Magnus gegn Hjörvari (Mynd: Dr. Mark Livshitz)

Það er óhætt að segja að greinarhöfundur hafi aldrei áður orðið var við jafn mikla eftirvæntingu hjá íslensku liði eins og þegar pörunin Noregur-Ísland kom í loftið í kringum tíuleytið í gærkvöldi. Menn urðu strax yfirspenntir og fullir tilhlökkunar um hvort Magnus Carlsen myndi mæta til leiks eða hvíla gegn frændum sínum. Magnus hafði deginum áður gert jafntefli og ekki teflt vel.

Liðin vita hvaða þjóð þeir mæta að kvöldi eftir umferð dagsins yfirleitt um tíuleytið. Borðaparanir, þ.e. hvernig liðin eru skipuð sjá menn svo morguninn eftir klukkan 10. Flestir í islenska liðinu skelltu sér í „Botvinnik-göngurtúr“ um tíuleytið og svo þegar komið var til baka komu gleðifréttirnar…Magnus mætir!

Hressandi þegar gaurinn sem þú ert að fara að mæta er forsíðumyndin á stærstu teoríusiðu heims!

Hjörvar lá auðvitað yfir Carlsen kvöldið áður og eftir að pörunin var tilkynnt. Erfitt verkefni en það var mikill hugur í mönnum! Vindum okkur i verkefnið í opna flokknum…

Opinn flokkur

Eins og áður sagði, sjálfur Magnus Carlsen var andstæðingur Hjörvars! Við vorum aukinheldur stigalægri á öllum borðum!

Magnus gegn Hjörvari (Mynd: Dr. Mark Livshitz)

Hjörvari til tekna þá náði hann nokkurn veginn að giska á hvað Magnus myndi tefla eins og sjá má á myndinni að neðan.

Á myndinni er Hjörvar að stúdera Spánverjann og bjóst við afbrigðum með d3 og Bg5. Takið eftir post-it miðunum. Alvöru vinnubrögð hjá okkar manni!

Myndband frá upphafi umferðar:

Magnus mætti passlega seint til leiks, ca. 2-3 mínútum og horfði svo út í loftið í 1-2 mínútur áður en hann loks mundaði d-peðið sitt en skipti svo yfir og lék e-peðinu fram um tvo leiki. Magnus tefldi byrjunina svo mjög hratt og setti Hjörvar snemma í tímapressu.

Upp kom spænskur leikur eins og Hjörvar bjóst við. Á einhverjum tímapunkti ruglaði Hjörvar saman afbrigðum með drottningu til e7 á vitlausum tíma. Hjörvar komst snemma í tímapressu eins og áður sagði og þegar menn tefla við menn eins og Carlsen er auðvelt að „sjá drauga“ og eyða meiri tíma en venjulega.

Þrátt fyrir allt var Hjörvar þokkalega inni í skákinni en lenti í smá beyglu hér eftir 18…Kg7? stigahæsti skákmaður heims svaraði 19.Rh4! sem þvingaði góð uppskipti fyrir Magnus sem fékk biskupaparið og fljótlega eftir það varð ekki aftur snúið. Hjörvar gerði vel að halda út en á endanum var Magnus of sterkur og má segja að hann hafi aukið yfirburði sína línulega út skákina.

Alvöru „test“ fyrir Hjörvar í dag!

Ýmsir hafa gert myndband með skýringum af skákinni.

Hikaru Nakamura (slátrar reyndar eftirnafni Hjörvars…ítrekað!)

Agadmator

Skák Hjörvars var þó ekki fyrsta skákin til að klárast. Áður en Hjörvar varð að lúta í dúk hafði Vignir siglt öruggu jafntefli í höfn með svörtu mönnunum.

Mynd. Mark Livshitz

Vignir tefldi Berlínarvörn gegn Lars Oscar Hauge. Sá norski tók snemma á c6 og fékk eiginlega ekki neitt. Vignir jafnaði taflið tiltölulega auðveldlega og þrátt fyrir að tölvurnar setji hvítu stöðuna örlítið betri í endataflinu lítur hún fyrir að vera betri á svart út frá mannlegu innsæi. Báðir keppendur héldu það og Lars var feginn að tryggja jafntefilð.

