Íslenska sveitin sem nú tekur þátt í heimsmeistaramóti öldungasveita 50 ára og eldri við góðar aðstæður í Kraká í Póllandi er skipuð sömu einstaklingum og í þrem síðustu mótum. Borðaröðin hefur verið sú sama í öll skiptin, greinarhöfundur er á 1. borði, Jóhann Hjartarson á 2. borði, Margeir Pétursson á 3. borði, Jón L. Árnason á 4. borði og 1. varamaður er Þröstur Þórhallsson. Við þessir fimm einstaklingar leitumst við að dreifa álaginu þannig að búast má við að hver liðsmaður tefli sjö skákir og a.m.k. einn átta skákir. Liðstjóri er sem fyrr Jón Gunnar Jónsson. Á síðasta móti sem fram fór í Struga í Norður-Makedóníu varð sveitin í 3. sæti. Vitaskuld er stefnan sett á enn betri árangur nú en þess má geta að þrír liðsmenn verða galdgengir í flokki keppenda 65 ára og eldri þegar á næsta ári. Á þeim vettvangi áttum við ágæta sveit í Ródos 2019.
Eftir þriðju umferð er íslenska sveitin í 1.-4. sæti með 6 stig ásamt Englendingum Bandaríkjamönnum og Ítölum. Við höfum hlotið 10½ vinning af 12 mögulegum eins og Englendingar, Ítalir eru með 9½ vinning og Bandaríkjamenn eru með 8½ vining. Vinningatalan getur skipt máli í mótslok en keppt er um 2 stig í hverri viðureign. Tefldar verða níu umferðir og í fjórðu umferð, sem var á dagskrá í gær, föstudag, átti íslenska sveitin að kljást við þá ensku. Enginn vafi er á því að eftir því sem líður á mótið mun baráttan harðna. Annars hefur taflmennskan verið nokkuð lipur og góðir sigrar unnist. Við tefldum við kvennasveit Ungverja í 1. umferð og unnum 4:0. Jón L. fann nokkra snjalla leiki í þessari stöðu:
HM öldungasveita, Kraká 2014; 1. umferð:
Jón L. Árnason – Etelka Csom
Síðasti leikur svarts var 19. … e5. Sú ungverska hefði betur sleppt þeim leik því nú kom kraftmikil atlaga frá Jóni:
20. b5! axb5 21. Ha8+ Rb8
Hvað nú? Svartur virðist geta varist en Jón laumaði á mögnuðum peðsleik:
22. g5!
Með hugmyndinni 23. Bg4+. Þar sem riddarinn á d5 getur sig hvergi hrært vegna 23. Bxb7 mát á svartur ekkert annað en …
22. … c6 23. Bg4+ Kc7 24. Ha7!
og b7-peðið verður ekki varið. Svartur er varnarlaus. Framhaldið varð …
24. … exd4 25. cxd4 Rf4 26. Hxb7+ Kd6 27. Hxf7
– og Etelka Csom gafst upp. Framhaldið gæti orðið 27. … Rg6 28. Rb7+ og svarta staðan hrynur.
Jóhann Hjartarson sem stóð sig frábærlega á EM öldungasveita í Slóveníu á dögunum tók sér frí í fyrstu umferð en mætti öflugur til leiks í annarri og þriðju umferð. Hann gaf engin grið er við tefldum við Þjóðverja:
HM öldungasveita, Kraká 2014; 2. umferð:
Jóhann Hjartarson – Dirk Lampe
Varla er þetta staða sem unnendur kóngsindversku varnarinnar láta sig dreyma um. Engin kóngssókn í vændum og afar langt á milli hjónanna í sitt hvoru horninu. Aðrir menn svarts geta sig varla hreyft. Jóhann náði að knýja fram vinning með hnitmiðuðum leikjum …
29. Hxa8 Dxa8 30. Bh5 Hg8 31. Bf7!
Hrókurinn getur skroppið til g4, 31. .. Hg4, en eftir 32. h3 Hxc4 33. Db8! er öllu lokð. Eftirleikurinn var auðveldur…
31. … Hg7 32. Rxg7 Kxg7 33. Bh5 Bd7 34. Dc3 Dd8 35. Dg3+ Kh6 36. Be2 Df6 37. Df4+ Kg7 38. Hb7 Kf8 39. g3 Ke8 40. Ha7 Kd8 41. Hxa6 Kc7 42. Dd2 Kd8 43. Ha8+ Ke7 44. De3 Be8 45. a4
– og svartur gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 6. júlí 2024