Skákþing Reykjavíkur hélt áfram um helgina þegar 2. umferð fór fram í Skákhöllinni í Faxafeni í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur. Allar skákir úr 2. umferð hafa verið slegnar inn þannig að við getum kíkt yfir gang mála!
Flestir stigahæstu menn mótsins náðu í sigur og hafa sjö skákmenn tvo vinninga af tveimur mögulegum. Fyrsta skákin þar sem bókin fékk bit var í viðureign Tristans Fannars en hann lagði Theodór Eiríksson að velli í snarpri skák.

Á efsta borði mætti stigahæsti skákmaður Íslendinga, Vignir Vatnar Stefánsson margföldum Íslandsmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu. Báðir þessir skákmenn hafa í gegnum árin sýnt mikið og gott fordæmi með góðri þátttöku í mótum og sérlega gleðilegt að sjá Vigni leggja stigin sín undir á Skákþingi Reykjavíkur!
Vignir hafði hvítt og fékk hættuleg sóknarfæri í „staka-peðs stöðu“. Það að Lenka hafi talið sig þurfa að leika 15…Hf8 sýndi að eitthvað hafði farið úrskeiðis hjá svörtum. Vignir stillti upp í mátsókn og vann snaggarlegan sigur.

Vignir er ekki eina fyrirmyndin þegar kemur að landsliðsmönnum en Hilmir Freyr Heimisson er einnig meðal þátttakenda á Skákþingi Reykjavíkur. Hann mætti hinum unga Benedikt Þórissyni og fór sér engu óðslega framan af skák. Benedikt bauð hinsvegar upp á taktísk færi með 17.Dd2?
Segja má að skákin hafi ráðist hér, Hilmir lét ekki bjóða sér slíkt færi tvisvar og lék að sjálfsögðu 17…Rxg2! Vandamál hvíts er að 18.Kxg2 strandar á 18…Bh3+!
Þetta er ákveðið þema sem menn eiga að þekkja og þurfa að læra. Til dæmis þekkist þetta þema úr gömlum rúlluskautavaríanti í franskri vörn.
Eftir 16…Kxg7 kemur 17.Bh6+ en munurinn er reyndar sá að svartur getur teflt áfram með 17…Kg6! og flækjurnar halda áfram. Í tilfelli Benedikts og Hilmis var ekki í boði fyrir hvítan að svara 18…Bh3+ með 19.Kg3 þar sem svartur á 19…Df4+ smá blæðbrigðamunur en svipað þema.
Peðsvinningurinn á g2 nægði Hilmi til vinnings.

Á þriðja borði fór fram ótrúleg skák. Hinn upprennandi FIDE-meistari Bárður Örn Birkisson lagði þá að velli Arnar Milutin Heiðarsson í ótrúlegri 129 leikja skák! Ritstjórn spyr sig hvort hér sé að ferð lengsta skák í sögu Skákþings Reykjavíkur?
Taktískar aðgerðir í miðtafli skildu hvítan eftir með endatafl með H+R gegn B+B en báðir höfðu þrjú peð á kóngsvæng. Það var ekki fyrr en í 86. leik sem sjö eða færri menn voru á borðinu og þá er hægt að ráðfæra sig við hin svokölluðu „Tablebase“ sem segir nákvæmlega til um réttu niðurstöðu skákarinnar með réttri taflmennsku.
Í 86. leik var matið jafntefli. Það hélst allt fram í 115. leik þegar Arnar lék 115…Bb3??
Hér hefði 116. Hd4 leitt til vinnings. Hvítur hótar g3 og vinna f-peðið og kóngsleikir hjá svörtum gefa kost á Kf3 í næsta leik og hrókurinn stoppar skákir hvítreitabiskupsins og f4 peðið fellur. 116. Hd3? gaf sénsinn til baka en 116…Be6?? skilaði vinningnum aftur til hvíts. 116…Bf7 hefði gefið möguleikann á …Bh5+ þegar hvíti kóngurinn kemur á f3 sem 116…Be6?? gerir ekki. Bárður nýtti möguleikann og náði í ótrúlegan seiglusigur!

