Bárður Örn með fullt hús á Haustmóti TR

Það er margt að gerast í skákinni þessa dagana. Íslandsmót kvenna, Íslandsmót öldunga, Haustmót TR og HM öldungasveita 50 ára og eldri í Struga í Norður-Makedóníu eru skákkeppnir sem fylgst er vel með. Íslandsmótunum báðum lýkur um helgina. Vignir Vatnar Stefánsson og Alexander Domalchuk hófu keppni sl. fimmtudag í Mexíkóborg á HM unglinga 20 ára og yngri.

Á Íslandsmóti kvenna, þar sem keppendur eru sex talsins, hafði Olga Prudnykova unnið fyrstu tvær skákir sínar og Lenka Ptacnikova kom næst með 1½ vinning en þær munu eigast við í síðustu umferð.

Björgvin Víglundsson, sem á titil að verja á Íslandsmóti öldunga, vann fyrstu tvær skákir sínar en keppendur þar eru einnig sex talsins.

Á HM öldungasveita 50 ára og eldri hefur íslenska sveitin, sem í borðaröð er skipuð greinarhöfundi, Jóhanni Hjartarsyni, Margeiri Péturssyni, Jóni L. Árnasyni og Þresti Þórhallssyni, átt góðu gengi að fagna og unnið viðureignir sínar í þremur fyrstu umferðunum og náði með því efsta sæti ásamt Englendingum með 6 stig og 10½ vinning af 12. Í gær átti sveitin að tefla við Englendinga.

Víkur þá sögunni að Haustmóti TR, sem komið er vel á rekspöl. Þrjár umferðir eru eftir af mótinu. Það var mikið undir í sjöttu umferð á miðvikudaginn þegar efstu menn mættust. Bárður Örn Birkisson hafði þá unnið allar fimm skákir sínar, Hilmir Freyr Heimisson, ½ vinningi á eftir og ætlaði sér auðvitað sigur, fékk gott tækifæri í byrjun tafls en tapaði að lokum eftir örugga taflmennsku Bárðar sem nýtti þau tækifæri sem buðust.

Staða efstu í A-flokknum er þá þessi: 1. Bárður Örn Birkisson 6 v. (af 6) 2. Stefán Bergsson 5 v. 3. Hilmir Freyr Heimisson 4½ v. 4. Björn Hólm Birkisson 3½ v.

Í opna flokknum eru Mikael Bjarki Heiðarsson og Jóhann Ragnarsson efstir með fimm vinninga af sex mögulegum. Lítum á uppgjör efstu manna:

Haustmót TR 2023; 6. umferð:

Hilmir Freyr Heimisson – Bárður Örn Birkisson

Enskur leikur

1. c4 e5 2. Rc3 Rf6 3. Rf3 Rc6 4. g3 d5 5. cxd5 Rxd5 6. Bg2 Rb6 7. 0-0 Be7 8. b3

Tilraun til að sneiða hjá algengustu leiðum en 8. Hb1, 8. a3 eða 8. d3 er algengast.

8. … 0-0 9. Bb2 Be6 10. Hc1 Dd7 11. d4 exd4 12. Rb5 Bd5 13. Rbxd4 Bf6 14. e3 Had8?!

Þessi leikur er eilítið ónákvæmur því staða hróksins gefur kost á 15. Rxc6! Eins og „vélarnar“ benda á. Framhaldið gæti orðið 15. … Bxb2 16. Rxd8 Bxc1 17. Rxb7 Bxe3 18. fxe3 Bxb7 19. Dxd7 Rxd7 20. Hc1! með örlítið betra endatafl sem Hilmir Freyr kann að hafa talið að dygði ekki til sigurs. Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi. Þarna fór besta tækifæri hans í skákinni.

15. De2? Rxd4 16. Rxd4 Bxg2 17. Kxg2 Hfe8 18. Hfd1 De7 19. Dg4 Hd5 20. Ba1 g6 21. Df4 Be5 22. Df3 c6 23. Re2 Hed8 24. Hxd5 Hxd5 25. Bd4 Bxd4 26. Rxd4 Kg7 27. Hc2 h5

28. Df4?

Gáir ekki að sér. Hann varð að leika 28. h4 og staðan er í jafnvægi.

28. … c5! 29. Rf3 Hf5 30. Dh4 g5!

 

 

Knýr fram vinningsstöðu því að eftir 31. Dxh5 kemur 31. … De4! sem hótar hróknum og 32. … g4!

31. Rxg5 Dxg5 32. De4 Hd5 33. f4 Dg6 34. Dxg6+ Kxg6

Nú er eftirleikurinn auðveldur.

35. e4 Hd4 36. Hxc5 Hxe4 37. Hc7 He2+ 38. Kf3 Hxa2 39. Hxb7 Ha3 40. Ke4 Kf6 41. b4 Ha4 42. Kf3 Rc4 43. Hb5 Ha3+ 44. Kg2 Re3+ 45. Kh3 Rf5 46. Hb7 h4

– og hvítur gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 23. september 2023

- Auglýsing -