Þrír Íslendingar hófu í dag leik á London Chess Classic sem fram fer á Emirates vellinum, heimavelli Arsenal. Sjálft London Chess Classic er sterkt lokað mót með heimsklassaskákmönnum á borð við Vidit og Mamedyarov í broddi fylkingar. Íslendingarnir þrír taka þátt í Masters sem er opið mót.

85 skákmenn taka þátt í Masters flokki og er Raunak Sadwhani stigahæstur keppenda. Vignir Vatnar er númer 6 í stigaröðinni, Björn Þorfinnsson númer 26 og Björn Hólm Birkisson númer 54.

Vignir Vatnar Stefánsson vel einbeittur. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Vignir lenti í smá klandri þar sem mótshaldarar gerðu mistök og hann var ekki paraður í fyrstu umferð. Andstæðingur fannst þó fyrir rest og mætti Vignir Bretanum Nevil Chan (2011), töluvert veikari andstæðing en hann hefði í raun átt að mæta.

Vignir fékk snemma þægilegt tafl með meira rými á kóngsvæng og mikilvægum veikum f5 reit sem hann nýtti til vinnings.

Í vígahug Björn Þorfinnsson við taflið á Reykjavíkurskákmótinu í fyrra. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Björn Þorfinnsson lagði hinn káta James Merriman (2084) að velli. Merriman var lengi vel kátur og tefldi vel en missti af einföldu jafntefli 33…Hc8 sem nánast þvingar jafnteflið. Merriman fékk annan séns á að ná jafntefli en var þá orðinn svo lufsusúr að hafa misst skákina niður að hann molnaði og tapaði.

Björn Hólm – Svona mæta menn á sviðið!

Björn Hólm Birkisson mætti spænskum stórmeistara Jose Garcia (2465). Stórmeistarinn sýndi af hverju hann ber þennan titil, sveið endatafl með biskupapar gegn biskup og riddara en jafnt á peðum. Alvöru svíðingur.

Á morgun verður svo tvöföld umferð, eina tvöfalda umferðin á mótinu.

- Auglýsing -