Íslensku liðin hófu keppni á Evrópumóti landsliða hér í Budva í Svartfjallalandi í dag. Eins og venja er tefla liðin upp fyrir sig í fyrstu umferð á Evrópumóti og yfirleitt erfiðar viðureignir. Í opna flokknum var það Serbía en í kvennaflokki lið Sviss.
Aðstæður á mótinu lofa góðu. Hótelið sem gist er á er fínt. Íslenska liðið hefur eina hæð á sömu álmu alveg útaf fyrir sig og matur þokkalegur það sem af er. Keppnishótelið virkar einnig mjög flott og keppnissalurinn rúmgóður og flottur.
Víkjum okkur að fyrstu umferðinni sem hefði getað gengið betur!
Mótherjarnir grjóthart lið Serba sem hvíldu þó fyrsta borðs mann sinn Alexander Predke (2661).
Hjörvar fékk ærið verkefni á fyrsta borði, svart gegn Alexey Sarana (2669) sem er brottfluttur Rússi sem teflir undir fána Serba. Sterkur skákmaður og hefur verið að standa sig vel á netmótum með styttri tímamörkum.
Hjörvar tefldi framan af skák af mikilli festu og gaf ekkert eftir í vörninni og hélt Sarana í skefjum. Okkar maður fékk meira að segja dauðafæri en missti af því.
34…Dd5! hefði gert hvítum lífið ákaflega leitt! Svartur hótar að komast inn í herbúðir hvíts á fyrstu reitaröð og erfitt að verjast því. Hjörvar lék 34…Dc1+ og staðan einfaldaðist í endtafl með þungum mönnum og 4 peð gegn 3 á kóngsvængnum. Sú staða ætti að haldast en Sarana fann leið til að gera svörtum lífið leitt.
49.Hxf7! Dxf7 50.Da8+ Kh7 51.De4+ Kh8 52.Dxb1 Dxh5 Sarana tókst að svíða með því að ýta e-peði sínu fram.
Vignir hefur vafalítið viljað gera betur í fyrstu skák sinni með landsliðinu á stórmóti en hann vinnur það upp síðar á mótinu. Vignir hafði hvítt gegn Aleksandar Indjic (2601) sem oft hefur reynst okkur erfiður. Tefld var teóría í Katalan-byrjun sem er einstaklega vinsæl þessi dægrin. Upp kom afbrigði þar sem hvítur fórnar peði en hefur klárar bætur og pressu fyrir peðið. Indjic náði að standast pressuna og kæfa frumkvæði hvíts og endaði á að komast í endatafli peði yfir. Versta martröð materíalískra skákmanna sem fórna aldrei peðum af þessari ástæðu!
Guðmundur mætti Robert Markus (2582). Fyrrum 2600+ stórmeistara með eilítið sérstakan stíl. Guðmundur hafði verra tafl með svörtu í miðtaflinu, hvítur hafði mun meira rými og vænlega stöðu. Eftir að Guðmundur náði uppskiptum á hvítreitabiskup og drottningu virtust öll vandræði að baki og svartur með hálfgert virki (fortress). Það hlýtur að hafa verið vitlaus ákvörðun í 44. leik að breyta um varnaruppstillingu og setja svarta riddarann á d8 í stað d4 þar sem hann stóð vel. Staða sem Guðmundur hefði ekki átt að tapa en þetta var einfaldlega ekki okkar dagur.
Hilmir fékk sína frumraun eins og Vignir og hefði líka viljað gera betur. Hilmir fékk hvítt á Velimir Ivic (2557). Ivic er sterkur stórmeistari sem t.d. hefur náð góðum sprettum á Heimsbikarmótum svo eitthvað sé nefnt.
Ivic hafði betur úr byrjuninni og Hilmir slapp með skrekkinn í 19. leik
Ivic lék 19…Bxf2+ en missti af 19…Dh6! sem gefur svörtum mikla yfirburði. Hvítur er í vandræðum með e2 peðið og ef hann valdar það er slegið á f2 og h2 hangir í kjölfarið. Hilmir náði að komast út í hróksendatafl sem ætti að vera jafntefli með bestu taflmennsku, gamla góða 0.00 í tölvunum en Ivic náði að snúa á hann.
0-4 tap gegn Serbum sem er alltof stórt, bæði miðað við getu íslenska liðsins og þróun skákanna. Segjum bara að við höfum tekið „slæma kaflann“ út snemma!
