Fjórða umferðin á EM ungmenna á Mamaia í Rúmeníu reyndist vera besta umferðin hingað til. Þrjár vinningsskákir og þrjú jafntefli, ekkert tap! Vonandi er þetta stígandi sem er kominn til að vera! Fjórir og hálfur af sex er ansi fínn árangur.
U18
Aleksandr Domalchuk-Jonasson (2407) hafði hvítt gegn alþjóðlegum meistara frá Azerbaijan. Khazar Babazada hefur 2463 elóstig og tefldi mjög hratt í kóngsindverja með svörtu. Aleksandr vann peð en Azerinn hafði góða stjórn á reitum, sérstaklega e5 reitnum á miðborðinu. Bætur svarts voru líklega alltaf nægar og Aleksandr fann ekki leið til að láta umframpeðið telja. Líklegast hafði okkar maður aðeins betra í lokastöðunni en tíminn var af skornum skammti og því bauð hann jafntefli. Á einum tímpunkti hafði Aleksandr 56 sekúndur gegn 56 mínútum!
Benedikt Briem (2207) hafði svart gegn Tyrkja, Ugur Uysal (1847) sem var greinilega sterkari en stigin gefa til kynna. Benedikt tefldi traust, semi-Tarrasch með svörtu en lenti í að verjast mest alla skákina og jafntefli eðlileg úrslit í lokin.
U14
Matthías Björgvin Kjartansson (1680) vann tiltölulega auðveldan sigur með svörtu. Bd6 línan sem Vignir Vatnar mælir með er gjöfin sem heldur áfram að gefa. Andstæðingur Matthíasar hrókaði í stöðunni.
11.0-0?? er að sjálfsögðu afleikur og svartur vinnur mjög mikilvægt peð eftir 11…Bxh2! og sigurinn aldrei í hættu hjá MBK.
U12
Josef Omarsson (1764) tefldi við Azera. Josef fékk erfitt miðtafl með bakstætt peð en báðir höfðu alla þungu mennina inná. Josef náði hinsvegar að verjast vel og komast í endatafl þar sem hann náði að virkja kónginn sinn á undan andstæðingnum. Azerinn þurfti að hafa sig allan til við að verjast og rétt náði að komast í peðsendatafl sem hann hélt. Jafntefli niðurstaðan.
U10
Birkir Hallmundarson (1565) tefldi algjörlega eins og herforingi gegn Sikileyjarvörn andstæðings síns. Það hefur verið flottur stígandi í taflmennsku Birkis og eftir örugga sigur í 4. umferðinni hefur hann 2 vinninga af 4.
U12 stúlkna
Emilía Embla B. Berglindardóttir (1238) náði að vinna tvo menn fyrir hrók með fínni taktískri aðgerð. Andstæðingur Emilíu losaði spennuna of snemma gegn London-byrjuninni og Emilía náði að tefla rökrétt og vel og refsaði andstæðingnum. Eitthvað fann Emilía þó til sektarkenndar þar sem rúmenska stúlkan hafði gefið henni súkkulaði fyrir skákina þar sem hún átti afmæli. Emilía keypti í gær afmælisgjöf fyrir hana sem hún afhenti fyrir 5. umferðina.
Úrslitin:
Staðan:
Allir búnir að vinna skák og komnir á blað sem er sérlega ánægjulegt. Aleksandr er með 3 af 4 og í ágætis færi á að narta í toppinn.
Fimmta umferð er fyrr á ferðinni en venjulega og hófst klukkan 10:30 að staðartíma. Líklegast þarf að rýma salinn fyrir viðburð á morgun sem er frídagur á mótinu. Aleksandr hefur svart gegn belgískum FM og flestir fá að því er virðist nokkuð jafna skák.