Meistaramót Ingvar Wu Skarphéðinsson vann u-2.000 Elo-flokkinn á Meistaramóti Skákskóla Íslands um síðustu helgi. Birkir Hallmundarson vann svo u-1.500-flokkinn. Hér eru nokkrir ungir menn að tafli á mótinu. — Morgunblaðið/Helgi Ólafsson

Stuttu eftir innrás að innrás Rússa í Úkraínu hófst var gert heyrinkunnugt að hið margfrestaða ólympíuskákmót mundi ekki fara fram í Moskvu eins og til stóð heldur í Chennai á Indlandi. Indverjar halda uppi vinsamlegum samskiptum við Rússa en þó er ljóst að Rússar munu ekki taka þátt í mótinu og sniðganga sumra aðildarþjóða FIDE þyrfti ekki að koma á óvart. Rússinn Sergei Karjakin hefur verið sviptur keppnisrétti í áskorendamótinu sem hefst í Bilbao á Spáni í næsta mánuði og í hans stað kemur Kínverjinn Liren Ding.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ólympíuskákmót fer fram í skugga styrjaldar og er þekktasta dæmið auðvitað ólympíumótið í Buenos Aires árið 1939 en það stóð yfir þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland. Sá atburður er heldur ekki neinn sólskinsblettur í sögu Rússlands, því að viku fyrr var í Moskvu undirritaður hinn svokallaði Ribbentrop/Molotov-griðasáttmáli Þýskalands og Sovétríkjanna, sem sagnfræðingar eru sammála um að hafi rutt brautina fyrir vígvél þýsku nasistanna, 1. september árið 1939.

En með því að Indverjar hafa brugðist svo vel við ósk vina sinn um flutning mótsins, beinist athyglin auðvitað að þessari merku skákþjóð sem hefur átt fjölmarga keppendur á síðustu Reykjavíkurskákmótum. Wisvanathan Anand er þjóðhetja þar í landi og einn þekktasti afreksmaður Indverja. Sigurvegari síðasta Reykjavíkurmóts, Rameshbabu Praggnanandhaa, náði að slá Magnús Carlsen úr keppni á Chessable-netmótinu sem Norðmenn stóðu fyrir og lauk á fimmtudaginn með sigri Liren Ding. Indverskir skákmenn eru upp til hópa afskaplega þægilegir einstaklingar og Anand er þar engin undantekning. Hann bókstaflega ruddi brautina fyrir þróun skákar á Indlandi en langt fram eftir síðustu öld voru Indverjar ekkert sérstaklega hátt skrifaðir á alþjóðavettvangi. Það breyttist allt þegar Anand kom fram á sjónarsviðið.

Hann er einn af þessum mönnum, sem virðast eiga sérstaklega létt með að tefla, sem sannaðist á móti í Varsjá á dögunum en þar voru tefldar at-skákir og hraðskákir. Atskákirnar eru vitanlega innihaldsríkari en sigur gaf tvo vinninga/stig. Þar hlaut Anand sjö vinninga af níu mögulegum og vann Wesley So, Levon Aronjan og Úkraínumanninn Anton Korobov alla þrjá í innan við 30 leikjum. En heimamaðurinn Duda stóð uppi sem sigurvegari, hlaut samanlagt 24 vinninga af 36 mögulegum en Anand og Aronjan komu næstir með 23½ vinning. Armeninn fékk eftirminnilega ráðningu í skákinni við Anand:

Superbet Rapid – Varsjá 2022, 5. umferð:

Levon Aronjan – Wisvanathan Anand

Biskups byrjun

1. e4 e5 2. Bc4 Rf6 3. d3 Bc5 4. Rf3 d6 5. 0-0 0-0 6. c3 Bb6 7. Rbd2 c6 8. Bb3 He8 9. He1 Be6 10. Bc2 Rbd7 11. d4 Bg4 12. h3 Bh5 13. g4

Það er erfitt að þróða stöðuna með 13. Rf1 vegna 13. … Bxf3! 14. gxf3 Rh5 o.s.frv.

13. … Bg6 14. dxe5 Rxe5 15. Rxe5 Hxe5 16. Rc4?

Ónákvæmni sem Anand er ekki lengi að notfæra sér. Eftir 16. Kg2 er staðan í jafnvægi.

16. … Rxe4! 17. Rxb6

Hann hefur sennilega gert ráð fyrir 17. … Dxb6 sem má svara með 18. Be3 og síðar kannski f2-f4.

 

 

17. … Rxf2!

Sannkölluð sleggja 18. Kxf2 strandar á 18. … Dh4+ og vinnur.

18. Dd2 Dxb6 19. Hxe5 Rxg4 20. Kg2 Rxe5 21. Bxg6 hxg6 22. Dxd6 Db5 23. Dd1 Rd3 24. b3 Dd5

– og Aronjan gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins birtast á Skák.is viku síðar en í blaðinu sjálfu. Þessi skákþáttur birtist 28. maí 2022.

- Auglýsing -