Hér var staðan 0,5-1,5 norska liðinu í vil. Sem betur fer litu stöðurnar vel út hjá okkar mönnum. Hilmir var næstur að klára.

Hilmir einbeittur (Mynd. Mark Livshitz)

Hilmir var staðráðinn í að klára andstæðing sinn í dag. Kóngspeðið fór fram um tvo reiti og tefldu var tískuvaríantur gegn Najdorf 6.Hg1. Hilmir tefldi mjög hratt og hafði tímaforskot þar til sá norski lék 14…h6 sem var nýr leikur.

Hilmir brást vel við og fékk mjög þægilegt endatafl. 20.Ha2 var menntaður leikur og hvítur fékk betra rými og frábæran riddara á e4 reitnum. Hilmir skipti rétt upp og fékk unnið riddaraendatafl.

Lars Oskar reyndi að blíðka goðin með peðsfórn 32…e4. Hilmir tók peðið en 33.Rf5!? hefði að öllum líkindum dugað til vinnings. Hvítur þarf að tefla nákvæmt en peðsendataflið vinnst ef svartur tekur á f5. Leið Hilmis var líka unnin en tók aðeins lengri tíma.

Mynd. Mark Livshitz

Það kom í hlut altmeistersins í liðinu að sigla þessu heim. Hannes var í ágætis gír á HM 50+ sem lauk skömmu fyrir þetta mót. Hannes tapaði í gær en eins og nefnt var í pistlinum í gær hefur Hannes ítrekað fylgt tapi i fyrstu umferð eftir með góðum spretti undanfarið.

Framan af skák hans við Elham Amar (áður Abdulrauf) var þó ekkert endilega í kortunum að Hannes væri að fara að vinna. Vissulega hafði Hannes aðeins betra lengst af og eiginlega allt miðtaflið var tölvumatið á milli 0.2 og 0.5 Hannesi í vil. Eftir uppskipti virtist allt stefna í jafntefli. Þá urðu vatnaskil.

Sá norski lék 42…Df5?? og fór svo að hrista hausinn skömmu síðar. Hannes lék 43.Da4! og útaf hótuninni De4 eru drottningarkaupin orðin nánast þvinguð og þá fara frípeð Hannesar á drottningarvæng að telja.

Norðmaðurinn fékk eitt tækifæri á að allt að því tryggja jafnteflið en 52…Kf6?? reyndust lokamistökin. Hannes tefldi eins og tölva það sem eftir var skákar og sigldi glæsilegum sigri í höfn!

Glæsilegur 2,5-1,5 sigur hjá íslenska liðinu. Mikil og skemmtileg stemmning er hjá íslenska liðinu í opna flokknum og mikil samheldnin í hópnum. Næst á dagskrá er mjög þétt sveit Ungverja sem verður annað verðugt verkefni!

Útsendingu dagsins má sjá hér að neðan en þar komu íslenska liðið við sögu í nokkur skipti.

Kvennaflokkur

Í kvennaflokki var lið Tékklands andstæðingur dagsins. Lið sem við einhvern veginn hittum reglulega á að mæta.

Lið Tékkana jafnt og þétt og fullt af reynslu. Þrátt fyrir að aðeins muni nokkrum sætum í styrkleikaröðinni munar 120 elóstigum á meðalstigum þannig að ljóst að róðurinn yrði erfiður.

Olga var sú eina í íslenska liðinu sem var stigahærri en andstæðingurinn. Olga tefldi afbrigði sem hún hefur teflt þónokkuð og stúderað vel í miðbragði. Upp kom rúllúskautavaríantur þar sem mistökin geta verið nokkuð dýrkeypt. Olga gerði sig seka um fyrstu mistökin, gleymdi að leika 12.a3 sem er í jafnvægi.