Á 4. borði fór fram hörkuskák. Þorvarður Fannar Ólafsson stýrði þar hvítu mönnunum gegn FIDE-meistaranum Ingvari Þór Jóhannessyni. Ingvar var greinilega ákveðinn að selja sig dýrt og valdi að taka slaginn í tvöföldu kóngspeði frekar en að tefla frönsku vörnina. Segja má að báðir keppendur hafi lent á ótroðnum slóðum og snemma fór mikill tími af klukkunni. Eftir 9…c6 hjá svörtum voru báðir keppendur komnir undir 25 mínútur á klukkunni!
Peðsfórn Ingvars heppnaðist ekki fullkomlega og vandaður hróksleikur 12.Hh4! gaf hvítum betra tafl. Þorvarður fann ekki rétta framhaldið í kjölfarið og eftir 13.Ra4? var svartur kominn með alla sénsana sérstaklega eftir drápið á c2, 13…Rxc2+ og 14.Kf1
Svarta staðan hangir á því að eftir 14…Db5! 15.Dxc2 Bf5 á hvítur ekki 16.Hd4 Hd8 17.Hxd8 Kxd8 18.Ke2 vegna 18…He8+. Svartur fékk betra endatafl og góða sénsa en þegar hvítur tapaði a4 peðinu í tímahraki reyndist það um of og Ingvar náði í góðan sigur með svörtu.

Stigahærri skákmenn voru loks stöðvaðir á fimmta borði en þar tefldi Júlíus Friðjónsson lengst af glimrandi skák í sikileyjarvörn gegn FIDE-meistaranum Símoni Þórhallssyni.
Júlíus fékk mjög þéttan peðamassa á miðborðinu og stóð til vinnings lengst af seint í miðtaflinu og í endataflinu. Símon náði að malda í móinn nægjanlega lengi til að næla sér í mikið seiglujafntefli.

Fjölnismaðurinn Oliver Aron Jóhannesson hefur verið á góðu skriði undanfarið. Oliver hafði svart gegn Adam Omarssyni og nýtti sér ónákvæman leik Adams 4.e4?! snemma í byrjuninni. Oliver fékk strax betra tafl og mikið frumkvæði og leikirnir flæddu mun betur fyrir hann og hans stöðu. Góður og nokkuð auðveldur sigur.

Magnús Pálmi Örnólfsson er einn af þeim sem hefur fullt hús á Skákþinginu. Hann lagði landsliðskonuna Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur í flókinni skák. Seint í byrjuninni virtist Magnús vera að ná yfirhöndinni eftir 11…De5.
Hvítur hefði hinsvegar haldið á trompunum með því að leyfa dráp á f2 með ótrúlegum leik 12.Rf3! Bxf2+ 13.Ke2 og svo kemur h3 og hvítur vinnur lið. Skákinni er engan veginn lokið en athyglisverður möguleiki!
Jóhann Ingvason kláraði skemmtilega gegn sínum andstæðingi.
29.Bg8!! var skemmtileg útgáfa af þema sem „Skák-Víkingurinn“ (*hóst* ég) hef bæði gert vídeó um og skrifað grein um!
Eins og áður sagði var það Tristan Fannar Jónsson sem var fyrstur af stigalægri andstæðingum til að bíta frá sér og leggja stigahærri andstæðing á mótinu. Bókin fékk loks að kenna á því!!
Taktíski radarinn var í góðu lagi og 13.Re5! var flottur leikur. Vandamálið við 13…Rxe5 14.dxe5 Dxe5 er að 15. Hxd8 Kxd8 16.Bb6+ vinnur svörtu drottninguna! Flott taktík hjá Tristan Fannari!
Önnur úrslit voru meira og minna eftir bókinni!
Í 3.umferð fer fram á miðvikudaginn fara strax að mætast stálinn stinn! Oliver Aron hefur hvítt á Vignir Vatnar, Hilmir hefur hvítt á byrjanavélina Birki Ísak, Magnús Pálmi hefur hvítt gegn Bárði og Ingvar Þór hefur hvítt á hinn tvíburann, Björn Hólm Birkisson. Gauti Páll er síðasta skyttan af þeim með fullt hús og fær erfiða skák gegn Símoni.