Íslandsmót skákfélaga hefst í kvöld. Annar helmingur ritstjórnar Skák.is hefur spáð í spilin og telur fjögur lið af sex í úrvalsdeild hafa möguleika á sigri. Hinn ritstjórinn er gjörsamlega vanhæfur enda formaður TR.
Vinnur Fjölnir aftur? Koma KR-ingar sterkari inn í skákina en í fótboltanum? Snúa TR-ingar aftur á toppinn eftir smá pásu? Eða mun ungt lið Blika krækja í dolluna?
Úrvalsdeildin
Þegar liðin á Chess-Results er skoðuð virðast ofangreind fjögur lið mjög áþekk af styrkleika.
Ritstjóri telur Fjölnismenn líklegasta. Litháarnir voru grjótharðir í fyrra og svo er Íslendingasveitin einnig grjóthörð. Með Braga Þorfinnsson fremstan í flokki.
Í viðtali við Skák.is frá keppnisstað í Rimaskóla, var Helgi Árnason, formaður Fjölnis, bjartsýnn á gengi sinna manna.
Fjölnismenn munu líkt og í fyrra koma sterkir til leiks og njóta þess að eiga litháísku „fjórmenningaklíkuna“ að. Þar eru alltaf einhverjir tilbúnir að mæta til leiks og reynast býsna sterkir. Fjölnismenn fagna því einnig að fá heimamanninn og stórmeistarann Braga Þorfinnsson í sveitina. Í 2. deild er B sveit Fjölnis skreytt blandaðri sveit karla og kvenna og afar jafnri þegar litið er til skákstiga
TR hefur án efa sterkasta „íslenska“ liðið og hafa aðeins einn erlenda skákmann. Gauti Páll gaf örstuttan tíma til að líta upp úr fersku tölublaði tímaritsins Skákar í morgun til að ræða við ritstjóra.
Taflfélag Reykjavíkur stefnir að því að verða ÍSLANDSmeistarar í skák, enda með öflugasta heimavarnarliðið!
Ritstjóri ætlar að spá þeim öðru sæti. KR-ingar lenda í þriðja sæti að mati ritstjóra Auðvitað er gæti þetta verið tóm steypa og KR-ingar t.d. geta vel unnið mótið. Formaður KR var hógvær í spjalli í morgun við ritstjóra – á milli þess sem hann var hringja í félagsmenn til að tryggja mætingu um helgina. Fjölmennasta hersveitin kemur úr vesturbænum.
KR-ingar hlakka til að taka þátt í skákhátíðinni (Íslandsmóti skákfélaga). Keppnin í ár verður jöfn og skemmtileg í öllum deildum.
Breiðablik er sýnd veiði og alls ekki gefin. Ungir og ferskir skákmenn. Í betri æfingu en flestir og hafa betra úthald. Rétt eins og Indverjar sýndu á Ólympíuskákmótinu – þá voru ungir Indverjar betri en „aldnir“ Kanar. Ég tel á góðum degi geti Breiðablik hreinlega orðið Íslandsmeistarar í skák!
Ritstjóri náði í Vigni Vatnar í morgun þegar hann var að vaska upp leirtauið eftir fyrirlestur Ivan Schitco í gær.
Ungt og þétt lið sem á séns í allar sveitir og ætlar að standa sig vel!
Taflfélag Garðabæjar verður með slakt lið og nánast dæmdir til falls. Taflfélag Vestmannaeyja ætti að sigla lygnan sjó í fimmta sæti.
Liðsstjóri TV, Þorsteinn Þorsteinsson átti stutt samtal við ritstjóra í hádegishléi frá skrifstofu sinni í Hagstofu Íslands.
Baráttan um Íslandsmeistaratitilinn verður á milli þriggja liða, Fjölnis, TR og KR-inga. Blikar gætu vissulega blandað sér í þá baráttu. Fallbaráttan í ár verður svo á milli TV og TG.
Harald Björnsson stjórnarmaður í TG gaf sér tíma skömmu eftir skákstigaúttekt á Skák.is til að spjalla við ritstjórann.
Það hefur ekki farið framhjá mörgum að TG missti marga öfluga liðsmenn í önnur lið en félagsmenn þjöppuðu sér saman og senda fleiri sveitir til leiks en í fyrra. Það er því mikill hugur í Taflfélagi Garðabæjar fyrir Íslandsmótið.
En látum svo við sitja. Spá undirritaðs er:
- Fjölnir
- TR
- KR
- Breiðablik
- TV
- TG
- deild
Þrjú a-lið eru í 1. deild og fimm b-sveitir! Það er því aðeins þrjú lið sem geta unnið sig upp í úrvalsdeild. Ekki nema það gerist að a-sveit falli og b-sveit sama félags vinni deildina en á því eru hverfandi líkur.
