Í vanda Magnús Carlsen í skákinni við Hans Niemann. — Morgunblaðið/Heimasíða Sinqu

Eftir þriðju umferð Sinqufield-mótsins í St. Louis barst tilkynning frá Magnúsi Carlsen um að hann væri hættur keppni, en bætti því við að sér hefði alltaf líkað vel að tefla í St. Louis og vonaðist til að koma þangað síðar. Skákhátíðin, sem m.a. tengist 50 ára afmæli einvígis Fischers og Spasskís, hefur staðið yfir undanfarið, kappskákhlutinn nýbyrjaður og Magnús hafði unnið Nepo í 1. umferð. Brátt fóu að kvisast út um raunverulegar ástæður þess að hann hætti keppni. Hann tapaði með hvítu fyrir Bandaríkjamanninum Hans Niemann og talinn hafa grunað andstæðinginn um að hafa nýtt sér hugbúnað. Hvernig það á að hafa gerst er ekki gott að segja en í „tísti“ sínu á Twitter kaus Norðmaðurinn að tala undir rós og dró fram gamalt viðtal við knattspyrnuþjálfarann José Mourinho, sem sagði þar m.a.: „Ef ég tjái mig lendi ég í stórkostlegum vandræðum.“

Það er ekki hægt að leggja dóm á það sem þarna gerðist en samt finnst manni Magnús skulda skýringu á brotthvarfi sínu.

Hans Niemann, sem er aðeins 19 ára gamall, hefur mátt sitja undir margvíslegum dylgjum síðustu daga, þ.ám. frá Hikaru Nakamura. Hann játaði raunar að hafa svindlað tvisvar á skákvefnum „Chess.com“, sem oft stendur fyrir vel skipuðum skákviðburðum, en í fyrra skiptið var hann 12 ára og með góðum vilja má flokka það undir bernskubrek. Áfram mun ríkja mikil tortryggni á skákmótum því eftirlit er oft erfitt í framkvæmd.

Aldrei að gefast upp

Það var gaman að fylgjast með íslensku krökkunum tefla á Norðurlandamóti barna og ungmenna sem fram fór í Helsingborg í Svíþjóð á dögunum. Ingvar Wu Skarphéðinsson hreppti silfurverðlaun í sínum flokki og var um skeið efstur á mótinu. Hann komst stundum í hann krappan en barðist vel sbr. eftirfarandi skák sem tefld var í 4. umferð:

NM ungmenna 2022; 4. umferð:

Karl-Emil Elmer (Danmörk) – Ingvar Wu Skarphéðinsson

Kóngsindversk vörn

1. d4 Rf6 2.c4 g6 3. Rc3 Bg7 4. e4 0-0 5. Rf3 d6 6. Be2 e5 7. 0-0 exd4 8. Rxd4 He8 9. f3 Ra6 10. Be3 Rc5 11. b4 Re6 12. Hc1 a6 13. Dd2 Rxd4 14. Bxd4 Be6 15. Hfd1 c6 16. Bf1 Dc7 17. Ra4 De7 18. Bb6 Hac8 19. Dxd6 Dxd6 20. Hxd6 Bf8 21. Hd4 Rd7 22. a3 c5

Eðlilegur leikur en svartur átti aðra leið, 22…. Bh6! 23. He1 Rxb6 24. Rxb6 Hed8 og d-línunni á sitt vald með betri stöðu.

23. bxc5?

Það skilja ekki allir mátt skiptamunarfórnarinnar. Eftir 23. Hxd7! Bxd7 24.Rxc5 er hvítur með tvö peð fyrir skiptamun og á góða stöðu.

23…. Rxb6 24. cxb6 Bxa3 25. Hcd1 Be7

Biskupaparið tryggir ákveðið jafnvægi.

26. Hc1 Bg5! 27. He1 Hed8 28. Hxd8+ Bxd8! 29. Hd1 Be7 30. c5 a5!?

Hindrar 31. Bxa6 en samt átti hvítur, sem var í tímahraki, að leika 31. Ba6 og staðan er í jafnvægi eftir 31…. Bxc5+ 32.Rxc5 Hxc5 33. Bxb7 Hb5 34. Bd5 o.s.frv.

31. Hc1 Bd7! 32. c6 Hxc6 33. Hd1 Hd6 34. Ha1 Bf6 35. Ha2 Bd4+

Einfaldara var 35…. Hd1 36. Kf2 Ha1! og riddarinn fellur. En úrvinnslan vefst ekki fyrir Ingvari.

36. Kh1 Bxa4 37. Hxa4 Bxb6 38. Ha1 Bc5 39. h4 b6 40. Kh2 Hd2 41. Kh3 Kf8 42. Bc4 Ke7 43. Bd5 f5 44. Bg8 h6 45. exf5 gxf5 46. Bc4 Kf6 47. f4 Hd4 48. Be2 Hxf4 49. g4 fxg4+ 50. Bxg4 Ke5 51. Kg3 Bf2+ 52. Kh3

52…. h5! 53. Bxh5 Hxh4+ 54. Kg2 Hxh5 55. Kxf2 Kd4 56. Ha3 He5

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 10. september 2022.

- Auglýsing -