Lenka Ptacnikova og finnska skákkonan Anastasia Nazarova urðu efstar á Opna Íslandsmótinu í skák sem lauk á Hótel Berjaya um helgina. Með því varð Lenka Íslandsmeistari kvenna í fjórtánda sinn. Kvennamótið var einn af skemmtilegum hliðarviðburðum sem SÍ stóð fyrir í tengslum við heimsmeistaramótið í Fischer-slembiskák. Þarna fengu ungar stúlkur tækifæri til að etja kappi við þrautreyndar skákkonur á borð við Lenku, Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur og Lisseth Acvedo Mendez auk erlendu keppendanna sem komu frá Finnlandi, Noregi og Danmörku. Ekki verður annað sagt en að stúlkurnar hafi nýtt tækifærið vel og þá einkum hin 15 ára gamla Iðunn Helgadóttir sem hlaut fjóra vinninga af sjö mögulegum og varð næst á eftir Lenku meðal íslensku þátttakendanna. Hún hækkaði um 86 elo-stig fyrir frammistöðuna. Keppendur voru 12 talsins og í átta efstu sætum urðu:

1. Lenka Ptacnikova og Anastasia Nazarova (Finnlandi) 5½ v. (af 7) 3.-4. Olga Dolzhikova (Noregi) og Alena Ayzenberg (Noregi) 4½ v. 5.-6. Iðunn Helgadóttir og Oksana Kryger (Danmörku) 4 v. 7.-8. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Lisseth Acevedo Mendez 3½ v.

Sigurskák Iðunnar yfir fulltrúa Dana vakti sennilega meiri athygli en nokkur önnur viðureign:

Opið Íslandsmót kvenna 2022; 4. umferð:

Oksana Kryger (Danmörku) – Iðunn Helgadóttir

Tarrasch-vörn

1. d4 Rf6 2. c4 e6 3. Rf3 d5 4. Rc3 c5 5. cxd5 exd5 6. g3 Rc6 7. Bg2 Be7 8. 0-0 0-0 9. Bg5 c4 10. Re5

Þekkt leið í Tarrasch-vörninni og nú er algengast að leika 10. … Be6 11. f4 Rxe5 12. fxe5 eða 12. dxe5.

10. … h6 11. Bxf6 Bxf6 12. f4?

Slakur leikur. Hvítur hefur betra tafl eftir 12. Rxd5, t.d. 12. … Rxe5 13. Dxe5 Bxe5 14. Dc2.

12. … Be6 13. Rxc6 bxc6 14. Ra4

Veik tilraun til að ná c5-reitnum.

14. … Bf5 15. h3 De7 16. Dd2 Hfe8

Svartur er tilbúinn til að ráðast inn eftir e-línunni.

17. Kf2 Hab8 18. e3 Hb4!

Sennilega hefur hvítur ætlað að svara þessum leik með 19. Rc3 og misst af svarinu 19. … Hxb2! sem vinnur strax, 20. Dxb2 Dxe3 mát.

19. b3 cxb3 20. axb3 Hxb3 21. Hfe1 Hd3 22. Dc1 Db4 23. He2

Reynir að verja veikleikann á e3 en nú kemur kraftmikið svar.

 

 

23. … Hdxe3! 24. Hxe3 Bxd4 25. Ha3 Hxe3 26. Hxe3 Dxa4 27. g4 Dc2+

Auðveldasta leiðin til sigurs er að leita eftir uppskiptum.

28. Dxc2 Bxc2 29. Ke2 Bxe3 30. Kxe3 a5 31. Kd4 a4 32. Kc3 Bb3 33. Bf1 Kf8 34. Bd3 Ke7 35. Bb1 Kd6 36. h4 c5 37. g5 d4+ 38. Kd2 a3 39. f5 hxg5 40. h5

Síðasta von hvíts snýst um gegnumbrotið 41. f6, en svartur bægir hættunni frá.

40. … f6!

– og hvítur gafst upp.

Mikil þátttaka á hraðskákmótum ungmenna

Annar viðburður sem Skáksamband Íslands stóð fyrir um síðustu helgi var stórt hraðskákmót barna og unglinga. Teflt var í fjórum keppnisflokkum. Í móti 1.-2. bekkjar sigraði Benedikt Hafsteinsson, í móti 3.-4. bekkjar varð Tristan Fannar Jónsson hlutskarpastur, í móti 5.-6. bekkjar sigraði Jósef Ómarsson og í keppni 7.-10. bekkjar varð Ingvar Wu Skarphéðinsson hlutskarpastur.

Degi síðar fór fram stúlknamót Skákskóla Íslands en það er hluti mótaraðar sem hófst í mars á þessu ári. Iðunn Helgadóttir og Guðrún Fanney Briem urðu jafnar og efstar, hlutu 8½ v. af 9 mögulegum. Eftir stigaútreikning telst Iðunn þó sigurvegari. Nánar um þessi mót á skak.is.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 5. nóvember 2022.

- Auglýsing -