Tvöfaldur dagur var í dag á opna Festival Internacional de Ajedrez Ciudad de Gáldar 2024 á Kanaríeyjum. Íslensku keppendurnir eru fjórir á þessu móti og komust allir í beinar útsendingar í dag. Vignir Vatnar Stefánsson er stigahæstur á þessu 147 manna móti þrátt fyrir að 11 stórmeistarar taki þátt. Auk Vignis eru þeir Aleksandr Domalchuk-Jonasson, Dagur Ragnarsson og Alexander Oliver Mai að tafli og mögulega að ná sér í smá „tan“.
Í fyrri umferðinni hafði Vignir hvítt gegn FM Alberto Hernandez (2233) sem í raun gerði nánast allt rétt til að vinna sér inn jafntefli í skákinni. Vignir virðist hinsvegar fara með svo miklum himinskautum og er með sjálftraustið í algjörum botni að hann náði einhvern veginn að kreysta fram vinning í mjög jafnteflislegu endtafli. Reyndar missti Vignir skákina á einum stað niður í jafntefli með 42.De5?? í stað 42.Dd4 en þá svaraði Alberto að bragði með tapleik í stað jafnteflisleik. Jákvæður seiglusigur.
Alexander Oliver Mai hafði svart gegn mjög sterkum alþjóðlegum meistara, Nico Swirz (2485) frá Hollandi. Lengi vel fylgdu þeir skák stórmeistarana Jean Marc-Degrave og Jan Votava eða í heila 19 leiki! Alexander að tefla fínt en þá valdi hann vafasamt feygðarflan með annan hrók sinn og lenti fljótlega í miklum vandræðum eftir það. Svartur varð að lúta í dúk.
Þeir Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Dagur Ragnarsson unnu sínar skákir í 2. umferð og því þrír Íslendingar með fullt hús og því þrír í beinni í seinni umferð dagsins, 3. umferð.
Hér mætti Vignir stórmeistara. Salvador Del Rio De Angelis (2376) er reyndur stórmeistari og stýrði hvítu mönnunum. Hann virtist bjóða upp á þráleik í miðtaflinu en mögulega var hann bara að kanna farvatnið. Vignir allavega bauð ekki upp á að Salvador gæti valið um að fá jafntefli eða ekki og tefldi áfram. Vignir tefldi aktíft en varð að gefa peð en virtist aldrei í taphættu og hélt endataflinu auðveldlega.
Aftur sjáum við merki um óbilandi sjálfstraust að hreinlega forðast jafntefli með svörtu í drottningarbragði gegn reyndum stórmeistara!
Aleksandr Domalchuk-Jonasson hafði hvítt í sinni skák og mætti stórmeistaranum Josep Manuel Lopez (2448). Aleksandr lenti í vandræðum útaf lélegri liðsskipan kóngsvængs síns og urðu vandamálin alltaf stærri og stærri uns ekkert var við ráðið. Lopez vann.
Dagur Ragnarsson tefldi mikla rúlluskautaskák gegn þýska alþjóðlega meistaranum Tobias Koelle (2433). Dagur fórnaði manni og fékk mikið spil fyrir. Svartur brást rangt við og Dagur fékk færi.
Hér hefði 16.Hxe7! verið magnaður! Svartur svarar 16…Rxe7 17.Rxg7+ Kf8 18.Bh6. Þetta var svosem auðvelt að sjá en framhaldið er mjög erfitt að reikna og meta.
18…Dc6 er góður varnarleikur hér 19.Rf5+ Ke8 20.Rd6+ Kd7 hér eru ýmsar leiðir, misflóknar en skiljanlegt að missa aðeins þráðinn í útreikningum hér. Í stað 16.Hxe7 lék Dagur 16.Rxg7+
Skákin kláraðist svo með skemmtilegri þráskák.
Alexander Oliver Mai vann góðan skyldusigur í 3. umferðinni.
Staðan þá þannig að Vignir og Dagur hafa 2,5 vinning en Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Alexander Oliver hafa 2 vinninga.
Í fjórðu umferð á morgun hefur Vignir hvítt á fransmann með 2260 stig. Dagur fær svart á stórmeistarann Lev Yankelevich en „Lexarnir“ fá báðir veikari andstæðinga sem þeir ættu að leggja að velli.