Ritstjóri metur það svo að baráttan verði á milli Akureyringa og Víkingaklúbbsins. Áþekkar af styrkleika. Mögulega gæti einnig TR-b unnið. Ritstjóri ætlar að spá að Akureyringar hafi þetta að þessu sinni. Formaður SA, Áskell Örn Kárason, rétt áður en hjólaði af stað upp brekkuna, var hvergi banginn í viðtali við Skák.is í morgun.
Stefnum á sigur í 1. deild. Áhöld um það hvor er sterkari, A eða B-sveitin!
Líklegast er að b-sveit TG falli. Ritstjóri ætlar að spá því b-sveit Akureyringa falli einnig og er því ekki alveg sammála formanninum!
Skákgengið gefur engan afslátt. Heyrum hvað Davíð Stefánsson sagði í viðtali við ritstjóra í morgun.
Gengismenn úr Skákgenginu eru bjartsýnir að vanda. Genginu hefur liðið vel í fyrstu deild og því er markmið okkar það sama og undanfarin ár, þ.e. að halda okkur uppi í þeirri næstbestu og vonandi að festa okkur í sessi þar. Skákgengið er jú þekkt fyrir öfluga liðsheild og gefa engan afslátt!!!
Gunnar Freyr Rúnarsson, formaður Víkingaklúbbsins, var út á Keflvíkurflugvelli að ná í erlenda liðsmenn sveitarinnar, þegar ritstjóri náði í hann. Formaðurinn spáir spennandi keppni.
Spái að baráttan um efsta sætið verði á milli a.m.k fimm líða!! Aðeins tvö af þeim eiga rétt að fara upp. SA og Víkingar. B sveitir TR, KR og Blika geta hins vegar unnið deildina. Verður svakalega spennandi.
Spá ritstjóra
- SA
- Víkingaklúbburinn
- TR-b
- Breiðablik-b
- KR-b
- Skákgengið
- SA-b
- TG-b
- deild
Svakalega erfitt að spá í spilin því liðin eru afar áþekk af styrkleika. Ritstjóri leggur samt undir á TR-c og Fjölnir-b taki tvö efstu sætin.
Vinaskákfélagið er líklegt til falls en erfiðara að spá hverjir fylgi þeim niður.
Helgi Brynjarsson, liðsstjóri Hróka alls fagnaðar, gaf sér tíma á milli funda á Alþingi þar sem hann vinnur til að tjá sig við ritstjóra.
Væntingar Hrókanna eru alltaf að komast upp um deild. Ef til vill er það þó raunsærra að koma sér undan falli um deild, þar sem lykilmenn liðsins hafa líkast til aldrei verið í jafn slæmu formi og nú, jafnt líkamlegu sem andlegu.
- TR-c
- Fjölnir-b
- Víkingaklúbburinn-b
- Breiðablik-c
- Hrókar alls fagnaðar
- SSON
- SAUST
- Vinaskákfélagið
- deild
Dímon virðist hafa sterkasta liðið í þriðju deild og leggur ritstjóri undir á sigur þeirra. Ritstjóri spáir að b-sveit TV fylgi þeim upp.
Ritstjóri náði í Hermann allsherjargoða í morgun þar sem hann var við mjaltir í fjósinu í Lyngbrekku. Hann var hógvær um gengi Goðans.
Ég reikna með að A-sveit Goðans verði um miðja deild. Dímon eru líklegir til árangurs í 3. deild. Vonast til að B-liði Goðans nái inn á topp 10 í 4. deild, þar sem SFÍ og KR-ingar eru líklegir til árangurs
Spá ritstjóra
- Dímon
- TV-b
- Goðinn
- KR-c
- SA-c
- TR-d
- Sauðárkrókur
- TG-c
- deild
Ritstjóri hafði ákveðið að spá 64 mislyndum biskupum sigri en þeir drógu sig úr keppni Sundurlyndir biskupar?
Skákfélag Íslands hefur safnað að sér öflugum her af mannskap og spáir ritstjóri þeim sigri. C-sveit TV fylgir þeim upp er spá ritstjóra.
- SFÍ
- TV-b
- KR-d
Hlakka til helgarinnar!
Áréttað að þessi spá er sett fram til gamans og ber að taka ekki alvarlega. Á bak við hana eru engin geimvísindi.
Gunnar Björnsson
Höfundur er annar ritstjóra Skák.is og liðsmaður í a-sveit TG um helgina…..kannski.