Það er lítil hvíld fyrir skákmenn þessa helgina, eftir langa og stranga helgi á Íslandsmóti Skákfélaga er komið að tveimur einvígjum í 16-manna úrslitum Íslandsmótsins í Netskák.
Tvö áhugaverð einvígi fara fram í kvöld. Stórmeistarinn Guðmundur Kjartansson kemur ferskur inn eftir sigur gegn stórmeistaranum Daniel Fernandez í lokaumferð Íslandsmóts Skákfélaga. Guðmundur mæti FIDE meistaranum Símoni Þórhallssyni sem vann sig inn á mótið í gegnum undankeppni. Guðmundur verður að teljast sigurstranglegri á pappírnum en Símon getur verið háll sem áll.
Í seinni einvígi kvöldsins mætast svo ungu skákmennirnir Aleksandr Domalchuk-Jonasson og Hilmir Freyr Heimisson. Hér eru á ferðinni tveir af efnilegri skákmönnum landsins og báðir stórmeistarakandídatar. Hilmir er í íslenska landsliðinu og Aleksandr er svo sannarlega að banka á dyrnar. Hilmir er aðeins stighærri í hraðskák og er talinn líklegri í þessu einvígi. Menn hafa hinsvegar oft farið flatt á því að vanmeta Aleksandr og verður gaman að fylgjast með þessu einvígi! Þeir mættust einmitt á Íslandsmóti Skákfélaga nýverið og þar endaði skák þeirra með jafntefli.
Hægt verður að fylgjast með einvígjunm í beinni útsendingu á Sjónvarpi Símans. Útsending hefst klukkan 20:00 á Sjónvarpi Símans en einnig er hægt að fylgjast með á netinu hér -> RÍSÍ TV — Rafíþróttasamband Íslands (rafithrottir.is)
Tefld verða 10 skáka einvígi með tímamörkunum 3+2. Komist keppandi í 5,5 vinning er einvíginu lokið. Skilji menn jafnir 5-5 verður bráðabanaskák eða það sem menn kalla yfirleitt Armageddon þar sem hvítur hefur 5 mínútur gegn 4 hjá svörtu en svörtum nægir jafntefli til að vinna.
Hægt er að leggja á einvígin á Lengjunni.
8. september hófst mótið með einvígjum þar sem stórmeistarinn Helgi Ólafsson fór áfram með sigri gegn Þresti Þórhallssyni og stórmeistarinn Bragi Þorfinnsson lagði Dag Arngrímsson að velli.
22. september síðastlinn bættust svo stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson og alþjóðlegi meistarinn Björn Þorfinnsson við þá sem tryggðu sæti í 8-liða úrslitum. Hann lagði Guðmund Gíslason og Björn sneri niður Olgu Prudnykovu.
Mótið er eins og áður segir með glæsilegra móti og heildarverðlaun er 1 milljón króna eins og greint var frá í mótatilkynningu.