Efstur Bragi Þorfinnsson er einn efstur á Haustmóti TR. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson.

Bragi Þorfinnsson og Hjörvar Steinn Grétarsson eru langstigahæstu keppendurnir í A-riðli haustmóts Taflfélags Reykjavíkur sem stendur yfir þessa dagana. Eftir fjórar umferðir af níu var Bragi einn efstur með fullt hús, fjóra vinninga af fjórum mögulegum. Í 2. sæti var Alexander Oliver Mai með 3½ vinning af fjórum. Hjörvar Steinn var svo einn í 3. sæti með þrjá vinninga en hann hann tapaði nokkuð óvænt fyrir Birni Hólm Bárðarsyni í 2. umferð mótsins.

Í opna flokknum voru efstir Ingvar Wu Skarphéðinsson, Jóhann Arnar Finnsson og Benedikt Þórisson, allir með 3 ½ vinning.

Þá stendur einning yfir Skákþing Garðabæjar sem er haldið með því sniði að fyrst hafa verið tefldar þrjár atskákir en síðustu fjórar umferðirnar eru kappskákir.

Dagur Ragnarsson tók snemma forystuna með því að vinna Hjörvar Stein en tapaði í 5. umferð fyrir Lenku Ptacnikovu. Dagur, Hjörvar og Lenka eru efst eftir fimm umferðir, öll með fjóra vinninga.

Kasparov á erfitt uppdráttar í St. Louis

Á maður einhvern tímann að vorkenna nafntoguðu fólki? Ég held ekki, en undanfarið hef ég samt fundið fyrir ákveðinni samúð með gamla skákjöfrinum. Garrí Kasparov á erfitt með að komast á blað á 9LXC-slembiskákmótinu í St. Louis. Bobby Fischer kynnti þetta afbrigði skákar nokkru eftir seinna einvígi sitt við Boris Spasskí í gömlu Júgóslavíu árið 1992. Þótt greinin hafi ekki verið stunduð að neinu ráði hérlendis hyggst Skáksamband Íslands fagna 50 ára afmæli „einvígis aldarinnar“ með því að halda heimsmeistaramót í slembiskák seinni part októbermánaðar nk. Meðal þátttakenda verður heimsmeistarinn Magnús Carlsen.

Kasparov hefur alltaf tekið vel í þær hugmyndir að gera þetta afbrigði skákar að keppnisgrein og þetta er ekki fyrsta slíkt mót sem hann tekur þátt í. Viðureignir hans í St. Louis hafa margar verið stórskemmtilegar á að horfa. Vandinn er sá að að hann er ekki í nægilegri leikæfingu til að eiga möguleika í keppni við sér mun yngri menn og þess vegna er þetta gengi hans á mótinu á sömu leið og á hraðskákmóti í Zagreb í Króatíu í fyrrasumar. Þar hlaut hann aðeins 2½ vinning af 18 mögulegum.

Í St. Louis voru keppendur tíu talsins og voru tefldar þrjár skákir á dag með tímamörkunum 20 5. Eftir fyrstu tvo keppnisdagana hafði Kasparov tapað öllum sex skákum sínum. Efstir voru Firouzja og Mamedyarov með 4½ vinning af sex mögulegum og í 3. sæti var Nepomniachtchi með fjóra vinninga. Í gærkvöldi voru tefldar þrjár síðustu umferðirnar. Gengi Kasparovs og sjálfstraust í baráttunni réðst sennilega þegar þessi staða kom upp í 2.umferð:

Slembiskákmótið í St. Louis 2022:

Garrí Kasparov – Nakamura

Hvítur leikur og vinnur:

Kasparov tefldi þessa skák virkilega vel en notaði mikinn tíma og hinn útsjónarsami Nakamura náði að jafna taflið. Síðasti leikur svarts var e4-e3, sem opnaði fyrir biskupinn á b7. Kasparov átti u.þ.b. 20 sekúndur eftir og hér missti hann af vinningi …

52. Dxe3??

Vinning var að hafa með 52. Bxb6+ Kxb6 53. Db5+ Ka7 54. Dxa5+Kb8 55. Dc7+! Dxc7 56. Dxc7+ Kxc7 57. g6! og hvítt peð verður að drottningu. Eftir þessa yfirsjón missti Kasparov tök á stöðunni þó hann tefldi greinilega til vinnings. Áfram lék hann af sér biskupnum og tapaði eftir 58 leiki.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 17. september 2022.

- Auglýsing -