Það var langur og strangur fimmtudagur á tvöföldum keppnisdegi í Hörpu í dag. Reykjavíkurskákmótið í boði Kviku og Brim bauð upp á skemmtilegar sviptingar í dag og drottningum var fórnað óspart!

Mesta athygli vakti glæsileg skák Simon Williams í fyrri umferðinni. Simon stýrði hvítu mönnunum gegn Anastasiya Rakhmangulova kvenstórmeistara frá Úkraínu. Simon fórnaði drottningu sinni og í kjölfarið kom þessi snilldarleikur.
Ekki var lokahnykkurinn síðri, sjón er sögu ríkari.
Ekki var síðri drottningarfórnin sem gjaldkeri Taflfélagsins lenti í.
18…Hxc4!! og hvíta staðan hrynur, skemmtileg drottningarfórn.
Drottningarfórn á réttum tíma hefði einnig getað sett strik í reikninginn hjá stigahæsta manni mótsins, Vasyl Ivanchuk.

Ivanchuk var í hálfgerðri nauðvörn gegn Panchanathan.
Í stað 26.Rh6+ hefði 26.h6 verið athyglisverður. T.d. 26…Bxg2 og þá á hvítur hugmyndina 27.Dxe8!? Dxe8 28.hxg7. Hótanir hvíts eru yfirþyrmandi.
Þess í stað missti hvítur þráðinn og „Chucky“ kláraði dæmið, skemmtileg skák að renna yfir.
Ivanchuk er einn af tíu skákmönnum sem hafa enn fullt hús. 8 stórmeistarar og 2 alþjoðlegir meistarar.
Fyrir „heimavarnarliðinu“ fara þeir Hjörvar Steinn Grétarsson og Vignir Vatnar Stefánsson með 2,5 vinning. Sökum Baku pörunarkerfisins eru þeir Ögmundur Kristinsson, Haraldur Haraldsson og Bjarni Sæmundsson einnig með 2,5 vinning.
Hilmir Freyr Heimisson hefur farið mjög vel af stað og er með tvö sterk jafntefli gegn Dvirnyy og Erdos sem báðir eru reyndir landsliðsmenn. Það er greinilega að skila sér hjá Hilmi að tefla við mikið af sterkum skákmönnum á efsta borði í deildakeppninni en hann átti í fullu tré við Cheparinov og fleiri sterka meistara á dögunum. Hilmir er eilítið óheppinn með pörun stigalega í 4. umferðinni en heldur væntanlega í vonina um að landa stórmeistaraáfanga þó full snemmt sé að telja úr kössunum.
Landsliðskonurnar okkar, Lenka Ptacnikova og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir fara líka vel af stað. Báðar hafa þær 2 vinninga og eru í 20+ stigum í gróða.
Fleiri mætti til telja, Engilbert Eyþórsson og Örvar Hólm Brynjarsson eru í miklum stigagróða. Oft er það þannig að barna og unglingamótin gefa mikla reynslu og hún skilar sér einmitt oft í svona mótum með stigagróða.
Fjörið heldur áfram með fjórðu umferð á morgun. Umferðin hefst klukkan 15 og rétt að benda á skákskýringar á staðnum sem hefjast ca. tveimur klukkustundum eftir upphaf umferðar. Áhorfendur að sjálfsögðu velkomnir. Vignir Vatnar fær svart á franska landsliðsmanninn Maxime Lagarde. Erfið pörun en Vignir fær tækifæri á að sýna hvað í honum býr. Hjörvar mætir gamla brýninu Rainer Knaak.






Mótið á chess-results
Útsendingar skáka á Chess.com
Útsendingar skáka á Chess24
Áhrifavaldar sem sýna frá mótinu:
https://www.twitch.tv/annacramling
https://www.twitch.tv/botezlive
https://www.twitch.tv/gingergm