Tölfræði skákarinnar er skemmtilegt fyrirbrigði og heimtar sitt. Sá sem þessar línur ritar fór að velta því fyrir sér, þar sem hann gekk um gólf undir blálok Ólympíumótsins í Búdapest á dögunum, að nú stæðu líkur til þess að í opna flokknum færi sigursveit í fyrsta sinn í 50 ár gegnum mótið án þess að tapa einni einustu skák. En það gerðist ekki! Í næstsíðustu umferð tók dáðadrengurinn Pragnanandhaa upp á því að tapa fyrir Wesley So, sem með því girti fyrir þann möguleika að Indverjar næðu að feta í fótspor sovésku sveitarinnar sem tefldi taplaus í Nice sumarið 1974 og var skipuð Karpov, Kortsnoj, Spasskí, Petrosjan, Tal og Kusmin.
Í Búdapest urðu hins vegar ákveðin kaflaskil hvað varðaði árangur ríkjandi heimsmeistara því að í fyrsta sinn gerðist það að heimsmeistari tefldi þar án þess að vinna eina einustu skák, hann tapaði einni og gerði sjö jafntefli. Ekki getur sú frammistaða talist gott veganesti fyrir Ding Liren, sem hinn 26. nóvember nk. mun hefja titilvörn sína gegn Dommaraju Gukesh í Singapúr.
Ríkjandi heimsmeistarar töpuðu stundum – en ekki oft á Ólympíumótum. Að tímabilinu 1993-2006 slepptu, en þá voru tveir heimsmeistaratitlar í „umferð“, eru það þessir: Aljekín (1931 Mathison, 1933 Tartakower), Euwe (1937 Gauffin), Botvinnik (1958 Duckstein, 1962 Gligoric og Uhlmann), Tal (Penrose 1960), Kasparov (Seirawan 1986), Carlsen (2014 Naiditsch og Saric).
Á millistríðsárunum tók Alexander Aljekín þátt á fimm Ólympíumótum. Hið fyrsta opinbera var haldið í London 1927 og þá voru hvorki Capablanca né Aljekín með. Það ár tefldu þeir hið fræga einvígi í Buenos Aires sem lauk með sigri Aljekíns. Árið 1939 voru þeir aftur komnir til Buenos Aires, Kúbumaðurinn að tefla á sínu eina Ólympíumóti. Og þar var loft lævi blandið; Aljekín hafði aldrei gefið Capa kost á öðru heimsmeistaraeinvígi og bar því við að Capa hefði ekki getað tryggt sömu verðlaunaupphæð og áskoranda bar árið 1927, 10 þúsund dali. En nú börðust þeir um verðlaun fyrir bestan árangur á 1. borði og gullið féll Capablanca í skaut: „Enn sé ég hann ljóslifandi fyrir mér, þar sem hann starir heiftúðugu augnaráði á Capablanca, sitjandi í dýrðinni uppi á pallinum. Reiðin sauð í Aljekín þegar ræðumennirnir slógu Capabanca gullhamra og það var oft,“ skrifaði einn fremsti meistari Breta, Harry Golombek – Skákritið 1951.
Tveir íslenskir skákmenn, Eggert Gilfer og Ásmundur Ásgeirsson, tefldu við Aljekín á Ólympíumótum á fjórða áratugnum. Of mikil virðing fyrir hinum fræga mótstöðumanni bar þá ofurliði:
Ólympíumótið í Folkestone 1933:
Alexander Aljekín (Frakkland) – Ásmundur Ásgeirsson
Colle-byrjun
1. d4 Rf6 2. Rf3 e6 3. e3 c5 4. Bd3 Rc6 5. a3 cxd4 6. exd4 d5 7. 0-0 Bd7 8. b3 Bd6 9. He1 Hc8 10. Bb2 0-0 11. Re5 Bb8 12. Rd2 g6 13. Df3 Rh5 14. De3 Rg7 15. Dh6 Re7 16. g4
Hindrar að riddari komist til f5. En hér átti svartur hiklaust að leika 16. … f6! Fórnin 17. Rdf3!? Með hugmyndinni 17. … fxe5 18. Rg5 leiðir þá til afar flókinnar baráttu.
16. … Kh8? 17. Rdf3 Rg8 18. Dh3 Be8 19. Bc1!
Hnitmiðaður leikur.
19. … Bd6 20. Rg5 h5
Eða 20. … Rf6 21. Dh6! o.s.frv.
21. gxh5 Rxh5
22. Rgxf7+! Bxf7 23. Bxg6 Bxg6 24. Rxg6+ Kg7 25. Rxf8
– og svartur gafst upp.
Skákþættir Morgunblaðsins eru birtir á Skák.is u.þ.b. viku eftir að þeir birtast í Morgunblaðinu. Skákþáttur þessi birtist 19. október 2024