Í járnum Hjörvar Steinn Grétarsson (t.v.) og Vignir Vatnar Stefánsson áttust við sl. mánudagskvöld. Skák þeirra lauk með jafntefli. — Ljósmynd/Jón Þorvaldsson

Helgi Áss Grétarsson er efstur í A-riðli Skákhátíðar Fulltingis sem lýkur nk. mánudag með sjöundu og síðustu umferð. Helgi Áss vann Vigni Vatnar í frestaðri skák fimmtu umferðar og komst þar með upp í efsta sætið. Mótið fer fram með því sniði að tefld er ein skák í viku hverri og keppendur hafa getað tekið tvær ½ vinnings yfirsetur sem sumir hafa nýtt sér en aðrir ekki. Þá hefur ófærð valdið því að Davíð Kjartansson og Dagur Arngrímsson, sem búa í Hveragerði, hafa ekki alltaf komist á mótsstað. Ýmsar umgangspestir og aðrir kvillar hafa einnig sett strik í reikninginn en eftir stendur að framkvæmd mótsins hefur verið með miklum ágætum. Jón Þorvaldsson og samstarfsaðilar hans hafa fengið til keppni marga þrautreynda skákmenn og niðurstaðan er skemmtilegt mót:

Skákhátíð Fulltingis; 5. umferð:

(STÖÐUM 1) Vignir Vatnar Stefánsson – Helgi Áss Grétarsson

Síðasti leikur svarts var 16. … Db6xb2. Frá b2 hefur drottningin uppi hótanir gegn d4-peðinu. Báðir sáu auðvitað biskupsfórnina á h7 en samt mátti efast um að hún gengi upp.

17. Bxh7+! Kxh7 18. Rg5+ Kh6

18. … Kg6 kom einnig til greina því að eftir 19. Dg4 f5 20. Dg3 Dxd4 er svarta drottningin á leið til g4.

19. Dg4 Hxd4 20. Rce4??

Það er með ólíkindum að Vignir hafi misst af 20. f4! sem knýr svartan til að láta hrókinn af hendi, 20. … Hxf4 21. Dxf4 Dd4+ 22. Dxf4 Rxd4 og svartur hefur tvö peð fyrir skiptamun og staðan í jafnvægi.

20. … Hxe4! 21. Rxe4 g6!

Kóngurinn sleppur til g7 og sókn hvíts hefur runnið út í sandinn. Helgi Áss vann svo eftir 33 leiki.

Staða efstu manna fyrir lokaumferðina er þessi:

1. Helgi Áss Grétarsson 5 v. (af 6) 2. Vignir Vatnar Stefánsson 4½ v. 3.-4. Bragi Þorfinnsson og Hjörvar Steinn Grétarsson 4 v. 5.-6. Örn Leó Jóhannsson og Dagur Ragnarsson 3½ v.

Jóhann Hjartarson og Þröstur Þórhallsson eru báðir með þrjá vinninga og eiga efir að tefla innbyrðis frestaða skák.

Í síðustu umferð mótsins, sem fram fer næsta mánudagskvöld, mætast á efstu borðum þeir Helgi Áss og Hjörvar Steinn og hefur sá fyrrnefndi hvítt. Þá teflir Vignir Vatnar við Braga Þorfinnsson og Jóhann Hjartarson við Dag Ragnarsson.

Í B-riðli skákhátíðarinnar er keppni lokið en þar voru tefldar sex umferðir. Arnar Milutin Heiðarsson bar sigur úr býtum, hlaut 5 vinninga af 6 mögulegum. Í 2.-3. komu Lenka Ptacnikova og Gauti Páll Jónsson með 4½ vinning.

Út úr höfði Ivantsjúks

Í síðasta hefti hins víðlesna timarits New in chess gerir sigurvegarinn frá Wijk aan Zee 2021, Jorden van Foreest, grein fyrir skák sem hann tefldi við Ivantsjúk á HM landsliða í fyrra:

Eftir 25 leiki kom þessi staða upp:

HM landsliða Jerúsalem 2022; 5. umferð:

(STÖÐUM 2)
Ivantsjúk – Jorden van Foreest

Svartur er augljóslega með lakari stöðu en varnir hans virðast halda. En nú lék Ivantsjúk …

26. Rd7!!

(STÖÐUM 3)
Leikurinn er ótrúlega magnaður því að d7-reiturinn er valdaður af fimm mönnum svarts. Eftir langa umhugsun fann Van Foreest ekkert betra en 26. … Hexd7 og eftir 27. Bxd6 Hxc2 28. Hxc2 neyddist hann til að leika 28. … Hxd6 en þá kom 29. Hc8 Dxc8 30. Bxc8 og hvíta staðan er unnin. En sagan er ekki öll sögð því í framhaldinu varð Ivantsjúk á meinleg yfirsjón og tapaði eftir 54 leiki.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 18. febrúar 2023

- Auglýsing -