Íslenska liðið á EM 50+ vann góðan sigur á Ungverjum í fjórðu umferð sem fram fór í dag í Slóveníu. Sigurinn og önnur úrslit fleyttu íslenska liðinu í óskipt efsta sætið!
Jóhann Hjartarson gaf tóninn á fyrsta borði. Hann hafði hvítt gegn IM Csaba Csiszar (2366) sem beitti Blumenfeld-mótbragði. Jóhann lék snemma e4 sem gerir svörtu stöðuna ansi brothætta og þarf svartur að tefla af nokkrum krafti til að halda velli. Fór svo að Jóhann fékk mun þægilegri stöðu og var auk þess með gott tímaforskot.
Fór líka svo að Ungverjinn réð ekki við stöðuna.
19…Bd6? var slakur leikur í erfiðri stöðu og nú vann hvítur lið 20.Rf7+ Hxf7 21.Bxd6 og hvítur vinnur skiptamun og mótspil svarts hvergi sjáanlegt. Úrvinnslan vafðist ekki fyrir Jóhanni.
Adam var þó ekki lengi í paradís og sigur Jóhanns kvittaðist út á öðru borði. Þar varð Margeiri á í messunni í byrjuninni gegn stórmeistaranum Zoltan Varga (2315)
Margeir er hér með mjög fína stöðu með svart en þarf að stoppa Rc4 hjá hvítum. Hann valdi vitlausa leið, 14…Ba6? sem gefur a4 peðið með 15.Dxa4 og hvítur stendur betur þó svartur hafi einhverjar bætur. Rétt hefði verið 14…Be6 og svartur stendur nokkuð betur.
Restin af skákinni var barátta svarts við að ná nægu spili fyrir liðið og á kafla var Margeir ekkert langt frá því. Ungverski stórmeistarinn hafði þó að lokum betur og staðan orðin 1-1.
Sem betur fer var Þröstur Þórhallsson klár í bátana á þriðja borði. Þar mætti hann stórmeistaranum Peter Horvath (2370). Þröstur fór betur í gegnum miðtaflið og Peter ákvað að gefa skiptamun í erfiðri stöðu eftir 25.b4 hjá Þresti.
25…Hxb4 26.Rd5 Þröstur stóð betur en þá tók Ungverjinn við sér og hurð skall sannarlega nærri hælum í tímahrakinu!
Síðasti leikur Þrastar 36.Db4?? bauð svörtum upp á taktík, hér var nefnilega 36…Rxc2! í boði og svartur vinnur of mikið lið! Svartur var líka í tímahraki og lék 36…Df6 og tímahrakið hélt áfram, svartur missti af góðum leiðum en stóð vel þar til hann missti þráðinn í 40. leik. Þröstur vann sig aftur inn í skákina, náði drottningarkaupum og smíðaði svo smekklegt mátnet í kringum svarta kónginn.
Staðan hér orðin 2-1 fyrir Ísland. Sem betur fer var allt „under control“ á fjórða borði hjá Björgvin Jónssyni sem mætti IM Laszlo Krizsany (2334) með svörtu. Björgvin komst klakklaust í gegnum byrjunina og fékk mjög þægilegt tvöfalt hróksendatafl þar sem hann stóð aðeins betur og missti örugglega af einhverjum sénsum. Jafnteflið var hinsvegar aldrei í hættu og það dugði okkur til að vinna 2,5-1,5 sigur á þessari þéttu ungversku sveit.

Staðan:

Íslenska sveitin er nú ein efst eftir hagstæð úrslit á öðrum borðum. Næst á dagskrá er sterk sveit Ítala og ljóst að sú viðureign ásamt viðureigninni við England (sem er óumflýjanleg) mun ráða úrslitum á þessu Evrópumóti enda eru þar tvö stigahæstu liðin á ferð.

Tefldar eru 9 umferðir á mótinu og er íslenska liðið nokkuð þétt, skipað þremur stórmeisturum og númer 3 í styrkleikaröðinni.

Lið Íslands skipa:
- GM Jóhann Hjartarson (2453)
- GM Margeir Pétursson (2407)
- GM Þröstur Þórhallsson (2383)
- IM Björgvin Jónsson (2314)
- FM Ágúst Sindri Karlsson (2228)
Liðsstjóri er Jón Gunnar Jónsson.