Kvennaflokkur
Í kvennaflokki mættum við sterku liði Svisslendinga. Íslenska liðið millilenti einmitt í Zurich á leiðinni til Svartfjallalands og einn liðsmaður íslenska liðsins er búsett í Sviss. Þetta innskot tengist viðureigninni ekki á nokkurn hátt þannig að hoppum yfir í viðureignir dagsins.
Sviss kom nokkuð á óvart með því að hvíla Alexöndru Kosteniuk, stigahæstu skákkonu mótsins.
Það var mikið um frumraunir, ekki bara í opna flokknum heldur líka í kvennaflokki. Íslandsmeistarinn Olga Prudnykova tefldi sína fyrstu skák með landsliðinu á stórmóti. Fall er fararheill á vonandi við en Olga fékk mjög erfiða stöðu eftir misheppnaða byrjun. 2…Rf6 eða Nimzovitsch línan gegn Sikileyjarvörn getur verið ágætis vopn endrum og sinnum en er jafnframt vandmeðfarið. Kóngsriddari Olgu lenti á full miklu flakki í byrjuninni og sú svissneska tefldi af krafti.
Olga fær mikið hrós fyrir baráttu engu að síður. Hún náði að verjast ótrúlega lengi og á tímabili var sú svissneska komin í tímahrak og liðsstjóri farinn að gera sér von um einhverskonar íslenskan stuld í þessari skak.
Lenka mætti Hakimifard sem reyndist okkur erfið á síðasta Ólympíumóti. Lenka fékk trausta stöðu eftir byrjunina og miðtaflið var stöðubarátta. Lenka hafði betri tíma á klukkunni en líklega fór of mikill tími í 18-21. leik hvíts þar sem tímaforskotið hvarf og snerist við. Mistökin komu í tímahraki í stöðu þar sem Lenka er klárlega með þægilegri stöðu. Svolítið saga dagsins, seinheppni í flestum skákunum!
Jóhanna fékk svart á efnilega stúlku, Hryzlovu sem er upprunalega frá Úkraínu. Sú er ansi fjölbreytt í byrjunum og þurfti að fara um víðan völl í undirbúningi. Drottningarindverjinn sem kom upp var það sem við áttum síst von á. Þrátt fyrir einhverjar víxlanir á varíöntum komst Jóhanna nokkuð ósködduð í gegnum byrjunina og inn í miðtaflið. Svartur var meira að segja kominn með aðeins betra hér.
Þá komu strategísk mistök 19…Bxg3? sem gáfu hvítum betra tafl. T.d. 19…Rg6!? heldur fínu tafli á svart. Riddarinn býður átekta og getur hoppað á d5 eða nýtt sér h4 reitinn eftir atvikum. Strax í kjölfarið komu taktísk mistök og hvítur vann peð. Eins og Olga barðist Jóhanna og lét þá svissnesku hafa mikið fyrir að klára en á endanum dugði það ekki til.
Hallgerður bjargaði því að íslenska liðið þyrfti fullan eggjabaka fyrir úrslit dagsins. Byrjanaundirbúningur gekk vel upp enda andstæðingur Hallgerðar mjög vanaföst í sínum byrjunum. Góð staða og góður tími og miðtaflið jafnfram vel útfært.
Í 21. leik hefði hvítur líklegast átt að fara í kaup og tefla upp á vænlegt endtafl. Skipamunsfórnin sem Hallgerður valdi hefur líka burði til að valda svörtum vandræðum en Hallgerður endurtók stöðuna þrisvar en hefði líklega getað teflt áfram með He3.
Fín úrslit engu að síður og mikilvægt að ná inn sjálfstrausti strax en Hallgerður var seinheppinn á EM taflfélaga í Albaníu.
Niðurstaðan tap 0,5-3,5, of stórt eins og í opna flokknum.
Íslensku liðin ná vonandi að rétta úr kútnum á morgun. Í opna flokknum fáum við Kosovo sem við virðumst eiginlega alltaf fá en hefur gengið vel með þá. Í kvennaflokki fáum við Ítali sem eru stigahærri á öllum borðum og hafa þrjá alþjóðlega meistara í sínum förum.
- Heimasíða mótsins
- Chess-Results (opinn flokkur)
- Chess-Results (kvennaflokkur)
- Beinar útsendingar (opinn flokkur)
- Beinar útsendingar (kvennaflokkur)
- Beinar lýsingar