Hannes í þungum þönkum.

Næst Seinasta umferð fór fram í Prag í gær og sóttum við 5 vinninga af 8 mögulegum.

Hannes Hlífar sigraði FM Jakub Seemann (2363) sannfærandi með svörtu og fær úrslitaskák á morgun.

Hilmir vann í gær. Mynd: BKS

Hilmir Freyr sigraði 2200 með svörtu í ítalska leiknum þar sem Hilmir var betur með á nótunum í byrjuninni og fékk í framhaldi þægilegra endatafl, sem hann sveið.

Alexandr Domalchuk tapaði þriðju skákinni í röð eftir frábæra byrjun á mótinu og á því miður ekki lengur möguleika á IM áfanga.

Vignir Vatnar sigraði tæplega 2200 stiga mann með svörtu sannfærandi.

Alexander Oliver tapaði gegn tæplega 2400 stiga Spánverja með hvítu og heldur áfram að vinna og tapa til skiptis.

Benedikt Briem tefldi algjöra módelskák gegn rúmlega 1800 stiga manni sem var í +100 hækkun fyrir skákina í dag en lenti því miður í BB vélinni.
Þessi skák var fullkomið dæmi um hvað Benedikt hefur bætt sig mikið á undanförnum mánuðum undir góðri leiðsögn Vignis Vatnars.

Mikael Bjarki tapaði gegn rúmlega 2000 stiga manni eftir að hafa verið með kolunnið eftir byrjunina en andstæðingur MBH má eiga það, að hann fann alltaf besta leikinn í stöðunni eftir að hafa leikið af sér í byrjuninni.
Tap, því miður staðreynd.

Matthías Björgvin tapaði gegn efnilegum heimamanni með svörtu, eftir að hafa aðeins ruglast í byrjuninni og blandað saman varíöntum.

Staðan:

Hannes Hlífar er með 6.5/8 og fær úrslitaskák á morgun gegn GM Alexander Motylev (2619) þar sem sigur á mótinu er í húfi.

Hilmir Freyr er með 5.5 vinning og fær á morgun IM Craig Hilby (2420) sem hefur leikið okkur Íslendinga grátt, bæði unnið Hannes og Alexandr.
Hilmir Freyr lofar því að ná í sigur fyrir íslensku þjóðina.

Benedikt Briem og Vignir Vatnar eru báðir með 5 vinninga.
Þeir fá báðir um 2300 stiga heimamenn á morgun.

Alexandr Domalchuk er með 4.5 vinning og á því miður ekki möguleika á IM norm lengur en er samt áður í +87 stigum og með sigri á morgun, er þetta algjörlega frábært mót hjá honum.

Alexander Oliver er með 4 vinninga og hlýtur að vinna á morgun þar sem hann elskar ekkert meira en að vinna og tapa til skiptis.

Mikael Bjarki er með 3 vinninga og hefur lokið þátttöku á mótinu þar sem hann átti flug heim í gærkvöldi, endar í smá stigaplús og reynslunni ríkari.

Matthías Björgvin er með 2 vinninga og fær stigalausan andstæðing á morgun.

Seinasta umferð fer fram í dag  klukkan 09.00 að íslenskum tíma.

Þar til næst

Bkv,

Birkir Karl Sigurðsson

- Auglýsing -