Guðmundur Kjartansson að tafli.

Stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson (2521) tapaði tveimur síðustu skákunum á alþjóðlega mótinu í Przeworsk í Póllandi í gær.

Hannes hlaut 5½ vinning í umferðunum níu og endaði í öðru sæti. Þrátt fyrir slæman endasprett hækkar Hannes um 1 stig fyrir frammistöðu sína.

Þátt tóku 10 skákmenn, og tefldu allir við alla. Þar af voru þrír stórmeistarar. Hannes var þriðji í stigaröð keppenda. Meðalstigin voru 2451 skákstig.

———–

Guðmundur Kjartansson (2402) og, Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2338) taka þátt í alþjóðlegu móti í München í Þýskalandi.

Í gær var tvöfaldur dagur. Tefldar voru 4. og 5. umferð.

Guðmundur vann báðar skákirnar og þar á meðal inverska stórmeistarann (þeir eru til nokkrir) Sundar Sayam (2502). Aleksandr vann fyrri skák dagsins en tapaði þeirri síðari.

Guðmundur hefur 4 vinninga og er í 6.-14. sæti. Aleksandr hefur 3 vinninga og er í 34.-71. sæti.

Sjötta umferð fer fram í dag.

162 skákmenn taka þátt í mótinu og þar af eru 12 stórmeistarar.  Guðmundur er nr. 25 í stigaröð keppenda en Aleksandr er nr. 36.

———–

FIDE-meistarinn Sigurður Daði Sigfússon (2279) var meðal keppenda á EM öldunga sem fram fer í Acqui Terme á Ítalíu. Hann tapaði fyrir enska stórmeistaranum Keith Arkell (2390) í lokaumferðinni í gær. Daði náði að blanda sér heldur betur í toppbaráttunna í lokaumferðunum.

Daði hlaut 5½ vinning og endaði í 14.-17. sæti.

Það er tilfinning ritstjóra að þátttaka íslenskra skákmanna  öldungamótum muni aukast mjög á næstu árum. Rétt er að benda áhugasmömum á HM öldunga sem fram fer í Sikiley dagana 24. október -6. nóvember.

Alls voru tefldar níu umferðir. Í flokki Sigurðar Daða (50+) voru 80 keppendur frá 25 löndum. Þar af voru 5 stórmeistarar og 7 alþjóðlegir meistarar. Daði var tíundi í stigaröð keppenda.

- Auglýsing -