Ný alþjóðleg skákstig komu út 1. október. Vignir Vatnar Stefánsson (2541) eykur forskot sitt á toppnum. Birkir Hallmundarson (1824) hækkaði um 187 stig!

 

Topp 20

Vignir Vatnar hækkar eins og áður segir um 10 stig í mánuðinum. Aðrar breytinga á topplistanum eru þær að Hannes Hlífar Stefánsson (2478) á sætaskipti við Guðmund Kjartansson (2470) og fer úr 6. sæti upp í 4. eftir gott Ólympíumót. Þá kemur Dagur Ragnarsson (2436) nýr inn á lista á kostnað nýja skólastjórans.

Nýliðar

Sex skákmenn koma nýir inn á lista. Karma Halldórsson (1576) er þeirra stigahæstur. Aðrir eru Þór Jökull Guðbrandsson (1534), Daniel Esekiel (1531), Hafþór Andri Þorvarðason (1454), Ævar Þór Magnússon (1452) og Jakob Steinn Valdimarsson (1436).

Hækkun

Haustmót Taflfélags Reykjavíkur gaf vel af sér í hækkun fyrir efstu menn. Birkir Hallmundarson (1824) hækkaði um meira en 100 stig í opna flokkun og samtals um 187 stig í mánuðinum. Jósef Omarsson (2047) náði sér í 135 stig með því að næstum sópa B flokknum og samtals hækkaði hann um 158 stig. Óttar Örn Bergmann Sigfússon (1847) fór svo nálægt því að vera með þeim í 100 stiga klúbbnum með flottum sigri í opna flokknum.

Stigahæstu skákkonur landsins

Olga Prudnykova (2274) er enn stigahæsta skákkona landsins en Lenka Ptácníková (2074), Hallgerður H Þorsteinsdóttir (1973) og Guðrún Fanney Briem (1811) hækkuðu allar á Ólympíumótinu. Emilía Embla B. Berglindardóttir (1631) hækkaði mest á topplistanum, eða um 58 stig.

Stigahæstu ungmenni (u20)

Alexandr Domalchuk-Jonasson (2384) jók forskot sitt sem stigahæsta ungmenni landsins. Jósef Omarsson tók risastökk úr 11. sæti upp í 3. sæti.

Stigahæstir á viskualdrinum (50+)

Hannes Hlífar Stefánsson (2478) hækkaði um 7 stig á Ólympíumótinu og varð með því stigahæstur í 50+ flokknum.

Íslandsmót skákfélaga

Í ljósi þess að Íslandsmót skákfélaga hefst í dag þá má hér fyrir neðan sjá hvernig 20 stigahæstu skákmenn landsins dreifast í liðin í Úrvalsdeildinni.

- Auglýsing -