FIDE-meistarinn Elvar Guðmundsson lést á heimili sínu 14. september sl., sextugur að aldri. Elvar var um langt skeið einn allra besti skákmaður landsins. Elvar fæddist 19. nóvember 1963.
Hann tefldi með íslenska ungmennalandsliðinu sem hafnaði í 2. sæti í Chicago árið 1983 ásamt Margeiri Pétursssyni, Jóni L. Árnasyni, Jóhanni Hjartarsyni og Karli Þorsteins.
Elvar var a.m.k. tvívegis nálægt því að verða Íslandsmeistari í skák. Hann tapaði í aukakeppni þegar Hilmar Karlsson hampaði titlinum árið 1983. Svo veitti Elvar Helga Ólafssyni harða baráttu á afar sterku Skákþingi Íslands árið 1981 en endaði annar fyrir ofan flesta sterkustu skákmenn landsins á þeim tíma.
Elvar var orðheppinn maður og var oft með hnyttin ummæli á Facebook-hópi skákmanna. Þótt að Elvar tefldi ekki mikið á skákmótum síðustu árin fór það ekki framhjá neinum að hann fylgdist afar vel með innlendu skáklífi. Skákáhuginn heldur betur til staðar.
Það var alltaf gaman að hitta Elvar. Ættingjum og vinum Elvars votta ég samúð mína.
Útför Elvars fer fram 3. október, kl. 13 í Garðakirkju.