Selfossi sl. miðvikudag. Honum tókst að vinna einn helsta keppinaut sinn um titilinn, Héðin Steingrímsson, og á sama tíma tapaði Hannes Hlífar Stefánsson fyrir Hilmi Frey Heimissyni. Þá missti Guðmundur Kjartansson niður mikilvægan ½ vinning. Litlu munaði að Vignir Vatnar tapaði fyrir Símoni Þórhallssyni en slapp með skrekkinn og situr einn í 2. sæti. Eftir þessar skákir hafði forysta Hjörvars aukist og þar sem gert var tveggja daga hlé á mótinu liggur fyrir að úrslit munu ráðast nú um helgina. Og í dag teflir Hjörvar Steinn við Vigni Vatnar og hefur hvítt. Má búast við spennandi skák í gamla Landsbankahúsinu á Selfossi. Annar ungur maður, Hilmir Freyr Heimisson, er heldur ekki alveg út úr myndinni því að hann teflir við Hjörvar Stein í síðustu umferð. Staðan fyrir lokasprettinn er þessi:

1. Hjörvar Steinn Grétarsson 5½ v. (af 7) 2. Vignir Vatnar Stefánsson 4½ v. 3.-7. Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson, Guðmundur Kjartansson, Þröstur Þórhallsson og Hilmir Freyr Heimisson 4 v. 8. Bragi Þorfinnsson 2½ v. 9. Alexander Oliver Mai 2 v. 10. Símon Þórhallsson ½ v.

Viðureignar Héðins og Hjörvars sl. miðvikudag var beðið með nokkurri eftirvæntingu. Þeir hafa áður mæst undir svipuðum kringumstæðum og ber þar hæst úrslitaskák þeirra á Íslandsþinginu 2015 sem Héðinn vann. En nú snerist dæmið við; Héðinn er yfirleitt vel undirbúinn í byrjunum en að þessu sinni missti hann þráðinn snemma. Hjörvar nýtti sér færin sem gáfust og vann í aðeins 28 leikjum:

Skákþing Íslands 2022; 7. umferð:

Héðinn Steingrímsson – Hjörvar Steinn Grétarsson

Nimzo-indversk vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rc3 Bb4 4. e3

Gegn Hannesi valdi Héðinn að leika 4. Dc2. Sennilega hefur hann viljað forðast undirbúningsvinnu Hjörvars.

4. … 0-0 5. Bd3 d5 6. a3 Bxc3+ 7. bxc3 dxc4 8. Bxc4 c5 9. Re2

9. Rf3 má svara með 9. Dc7 og síðar b7-b6.

9. … Rc6 10. 0-0 e5 11. Bb2 Db6 12. Dc2 Bg4 13. f3 Bh5 14. Db3?!

Það er eins og að frá og með þessum leik missi hvítur þráðinn. Einfaldast er 14. Had1 eða 14. Dd2.

14. … Dc7! 15. Da4 Hac8 16. Hac1 Ra5 17. Ba2 c4

Lokar á báða biskupana.

18. Hf2

Annar slakur leikur. Eftir 14. e4 er hvítur með vel teflanlega stöðu því að 18. … Rxe4 má svara með 19. g4! o.s.frv.

18. … e4 19. Rg3 Bg6 20.f4 h5 21. f5 h4

22. fxg6?

Vendipunkturinn í skákinni. Þessu mátti hvítur aldrei leika. Eftir 22. Rf1 er staðan í jafnvægi.

22. … hxg3 23. gxf7+ Hxf7 24. Hf4

Eftir 24. hxg3 Haf8 er hvítur varnarlaus, t.d. 25. Hf4 g5! og vinnur.

24. … gxh2+ 25. Kh1 Rh5 26. Hxf7 Kxf7

Menn hvíts standa allir á þröngu svæði á drottningarvæng og það er enginn möguleiki á því að verja kóngsstöðuna.

27. Db5 Rg3+ 28. Kxh2 Re2+

Lokahnykkurinn. Hvítur er óverjandi mát og gafst upp.

Í áskorendaflokki er m.a. keppt um tvö sæti í landsliðsflokki á næsta ári. Þar eru Benedikt Briem og Aleksandr Domalchuk-Jonasson efstir og jafnir með 5 v. af 6. Aleksandr á íslenskan föður og móðir hans er frá Úkraínu. Í 3.-4. sæti koma Jóhann Ingvason og Benedikt Þórisson með 4½ v. Keppendur eru 25 talsins og verða tefldar níu umferðir.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 30. apríl 2022.

- Auglýsing -