Mynd af meistara Don Roberto

FIDE meistarinn og alþjóðlegi skákdómarinn Róbert Lagermann á stórafmæli í dag 29. júlí og fagnar 60 ára afmæli. Á þessum merkisdegi gengur Róbert til liðs við Skákdeild Fjölnis og teflir með A sveit Fjölnismanna í Úrvalsdeildinni og á EM skákfélaga nú í haust. Róbert Lagermann var einn af stofnendum Skákdeildar Fjölnis árið 2004 og leiddi A- sveit deildarinnar til sigurs á Landsmóti UMFÍ sama ár og til sigurs í 4. deild á Íslandsmóti skákfélaga 2005. Auk þess að vera einn virkasti skákmaður Íslands þá hefur Róbert ásamt Hrafni Jökulssyni staðið fyrir öflugu skákstarfi á Grænlandi í tæp 20 ár. Það er mikill fengur fyrir Skákdeild Fjölnis að fá Róbert Lagermann að nýju til leiks og hann boðinn velkominn. Til hamingju með merkisafmælið Róbert og Fjölnismenn bjóða þig velkominn í hópinn.

- Auglýsing -