12.Rge2? var slakur og svartur fékk súper-frumkvæði. Flækjurnar urðu töluverðar í kjölfarið og auðvelt er að vera vitur eftirá með tölvuforritin fyrir framan sig. Báðir keppendur gerðu ein stór mistök en baráttan hélt áfram

Hér var sama staðan endurtekin þrisvar, Julia skákaði á h4-g4 en Olga er líklegast með unnið tafl etir 26.g3 en gerði mistök í útreikningum (sem hún gerir óvenju sjaldan) og leyfði þráskákina.

Lenka tapaði á öðru borði. Upp kom Taimanov sikileyjarvörn en þó ekki afbriðgið sem við bjuggumst við. Það komu aldrei nein stór mistök fyrr en eftir að ekki var aftur snúið. Líklegast liggja mistökin einhversstaðar í byrjuninni, 13…Bxg4 líklega nauðsynlegur til að hafa taflið teflanlegt en svartur á einhverjar úrbætur fyrr í skákinni. Líklegast hefði verið hætt að berjast eitthvað áfram en 19…Rxg4? var tapleikur í erfiðri stöðu.

Staðan nú orðin erfið, 0,5-1,5 eins og hjá strákunum í opna flokki en endirinn varð ekki jafn góður hjá stelpunum.

Liss tefldi sína fyrstu skák og gekk mjög vel framan af. Andstæðingur Liss gerði nokkur stöðuleg mistök og Liss með svart hafði alla stöðuna. Stöðuyfirburðirnir góðir þegar svartur fór í vafasamt peðsát.

Hér hefði 22…0-0 tryggt svörtum mun betra tafl. 22…Bc4?! og slegið á b5 í kjölfarið gaf hvítum allt í einu bullandi mótspil og fljótlega varð valdað frípeð á e6 orðinn mikil pest fyrir svörtu stöðuna. Fráskákir vofðu yfir og svarta drottningin föst í vondu hlutverki að blokka peðið. Mögulega var hægt að halda svörtu stöðunni en í tefldri skák er nánast vonlaust fyrir mannsheilann að halda slíkri stöðu.

Viðureignin nú orðin töpuð en Jóhanna náði að malda í móinn með miklum baráttusigri. Jóhanna hafði betra lengi framan af skák en missti þráðinn í miðtaflinu og hafði verri stöðu og andstæðingurinn með hættuleg sóknarfæri. Skákin var að fjara í ranga átt en þá kom rét sprikl á réttum tíma gegn réttum andstæðingi. Sú tékkneska fór á taugum í tímahraki og eftir mistök hennar fann Jóhanna alla réttu leikina til að refsa.

Niðurstaðan 1,5-2,5 tap sem er líklega eðlilegt miðað við elóstig en sveitina er farið að langa í úrslit!

Ekki náðust myndir frá kvennaliðinu í dag og helgast það af því að liðsstjórum var aðeins heimilt að taka myndir í fyrstu tveimur umferðunum. Í opna flokknum fengum við viðureign við „stjörnu“ prýtt lið Noregs og fengum því myndir. Sérkennilegt fyrirkomulag en lítið við því að gera. Kannski lagast þetta þegar við fáum „VIP“ í salinn, sjálfan varaforseta ECU!

Í síðasta pistli byrjaði ég á því að setja inn skákir sem vöktu athygli mína á vappi um salinn. Óhætt er að segja að fáar hafi vakið athygli undirritaðs eins og þessi í umferðinni. Eline Roebers frá Hollandi hefur vakið mikla athygli fyrir hressilega taflmennsku undanfarið. Hér mætir hún Ekaterinu Atalik frá Tyrklandi.

Í eitt skiptið sem ég gekk framhjá þessu borði mætti ég Sergei Movsesian Íslandsvini. Við horfðum báðir á borðið og skiptumst svo á glotti.

Það er ekki oft sem skákmenn ná svona fullkomnu peðamiðborði! Einhverju sinni gerði greinarhöfundar myndband um slík peðamiðborð en þau eru einstaklega sjalfgæf!

Hér er svo skákin:

Í næstu umferð hjá stelpunum er það Noregur og ekki væri úr vegi að apa eftir stráknum í opna flokki og leggja Noreg einnig að velli.

Frétt DV um umferð dagsins

- Auglýsing -