— Ljósmynd/Hörður Jónasson

Hannes Hlífar Stefánsson er fyrsti íslenski stórmeistarinn sem tekur þátt í þessu heimsmeistaramóti öldunga sem nú stendur yfir í Palermo á Ítalíu en mótinu lýkur um helgina. Teflt er í opnum flokki 50 og 65 ára og eldri og einnig í kvennaflokki með sömu aldursskiptingu. Þessi öldungamót hafa notið vaxandi vinsælda og er þar skemmst að minnast HM öldungasveita í Norður-Makedóníu á dögunum.

Á þessum mótum hittast oft gamlir kunningjar sem hafa marga hildi háð, sem sannaðist er Hannes Hlífar, sem er næststigahæsti keppandinn í 50+ flokknum, mætti þeim stigahæsta, enska stórmeistaranum Michael Adams. Þeir börðust um heimsmeistaratitil pilta 16 ára og yngri í Innsbruck í Austurríki vorið 1987. Þá hafði Hannes betur og vann Adams í magnaðri baráttuskák og hampaði svo titlinum „heimsmeistari sveina“ og endurtók með því afrek Jóns L. Árnasonar frá því í Cagnes sur Mer í Frakklandi haustið 1977.

Og nú, meira en 36 árum síðar, mætti Hannes þeim enska aftur. Viðureign þeirra í áttundu umferð sl. fimmtudag var geysihörð og lauk með jafntefli eftir 98 leiki og u.þ.b. sjö klukkustunda taflmennsku. Úrslitin þýddu að Hannes, sem var með svart, hélt sér í baráttunni um heimsmeistaratitil öldunga en staða efstu manna fyrir lokaumferðirnar þrjár var þessi: 1. Atalik (Tyrklandi) 6½ v. (af 8). 2.-7. Hannes Hlífar Stefánsson, Adams (Englandi), Dlugy (Bandaríkjunum), Novik (Litháen), Morovic (Síle) og Cabe (Filippseyjum) 6 v.

Í 9. umferð, sem fram fór í gær, átti Hannes að tefla við Filippseyinginn Cabe og hafði hvítt.

Hverfum þá nokkra áratugi aftur í tímann eða til mótsins í Austurríki vorið 1987:

HM pilta 16 ára og yngri; Innsbruck 1987:

Michael Adams – Hannes Hlífar Stefánsson

Skandinavískur leikur – Íslenski gambíturinn

1. e4 d5 2. exd5 Rf6 3. c4 e6 4. dxe6 Bxe6

Hér er kominn fram „íslenski gambíturinn“ sem Hannes tefldi mikið á sínum yngri árum og átti með því sinn þátt í nafngiftinni. Adams gat skapað „sterkt“ miðborð með 5. d4 en grunaði greinilega Hannes um græsku. Kjarninn í leikáætlun Hannesar snerist um þann leik eins og dæmin sanna.

5. Rf3 Rc6 6. Be2 Bc5 7. 0-0 Dd7 8. d3 0-0 9. Rbd2 Had8

Svartur hefur auðvitað dágott spilið með sterk tök á miðborðinu.

10. Rb3 Bb6 11. Bg5 a5 12. 12. Dc1 Hfe8 13. He1 a4 14. Rbd2 Bf5 15. Bxf6 gxf6 16. Dc3 Rd4 17. Bf1 Dd6 18. Rh4 Dc5 19. Rxf5 Rxf5 20. d4 Dxd4 21. Dxd4 Bxd4 22. Hxe8 Hxe8 23. Hb1 Hd8 24. Rf3 Bb6 25. b4 axb3 26. axb3 Rd4

Þessi leikur jafngilti jafnteflistilboði því að eftir uppskipti á d4 eru önnur úrslit vart möguleg. En Adams vildi vinna.

27. Re1?! Re6 28. b4 c6 29. Rd3 Bd4 30. g3 Ha8!

Með því að ná a-línunni hrifsar svartur til sín frumkvæðið.

31. b5 cxb5 32. Hxb5 b6 33. Hd5 Ha4 34. Rf4 Ha2 35. Re2 Bc5 36. Hd3 Rg5!

Riddarinn er ekki árennilegur þarna og stefnir til e4. Hvítur getur haldið jafnvægi með 37. Kg2 en valdi …

37. Kh1 Re4 38. Hd8+ Kg7 39. Rf4 Rxf2+ 40. Kg2 Re4 41. Kh1 Rg5 42. Hd1 Re4 43. Hd8 Be3 44. Rd3 Rd2!

Þar með fellur c4-peðið. Hvíta staðan er vonlaus.

45. Be2 Rxc4 46. Rf4 b5 47. Rh5+ Kh6 48. Bxc4 bxc4 49. Rxf6 Kg6 50. Hd6 Kf5 51. Hc6 Bd2 52. Re8 c3 53. Rd6 Kg4 54. h3+ Kxh3

– og Adams gafst upp.

Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 4. nóvember 2023

- Auglýsing -